Að takast á við óttann

Ég átti dásamlega helgi, fyrstu helgina síðan við komum suður. Ég fór í fyrsta sinn síðan í maí 2015 í búðir, 17 búðarlausir mánuðir, þessa mánuði var ég dugleg að versla mér eitthvað fínt á netinu. Ég hélt að á þessum 17 mánuðum hefði ég glatað allri skynsemi og myndi koma heim með allavega nokkra poka, en þessi fjarvera hefur gert mig enn skynsamari og það eina sem ég keypti mér var flauelsbolur í Zara. Ég varð virkilega að selja mér hann með þeím orðum að flauel væri að koma sterkt inn í haust og vetur, og að ég ætti enga líka flík. Núna gæti ég ekki verið sáttari með bolinn og ég yfirsté mína mestu martröð seinasta vetrar að fara í búðir og vera á meðal fólks. Núna er sú hræðsla horfin, ég get borið höfuðið hàtt innan um margmenni þó ég sé í hjólastól eða gangandi með stuðning og í spelkum. Það sem mér fannst áður vera niðurlæging er ég núna búin að sætta mig við, að þetta séu sjáanleg merki af baráttu minni við lífið.

Á síðustu dögum hef ég verið að reyna að koma mér í nýja rútínu. Núna æfi ég ofboðslega mikið, mér líkar það alls ekki illa mér líður aldrei betur en þegar mig svíður í alla vöðva og ég er gjörsamlega úrvinda. Seinustu nætur hef ég þurft endalausan svefn og ég þarf á allri minni orku að halda. Ég passa þá vel upp á næringuna að ég sé að borða hollan og mettandi mat til að orka mín nýtist sem best. Núna er ég á milli æfinga þar sem ég næ að hafa smá tíma fyrir sjálfan mig og borða hádegismat áður en næstu æfingar byrja. Njótið dagsins 🙂

2 athugasemdir við “Að takast á við óttann

Leave a Reply