When life becomes a little difficult then I…

Í fyrsta sinn í svo ótrúlega marga daga get ég leyft mér að setjast niður og gert bara það sem mig langar að gera. Það er búið að vera svo brjálað að gera hjá mér en þá líður mér líka best. Ég er búin að vera á fullu frá morgni til kvölds alla síðustu viku!

Síðustu mánuði hef ég fundið fyrir vaxandi minnimáttarkennd og algjörum ómögulegheitum, mér hefur fundist það vera svo niðurlægjandi að geta hvorki gengið eða talað. Svo þegar ég las það sem ég stafaði með augunum fyrir styrktartónleikana sem voru haldnir fyrir mig og þá hætti ég þessum aumingjagangi og sjálfsvorkunn því lifið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Á vegi manns verða erfiðleikar og áföll en það er okkar að vinna úr og láta það ekki eyðileggja lífshamingjuna. Því gleðiglampinn í augum og brosið fleytir manni svo miklu lengra og ég ætla mér að halda í það eins lengi og ég lifi.

. . .

7// For the first time in a while I can just sit down and do whatever I like. Last week was very busy from morning till night, but that is also the way I like it.

For the last few months I have felt a growing lack of self confidence and the feeling of not measuring up to standards and I have felt it degrading to not be able to walk or talk. Then when I read my post from two years ago, from the fundraising concert held for me, where I could only make words letter by letter by pointing my eyes to them, I stopped feeling sorry for myself because life is not hard unless you make it hard. People go through hardship and they just have to work through it without having it spoil the happiness of life. Twinkly eyes and a happy smile get you so much further and I’m going to hold on to that as long as I live.

Fallegasta gjöf sem til er


Á liðnum dögum voru tvö ár frá því þessi stórkostlegi atburður átti sér stað. Þá söng þessi dásamlega vinkona mín, bæði ein og í hópi með öllu hæfileikaríkasta tónlistafólki Ísafjarðarbæjar, heila stórtónleika fyrir mig og fjölskyldu mína. Fyrir troðfullri Ísafjarðarkirkju skilaði hver einn og einasti sem komu að þessum tónleikum af sér algjörlega ógleymanlegum, dásamlegum og tárvotum klukkustundum hjá mér. Fyrir mér var þetta svo einstakt, þó ég væri föst í rúmi inn á stofnun, þá skynjaði ég allan samhuginn og kærleikann, hjartahlýjuna og kraftinn sem bókstaflega flæddi í stríðum straum í gegnum skjáinn og endaði allur í hjartanu á mér. Ég man hvað mér fannst það alveg hræðilegt að ég væri svo veikburða og kraftur minn væri svo lítill og hann var svo langt því frá nægur til að ég gæti verið í salnum og þakkað öllum fyrir.

Tónleikarnir veittu mér kraft:

Það er ótrúlegt hvað svona samhugur og kraftur geta látið magnaða hluti gerast. Eftir þessa tónleika vöknuðu lungun í mér og ég gat loksins alveg sagt skilið við súrefnisgrímuna sem hefur svo oft bjargað lífi mínu.

