Litlu sigrarnir í september


Ég gæti verið alla daga að vorkenna mér yfir hlutskipti mínu í lífinu, að ég tali óskiljanlega, líkami minn allur er kraftlaus og ég þarf hjálp við nánast allt. En lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Mér finnst ég vera heppnasta manneskja í heimi. Ég er umvafin því besta og skemmtilegasta fólki sem fyrirfinnst á þessari jarðarkringlu og þau passa upp á að allt gangi upp. Elsku allra besta mamma mín er orðin besti markmaður í heimi eftir þennan tíma. Og svo er það hann Ásgeir, stóra ástin í lífi mínu, sem hefur staðið þétt mér við hlið. Trúr og tryggari en allt. Þekkir mig betur en allir og á einhvern undraverðan hátt les hann huga minn líkt og minn hugur sé hans eigin. Ég er hvergi öruggari en í sterkum og stæltum faðmi hans. Þó mér líði oft eins og ég sé búin að vera í fjórtán ár á ellilífeyri þegar ég skoða myndir og snöpp af jafnöldrum mínum niðri bæ að skemmta sér þá gæti ég ekki farið sáttari að sofa og hjúfrað mig brosandi í fangið á Ásgeiri, því ég er heppnasta manneskja í heimi. Þessi tími er mér fjarlægur ég sakna hans ekki vitund. Það er ekki til sá partur af mér sem myndi vilja skipta um líf, fyrst einhver varð að takast á við þessi áföll þá held ég að ég sé besti kosturinn til þess. Ég hef alltaf þurft að halda fast í hvert einasta kíló, núna hjálpar það kraftlitlum vöðvunum að það er ekki mikið sem þeir þurfa að bera. Ég hef alltaf haft bilaðann áhuga á anatomiu og lyfjum. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þessi lágmarks kunnátta mín er búin að bjarga mér. Ég hafði alltaf æft söng svo öndunarfærin mín eru sterk. Ég hef alltaf verið í góðu formi svo það er auðveldara að byggja upp styrk. Svo er það mikilvægasti þátturinn. Ég held það séu fáir jafn sterkir og ég, það þarf meira en þrjú heilaáföll til að drepa draumana mína, ég einblíni bara á það sem gleður mig í lífinu, allt það jákvæða og það sem ég er þakklát fyrir. Ég iða af spenningi að deila með ykkur litlu sigrunum sem eru búnir að gleðja mig seinustu vikurnar.


Aukinn styrkur í talfærum

Þó ég viti að það eigi margir sigrar eftir að vinnast áður en ég tala eingöngu þá eru margir sigrar unnir og fyrst núna eftir að ég veiktist finn ég einhvern mun. Andlitið er að styrkjast, öndunarfærin láta alltaf meir og meir að stjórn og ég get tjáð mig með einstaka orðum við þá sem eru mér nánastir, ég er enn of feimin til að geta leyft öllum að heyra.

Klæða mig úr skóm & spelkum
Þið getið eflaust ekki ímyndað ykkur tilfininguna sem ég fyllist þegar ég losa reimarnar á skónum, leysi þá, losa svo spelkurnar og tek svo skóna og spelkurnar af mér! Ég fyllist einhverri yndislegri samblöndu af sjálfstæði, stolti og endalausri gleði. Eftir að hafa verið háður öðrum í einu og öllu er það stórkostlegt að fá að finna smjörþefin af sjálfstæði!


Ég get farið sjálf upp á hnéin

Í sumar varð bolstyrkurinn nógu mikill til að ég gæti haldið mér uppi á hnjánum en ég þurfti hjálp til að komast á hnéin. Núna kemst ég ein upp á hnéin og get látið rassinn síga niður í bekkinn á milli hælanna, froskastellingin, og svo rétt mig upp aftur. Eða farið á fjóra fætur, teygt mig í allar áttir eða labbað á hnjánum.


Að ræskja mig

Þetta er einn stærsti sigurinn sem hefur verið unninn hingað til. Þó ég sé enn ekki með nógan kraft til að framkalla hósta þá get ég með mikilli áreynslu náð slími upp úr kokinu eða forðað einhverju frá því að fara vitlausa leið.

10 athugasemdir við “Litlu sigrarnir í september

  1. Sæl Katrín og takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með öllum litlu sigrunum þínum sem eru samt svo risastórir í lífi þínu. Þú ert einstök manneskja og mikill kennari fyrir okkur hin. Þinn stærsti kraftur er hugur þinn, jákvæðnin og bjartsýnin. Að komast á þennan stað er gríðanleg vinna og tek ég æðruleysi þitt mér til fyrirmyndar. Þó að ég þekki ekki mikið til þín þá finnst mér kærleikur þinn smeygja sér inn í sálina og maður sefast og sér að það er núið sem skiptir máli.
    Bestu kveðjur til þín og þinna einstöku ástvina:) Gunnhildur Hreinsdóttir

  2. Frá bært Katrín mín. Ótrúlegt að lesa bloggið þitt og sjá hvað þú ert jákvæð. Það eru litlu sigrarnir sem skipta svo miklu máli. Flotta þú😊👏

  3. Þið mæðgur eruð frábært teymi 🙂 þú ert svo falleg og dugleg elsku Katrín Björk. Ég er mjög þakklát að fá að lesa um batann og sjaldan á orðatiltækið betur við „góðir hlutir gerast hægt“. Æðruleysi, þakklæti og þolinmæði er það sem ég les úr þessum fallegu skrifum 🙂 takk fyrir að vera eins og þú ert ❤️

  4. Til hamingju með lífið og kunna að njóta, þú ert lánsöm að sjá það. Þakka þér fyrir að leyfa okkur að fylgjast með. Baráttukveðjur til þín flotta stelpa

Leave a Reply