Tvær stjörnur

Draumur að rætast.

Ég fékk hugmyndina að hálsmeninu Tveimur stjörnum fyrir sjö árum. Úr meninu má sjá tvær stjörnur, eða verur, sem styðja hvor við aðra. Þegar hugmyndinni að hálsmeninu laust niður í kollinn á mér þá langaði mig að tjá svo margt með tveimur stjörnum. Menið stendur fyrir kærleika, von, samvinnu og ekki síst vináttu. Vináttan felur svo margt í sér sem ég sé í tveimur stjörnum. Þetta er gleði eins og dansandi manneskjur eða vinur að styðja vin og svo mætti lengi telja. Það getur hver og einn fundið sína merkingu í hálsmeninu.

Hrafnhildur, frænka mín, með hálsmenið

Eftir að hafa rissað upp hönnunina tók Haraldur Hrafn Guðmundsson, mágur minn og gullsmíðameistari, við og smíðaði gripinn í samvinnu við mig. Hálsmenið er úr silfri og á 45 cm silfurkeðju, – gullfallegt. Það var svo fyrir tveimur árum sem ég fékk styrk úr Þróunarsjóði Flateyrar til að fullvinna menið og hefja framleiðslu á því – og þá gat verkefnið farið af stað fyrir alvöru.

Ég kynntist fyrst starfi endurhæfingardeildar Grensáss árið 2014 og eftir stóra áfallið mitt árið 2015 dvaldi ég á Grensás í næstum því ár. Starfið þar skipti sköpum fyrir mínar framfarir. Fyrir ári síðan hitti ég því stjórn Hollvina Grensáss og viðraði hugmynd mína við þau að menið yrði selt til styrktar Grensás. Þau tóku hugmyndinni fagnandi.

Í vor fagnar Grensássdeildin 50 ára afmæli og af því tilefni verður söfnunarþáttur í sjónvarpi RÚV 6. október. Af þessu tilefni verður hálsmenið Tvær stjörnur til sölu hjá https://grensas.myshopify.com og rennur helmingur ágóðans af hverju meni til Grensássdeildar. Með Tveimur stjörnum vil ég sýna í verki þakklæti mitt til Grensássdeildar.

Ég elska að sjá svona samvinnu verða að veruleika. Ég er að springa úr spenningi að geta loksins sleppt þessu frá mér. Ég vona að sem flestir kíki á síðuna og sendi mér svo þeirra upplifun af þessum tveimur stjörnum. Ég óska að þær fái að lifa lengi og að sem flestir muni bera þær um ókomin ár.

Til hamingju Grensás með 50 ára afmælið!

Að duga eða drepast

Ég sagði við mömmu að ég væri alveg að gefast upp og hún svaraði ,,að það væri annað hvort að duga eða drepast”, ég ákvað að duga eitthvað áfram.

Finnst mér ljóð eða viska sem tileinkuð er móður Teresu eiga svo vel við og vera svo hvetjandi.

GJÖF LÍFSINS
Lífið er tækifæri, gríptu það.
Lífið er fegurð, dáðu hana.
Lífið er gjöf, njóttu hennar.
Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika.
Lífið er áskorun, taktu henni.
Lífið er skylda, gerðu hana.
Lífið er leikur, leiktu hann.
Lífið er dýrmætt, gættu þess.
Lífið er auðlegð, varðveittu hana.
Lífið er kærleikur, gef þig honum á vald.
Lífið er loforð, láttu það rætast.
Lífið er sorg, sigraðu hana.
Lífið er söngur, syngdu hann!

Þegar ég vaknaði eftir stóru blæðinguna og aðgerðina, þá var það fyrsta sem kom í huga minn, aumingja mamma og pabbi, hvað þetta verður erfitt fyrir þau.

Ég fann ekki fyrir kvíða, hann var horfinn.

Eftir seinustu blæðingu tókst kvíðanum að troða sér aftur inn í huga mér og nú er verkefni að henda honum þaðan út aftur. Það er svo íþyngjandi að burðast með kvíða.

Ég hef aldrei skilgreint mig fatlaða, það eru aðrir sem gera það, ég er bara ég og fékk þetta verkefni sem ég reyni að vinna mig í gegnum og verða betri í dag en í gær.

Ég er mjög þakklát fyrir það sem ég get enn gert og nýt þess að skapa, áður var það söngurinn núna er það myndlistin og hönnun, en ég hannaði með góðri hjálp hálsmenið Tvær stjörnur.

Þakklætið og vonin um lyfið hafa hjálpað mér að gefast ekki upp, ég verð að æfa mig betur í að vera ekki hrædd um að missa það sem ég hef möguleika á að njóta í dag.

PAINTING IS MY NEW SONG

Síðastliðinn laugardag opnaði ég málverkasýningu í Krummakoti, vinnustofu listakonunnar Jean Larson á Flateyri. Við Jean vinnum svo vel saman og ég hlakkaði til að koma til hennar og sjá sýninguna. Ég var búin að hugsa mikið um það hvort ég gæti sjálf verið viðstödd opnunina og efaðist satt að segja um það, enda er ég búin að vera mjög slöpp undanfarnar vikur.


Þegar ég vaknaði þennan laugardag fann ég þó, til allrar hamingu, að ég treysti mér til þess að bregða mér til Flateyrar og opna sýninguna með Jean og góðum vinum mínum sem skipulögðu hana með okkur.  Við mamma undirbjuggum daginn vel og mér fannst svo gaman að velja loksins föt og hafa mig aðeins til. Ég hafði ekkert farið af spítalanum síðan ég fékk áfallið um daginn og ég fann tilhlökkunina hríslast um mig. 

Ég fann líka fyrir smá kvíða, því ég get aldrei alveg treyst á það hvernig dagsformið verður hverju sinni. Ég vonaði bara að þetta myndi allt ganga vel og við mæðgurnar héldum af stað til Flateyrar fullar eftirvæntingar.

Allt gekk framar okkar björtustu vonum þennan dag. Þegar við mamma komum til Flateyrar tóku Jean og Alan maðurinn hennar á móti okkur við Krummakot. Jean var búin að gera vinnustofuna sína svo fallega í tilefni dagsins og ég sá strax hvað myndirnar mínar nutu sín vel á veggjunum. Það var eitthvað svo falleg og hlý birta á verkstæðinu sem Jean var eiginlega búin að breyta í lítinn sýningarsal.

Mér brá við að sjá hvað það voru margir gestir mættir á sýninguna. Mér fannst æðislegt að hitta allt þetta fólk og finna stemninguna á staðnum og alla jákvæðu orkuna. Ég hitti marga vini og kynntist líka nýju fólki sem var áhugasamt um myndirnar mínar. Það var svo gaman að sjá hvað margir stöldruðu lengi við og spjölluðu fyrir utan Krummakot í góða veðrinu sem við fengum þennan dag.

Ég tek þennan kraft með mér inn í næstu vikur og býð ykkur að koma og skoða sýninguna mína, Painting is My New Song.