Litlu sigrarnir í júlí


Ég var 21 árs í háskólanámi mjög óviss í lífinu, stressuð og hrædd við lífið. Ég fékk vænt kjaftshögg, stóð samt upp aftur en fékk þá annað enn fastar. En ég stóð upp aftur reyndar bara með eina nothæfa hönd. Ég kreppti þá hnefann á annari, það þarf meira til að ég gefist upp. Ég var 22 ára skráði mig í annað háskólanám, nú heldur hræddari við lífið en ég hafði nokkurn tíma verið. Ég fékk annað högg, nú var það rothögg. Þegar ég vaknaði úr rotinu gat ég bara hreyft augun. Nú ári seinna er ég laus við alla hræðslu og skrifa ég með annari (einari mínum) sem er furðu lítið hnjöskuð miða við allt sem gengið hefur á. En þessi hönd getur skrifað um litlu sigrana í mínu lífi, sem eru kaldir hversdagslegir hlutir hjá flestum, þeir voru það líka hjá mér og ég ætla að láta þá verða það aftur. Það er svo létt að gefast upp sérstaklega þegar á móti blæs, þá er svo mikilvægt að einblína á litlu sigrana og skrá þá hjá sér mánaðalega, vikulega eða daglega. Öll höfum við langanir eða þrár þá er svo gott að sjá hve langt maður er kominn. Og aldrei gefast upp!

Að drekka vatn

Eftir stærri blæðinguna þá mátti ekkert fara inn fyrir varirnar á mér í fleiri mánuði, og mætti það ekki en þá nema af því ég á bestu mömmu í heimi. Þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvað það er gott að finna kalt vatnið leika um munninn. Hvað þá þegar maður nær í glasið sjálfur ber það upp að vörunum, drekkur og kyngir. Þetta er meira en að segja það. Einn daginn mun ég segja að eitthvað sé jafn auðvelt og að drekka vatn. Það er ekki svo auðvelt enþá. Ég nýt þess að finna hvað þetta verður léttara í hvert skipti.

Klóra sér

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég náði að klóra mér í fyrsta sinn. Ég fylltist vellíðan og stolti. Allt fyrrasumar var ég með ómeðhöndlað frjóofnæmi. Mig kæjaði í augun, nefið og kokið en ég hafði ekki séns á að klóra mér. Það var vægast sagt ógeðslegt.

Að geta verið á samskiptamiðlum

Ég gat ekki fylgst með neinu í 6 mánuði. Ég saknaði þess þó aldrei, mér fannst það frekar þæginlegt að vera ekki háð neinu. Í dag vel ég það að vera frekar “offline”. Ég fer á Facebook, Instagram, Snapchat og Twitter en ég geri sára lítið og svara litlu. Það eru forrétindi að hafa valið.

Að geta lagað eyrað
Þegar ég gat ekki hreyft höfuðið þá kom einstaka sinnum fyrir að eyrað beyglaðist undir mér. Það var svo sárt þegar mér var snúið og það gleymdist að laga eyrað og það var beyglað undir mér í marga klukkutíma. Verst var þegar þetta kom fyrir þegar ég gat hvorki myndað hljóð né hreyft mig. Þá gat ég ekki með nokkrum hætti látið fólkið í kringum míg vita að eitthvað væri að.

Ein athugasemd við “Litlu sigrarnir í júlí

  1. Litlir sigrar verða að stórum sigri. Áfram þú Katrín. Fylgist með á hliðarlínunni þegar einar þinn skrásetur sögu þína, framfarir og sigrana.

Leave a Reply