Litlu sigrarnir í október


Ég gæti látið það stoppa mig í öllu í lífinu að talfæri mín séu kraftlítil og ég tali því nánast óskiljanlega, allir vöðvar eru kraftlitlir og ég er með jafnvægi á við veltikall þegar ég stend, því nota ég oftast hjólastól. ,,Nei Katrín vill ekki hitta fólk, hún þarf ekki ný föt eða skó, ekki slítur hún þeim sem hún á, haldið öllum snyrtivörum og húðvörum frá henni, það er bara niðurdrepandi fyrir hana að sjá það af því hún getur ekki sett þær á sig”. En þannig er það ekki, síður en svo. Ég nýt mín hvergi betur en í félagsskap góðra vina og mér finnst enn jafn gaman og áður að kynnast nýju fólki. Síðan ég veiktist er ég búin að kaupa mér fleiri merkjavörur bæði af fötum, húðvörum og snyrtivörum en ég hef keypt yfir ævina. Sama þó hjúkrunarmenntaðir einstaklingar hafi staðið yfir mér og talað eins og þeir væru fullvissir um að ég hvorki heyrði né skildi neitt. Töluðu eins og ég myndi aldrei skilja neitt aftur, meðan ég lá og hlustaði á bullið í þeim þá hlakkaði í mér að sýna þeim hver ég er. Ég hef nefnilega þann eiginleika að þegar mér er sýndur mótbyr þá kveikir það á enn meiri þrjósku og fyrir vikið þá tekst ég á flug. Ég gefst ekki upp, ég er vön að sníða mér stakk eftir vexti og gera það besta úr öllu. Og af því ég er svo heppin þá blæddi ekki inn á málstöðina í heilanum mínum annars gæti ég ekki skrifað og stafað, þannig að orðhákurinn ég bý enn að orðaforðanum sem mamma las ofan í mig þegar ég var lítil með því að lesa fyrir mig bækur þýddar fyrir 1958. Ég hef alltaf skrifað mikið og ég veit ekki hvar ég væri eftir þessi heilaáföll ef ég gæti ekki skrifað mig frá hlutunum, ef ég finn fyrir kvíða, reiði, spennu eða gleði þá hef ég alltaf þurft að skrifa og af því ég er svo heppin þá get ég núna þegar þörfin er mest skrifað mig frá kvíðanum og reiðinni og skrifað þegar ég er glöð. Ég hef alltaf haft það skýrt hvert ég vil stefna í lífinu og svo bý ég mér til markmið út frá því og skrái hjá mér litlu sigrana sem hafa unnist á leiðinni. Það gefur mér svo mikið að deila með ykkur litlu sigrunum sem eru unnir.

Geta sofið með sæng og snúið mér á nóttunni

Eins notalegt og kósý mér finnst það núna að kúra mig undir sænginni minni þá gat ég það ekki fyrir ári. Þegar sæng var sett ofan á mig þá leið mér eins og margra tuga kílóa sementspoka hefði verið komið fyrir ofan á mér, ég var svo veikburða að ég gat ekki hreyft mig undir sænginni. Þá svaf ég með sængurver og var snúið á tveggja klukkustunda fresti.

 
Setjafnvægið betra

Fyrst hafði ég ekkert jafnvægi þá þurfti einhver að styðja við bakið og annar að styðja mig að framan. Í janúar á þessu ári var það að sitja það erfiðasta sem ég gerði, ég grét af vonleysi því ég hélt að ég myndi aldrei ná neinu setjafnvægi. Svo einn daginn kom það og hefur bara orðið betra frá þeim degi. Og í dag þá er erfitt að hrinda mér þegar ég sit með engan bakstuðning og ef þú vilt pirra mig sérstaklega mikið þá styður þú við bakið á mér þegar ég sit einhversstaðar án bakstuðnings.
Aukið úthald

Þegar ég keyði vestur í vor þá var ég í meira en viku að ná mér eftir þetta rót, þreyta og slappleiki fylgdu mér alla þessa viku. En núna þegar ég keyrði aftur suður þá varð ég ekkert eftir mig. Fyrir ári var flutningur milli deilda nóg til þess að ég svæfi allan daginn. Fyrir hálfu ári varð ég þreytt við að fara á rúntinn. Núna get ég farið í Kringluna eða Smáralind án þess að þreytast.

11 athugasemdir við “Litlu sigrarnir í október

  1. Það er ótrúlegt að lesa þessa framfarir hjá þér og gaman að fylgjast með þér úr fjarlægð. Þú virðist vera alveg jafn yndisleg og Hulda systir þín (sem ég þekki lítillega) 🙂 Gangi þér áfram sem allra best, gaman að lesa hversu bjartsýn og jákvæð þú ert !

  2. Ég dáist að þér fallega unga kona. Þrautseigju þinni og styrk, hæfileikanum til koma hugsunum þínum svo fallega í orð, jákvæðni þinni og hjartahlýju. Þakka þér fyrir að fá að fylgjast með þér. Gangi þér sem allra, allra best að ná fullum bata.

  3. Bestu kveðjur, knús og kossar frá okkur öllum í Hafraholtinu 🙂 Gaman að sjá að skvísan í þér ráði ríkjum nú sem fyrr, alltaf svo sæt og fín <3

  4. Katrín ég hef fylgst með þér úr fjarlægð ,ég dáist af dugnaði þínum og þrautseigju og ég vona að allir þínir draumar eigi eftir að rætast .Gangi þér áfram vel !

Leave a Reply