,, Það voru haldnir styrktartónleikar í Ísafjarðarkirkju til styrktar Katrínu Björk og okkur fjölskyldunni, þarna komu fram frábærir kórar og tónlistarfólk. Ég og Katrín Björk fylgdumst með þessum atburði í gegn um síma og hrifumst með öllum kærleikanum og orkunni sem frá þeim streymdi. Vil ég þakka öllum sem tóku þátt í þessum frábæru tónleikum.
Katrín tjáir sig með augunum.
Við erum með blað sem er með stafrófinu á og með því tjáir hún sig alveg vilt og galið. Og stafaði hún þessa kveðju staf fyrir staf. Þetta er alls ekki fyrir alla, þurfa einstaklingar að vera afburðar greindir og hafa allt of stóran skammt af þolinmæði, því við erum alltaf að grípa fram í og hún Katrín Björk er varla búin að gera einn staf þegar við byrjum að giska á orðið.
Þetta er kveðjan frá Katrínu Björk sem Hulda María las á tónleikunum.
Þegar lífið fer í átján kollhnísa, fimmtán handahlaup, tólf heljarstökk og brotlendir svo, þá er gott að vera umvafinn góðu fólki. Ásgeir Guðmundur Gíslason kærasti minn, fjölskylda, tengdafjölskylda og vinir hafa ekki vikið frá mér þessa mánuði. Og starfsfólk sjúkrahúsanna hefur verið mér mjög gott.
Ég er innilega þakklát þeim sem stóðu að stofnun styrktarsjóðsins og þeim sem lagt hafa honum lið, einnig ykkur sem standið að þessum tónleikum, ég veit vel að vinnan bakvið hvert lag er mikil.
Svo þessi ótrúlegi árangur í Reykjavíkurmaraþoninu, ég mun aldrei ná að trúa því að það hafi verið hlaupnir 511 kílómetrar fyrir mig, og allir styrktaraðilar hlauparanna, ég er svo þakklát. Einnig allar kveðjunar sem okkur hafa borist, þetta veitir mér allt styrk og er mér mikil hvatning. Svo fékk ég fallegasta bútasaumsteppi sem ég hef augum litið, þar er áþreifanlegur kærleikur í hverju spori. Samhugur í litlu bæjarfélagi kemur svo glöggt í ljós þegar lífið brotlendir svona.
Söngur hefur verið stór þáttur í lífi mínu og þótt hann hafi brugðist mér núna þá get ég sem betur fer hlustað – og mörg laganna á þessu prógrammi eru mér afar kær. Þá sérstaklega Heyr mína bæn og ég trúi því að einhver heyri mína bæn.
Lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Á vegi manns verða erfiðleikar og áföll en það er okkar að vinna úr og láta það ekki eyðileggja lífshamingjuna. Því gleðiglampinn í augum og brosið fleytir manni svo miklu lengra og ég ætla mér að halda í það eins lengi og ég lifi.
Þetta ljóð samdi ég 8. ágúst síðastliðinn.

Á leið minni um lífsins ólgu sjó

stundum í stórhríð og byl

hefur það sýnt sig 

að alltaf styttir upp

þó það sýnist svart þess á milli.

Þá þarf ég kjark og þor

til að fara aftur

út á þilfar á ný
Njótið lífsins.”

Ég er svo óendanlega heppin með þetta fjölmarga, stórskemmtilega og afar yndislega fólk sem er allstaðar í kringum mig. Þau létu þessa tónleika verða að veruleika, um hundrað manns komu fram á þessum tónleikum. Ég hafði sungið með öllum kórunum sem komu þarna fram og allir sem sungu á þessum tónleikum sungu sig inn í hjarta mitt. Þá sérstaklega æskuvinkona mín Arnheiður. Við höfum í öll þessi ár notið okkar saman, við hlæjum og syngjum alveg endalaust saman og alls ekkert minna nú þó Arnheiður sé rödd okkar beggja alla vega enn sem komið er. Ég er svo endalaust heppin! ❤
Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar karlakórinn tók Rósina en það var lagið okkar afa og við sungu það mikið saman. Það mun alltaf eiga sérstakann stað í hjarta mínu.

Og svo þegar Arnheiður söng, Er sólin skín á skjá. ❤

Ég læt hér fylgja með mína útgáfu af Heyr mína bæn þar sem Arnheiður raddar og spilar á píanóið og fleiri vinir okkar spila á öll hin hljóðfærin. Þetta gerðum við fyrir níu árum.

Beautiful day 

Ég elska að taka vel á því í æfingum! Núna er ég búin að fara á fjórar æfingar síðan á mánudaginn og er að bíða eftir þeirri fimmtu sem verður á eftir. Það er svo dásamleg tilfinning að fá að verða útkeyrð og úrvinda eftir æfingar. Ég nýt þess svo einstaklega að fá að hafa tækifæri á því að fá harðsperrur og verða gjörsamlega útkeyrð í þeim vöðvum sem ég hef verið að æfa. Ég er að leggja mig alla fram um að ná að vera full af orku í æfingunum og vera úthvíld og vel nærð, á sama tíma er ég að læra að eiga tíma til að horfa á þætti, lesa, skoða internetið, svara og senda pósta á meðan hugurinn er allur að sinna vinnunni minni og að skrifa bloggfærslur. Ég elska að bæði sjá og finna agnarlitla bætingu þó að í enda dagsins sé ég úrvinda, lafsveitt og móð, þá er hárið mitt komið í allar áttir og farðinn í andlitinu allur farinn og þá veit ég að ég er pínulitlu agnarsmáu skrefi nær því að geta afkastað aðeins meira yfir daginn.

Ég er svo ótrúlega heppin! ❤