Litlu sigrarnir í ágúst

Á vegferð minni að bata hef ég ákveðið að horfa alltaf á litlu sigrana, annars myndi ég sturlast. Mig langar að gefa ykkur innsýn í hvaða sigrar hafa unnist síðan ég blikkaði bara augunum. Í einum stórum sigri eru nefnilega margir litlir sigrar bæði líkamlegir og andlegir. Ég á það til að gleyma því í amstri dagsins.


Get notað fleiri fingur á lyklaborðið

Fyrsta sem ég hreyfði viljastýrt voru fingurnir það var í ágúst 2015 en það var ekki fyrr en á annan í jólum sem höndin fór að nýtast mér á ipad. Þá gat ég bara notað vísifingur og voru hreyfingarnar mjög ónákvæmar. Allur texti sem ég skrifaði var nánast óskiljanlegur. Svo þegar ég byrjaði að blogga þá tók það mig viku að gera eitt blogg, núna get ég búið til blogg og birt það samdægurs því ég nota alla fingurna á lyklaborðið. Ég er samt ótrúlega lengi að skrifa en ég var það líka þegar ég var sex ára og var að byrja að nota tölvur í tölvutíma í fyrsta bekk í grunnskóla en svo vandist það. Þó ég verði aldrei jafn fljót og þegar ég gat notað báðar hendur á lyklaborðið þá trúi ég að með annarri (Einari mínum) geti ég deilt með ykkur á met tíma öllum þeim sigrum sem vinnast smátt og smátt á hverjum degi. Þetta blogg er að hjálpa mér svo mikið!


Hitta fólk

Ég hef aldrei átt erfitt með að vera í kringum fólk, ég hef alla tíð notið þess að vera í kringum marga og sótt í að syngja eða tala frammi fyrir fullt af fólki án þess að verða stressuð. Svo eftir að ég veiktist þá fann ég hvað það varð erfitt fyrir mig að hitta fólk, ég varð stressuð ef ég vissi að gestir væru að koma, ég hágrét ef fólk kom óvænt til mín. Ég var farin að forðast aðstæður þar sem ég gæti hitt fólk. Ég fann fyrir svo miklum létti þegar ég sætti mig við sjálfan mig og hætti að draga mig niður þá fyrst byrjaði þetta. Ég er enn með kraftlaust andlit, kraftlausan líkama og ég tala óskiljanlega, en þetta er bara partur af minni einstöku baráttu við lífið, það eina sem ég get gert er að halda áfram að berjast og brosa með fólkinu í kringum mig, það er svo erfitt að vera ósáttur og fúll. Það er svo margfalt léttara að takast á við lífið með öllu því góða fólk sem vill vera í kringum mig og lífið verður svo miklu skemmtilegra að geta deilt öllum sigrunum með öðrum. Ég næ að ögra mér og vonandi þarf ég ekki að finna fyrir þessu aftur.

Ein athugasemd við “Litlu sigrarnir í ágúst

Leave a Reply