10 hlutir sem ég vil gera í júlí


Júlí er rétt nýhafinn með sól og heitu lofti. Það verður allt annar bragur yfir öllu á björtum sumardögum líkt og ævintýraryki hafi verið stráð um allt sem veitir hverjum manni gljáa, eftirvæntingu og gleði. Ég nýt þess að liggja á sólbekk út á palli með góða bók og hlusta á fuglana í gróðursæla fallega garðinum mínum. Margir eru eflaust nýkomnir heim úr sólinni eða bíða þess með eftirvæntingu að fara til útlanda. Ég ætla að sleppa því þetta árið að fara til útlanda þó ég njóti mín best með strandkrullur og sand á milli tánna þá er geta mín enn svo takmörkuð að ég efast um að ég nyti mín vel. En ég æfi mig á hverjum degi til þess að í náinni framtíð geti ég notið þess eins og áður 🙂
°

Ég hef alltaf þurft að gera mikið af listum. Notes er venjulega fullt af listum yfir markmiðin mín, wanties, mat o.s.frv. Ég hef ákveðið að taka þetta saman í 10 hluti sem ég væri til í að gera í þessum mánuði og deila með ykkur.

Markmiðið mitt er skírt og ég minni mig á það á hverjum degi, gera mitt besta og gera betur í dag en gær.

1. Eignast meira denim – Eins og staða mín er í dag þá eru netverslanir besti kosturinn, eini gallinn er þá að geta ekki mátað. Reyndar hef ég enga möguleika á því að fara í mátunarklefa til að máta föt. En ég hafði hugsað mér að poppa smá uppá fataskápinn minn, sem er nánast eingöngu svart, hvítt og grátt.

2. Byrja ögra mér meira – Á seinasta ári, eftir að ég veiktist þá hef ég náð að loka mig inní ansi þykkri skel. Ég finn að ég á erfiðara með að hitta fólk. Minn karater er ekki þannig gerður að ég geri ekki hluti af því þeir eru erfiðir. Ég geri hluti vegna þess að þeir eru erfiðir þannig verða þeir léttari!

3. Heima spa á sunnudögum – Þegar ég var á sjúkrahúsinu þá notaði ég alltaf sunnudagana í extra dekur. Það skiptir svo miklu máli þegar maður er í svona mikilli líkamlegri þjálfun að næra líkama og sál vel. Ég sakna þess og ætla að reyna að koma þessu í rútínu aftur.

4. Verða hraðari á lyklaborðið – Ég veit alveg að ég get ekki beðið um meira en það sem er nú þegar komið. Fyrir ári hreyfði ég hvorki legg né lið, en nú skrifa ég hér inn vikulega. En ég þarf bara að æfa mig því það má alltaf gera betur!

5. Teygja mig betur – Ég hef alltaf komist í splitt og spíkat án þess að hafa nokkurn tímann æft nokkuð. En eftir meira en ár í hreyfingaleysi þá stífna ég öll upp. Í æfingunum þá teygi ég vel en þar fyrir utan þarf ég að teygja betur.

6. Borða meira avokadó – Ég elska avokadó. Ég borða það með nánast öllu. Ég verð svo þæginlega södd af því. Avokadó eru full af andoxunarefnum, trefjum og hollri fitu, ef ég byrja daginn á því að borða avokadó þá verð ég svo þæginlega mett inni í daginn.

7. Muna að það er jafn mikillvægt að hvíla – Það eru allir alltaf að minna mig á þetta núna ætla ég að muna það!

8. Setja fleiri myndir á instagram – Mér finnst fátt skemmtilegra og fátt jafn áhugavert og skoða instagram. Ég er ekki ofboðslega virk ég læt samt nokkrar myndir inn í hverjum mánuði(@katrinbjorkgudjons) en mig langar að verða virkari. Ég var duglegri þegar ég hafði símann alltaf við höndina, þannig þetta kemur 🙂

9. Fá mér oftar smoothie – Ég elska smoothie ég gleymi bara svo oft að búa þá til. Maður heldur að það sé mikið mál en svo er það bara ekkert mál! Ég ætla að verða duglegri við að búa mér til smoothie eða boost í morgunmat.

10. Mig langar í rakagefandi bodylotion með góðri lykt – Ég er með frekar þurra húð samt ekki þannig að það sé eitthvað vandamál, ber á mig gott rakakrem áður en ég fer að sofa og þá er allt í góðu. En mitt krem fer að klárast þannig ėg er á höttunum eftir nýju kremi.

2 athugasemdir við “10 hlutir sem ég vil gera í júlí

Leave a Reply