Loksins er desember kominn, mánuðurinn sem ég hef beðið eftir með eftirvæntingu síðan hann kláraðist í fyrra. Ég elska allt við jólin, skreytingarnar, jólaljósin, bakstur, pakka inn pökkum, hlusta á jólatónlist, horfa á jólamyndir og eiga mikilvægar stundir með fjölskyldu og vinum. Allir eiga sér einhverjar minningar sem kveikja á jólabarninu í manni. Ég held fast í alla lykt, hefðir og þá hluti sem kalla á jólin fyrir mig. Ég get ekki beðið eftir því að komast heim og þegar öll jólaljós og skreytingar eru komnar upp, ilmur af kökum leikur um allt heimilið og með jólatónlist í bakgrunni skreytum við fjölskyldan tréið, þá eru jólin komin í hjartanu mínu.
Tala meira. Ég ætla mér að tala en þá þarf ég að æfa mig ótrúlega mikið.
Undirbúa heimferð. Það er mikið sem fylgir okkur og margt sem þarf að gera áður en við komumst heim. Þá er ágætt að ég hef alltaf þurft að skipuleggja mig mjög vel og nú raða ég verkefnum niður á daga og skrifa niður allt það sem má ekki gleymast.
Ganga meira. Ég þarf að vera dugleg að standa og ganga, jafnvægið kemur hægt en örugglega, ég verð að reka mig áfram svo þetta gangi hraðar.
Fara í Blómaval og kaupa jólaskraut. Mér finnst fátt skemmtilegra en að hafa fínt í kringum mig. Ég er með eitt skraut í huga sem ég verð að fá pabba til að smíða, ég þarf þá að kaupa í það.
Jólaskreyta. Þó ég geri ekki mikið eins og er nema skipta mér að, þá finnst mér bara gaman að jólaskreyta.
Baka. Maginn minn iðar af spennu við tilhugsunina um að fá nýbakaðar hveitikökur, sörur, ameríska súkkulaðiköku og aðrar smákökur sem mamma galdrar fram.
Kaupa jólagjafir. Ég elska að gefa gjafir og á haustin byrja ég á að gera hugmyndalista með hugmyndum að gjöfum fyrir vinkonur mínar, fjölskyldu og Ásgeir, svo þegar líða fer að jólum þá verður mikið auðveldara að ákveða gjafir.
Pakka inn gjöfunum. Ég elska að gefa fallega pakka sem eru vel innpakkaðir, það er auðvitað lykilatriði!
Horfa jólamyndir, hlusta á jólallög og njóta lífsins!