Þegar líða fer að jólum

0

Ég segi það á hverju ári, en ég er virkilega viss um að það hefur aldrei verið jafn gott og núna að komast heim í jólafrí. Seinustu daga hef ég notið þess að vera heima, í herberginu mínu, sofa í rúminu mínu, horfa á jólamyndir og mamma bakar, ég sit hjá henni inn í eldhúsi og við spjöllum saman á milli þess sem við dillum okkur við jólatónlist, við hlustum á sömu geisladiska og við spiluðum þegar ég var lítil. Jólaundirbúningurinn verður nánast eins og hann hefur alltaf verið það hamlar mér lítið sem ekki neitt að ég tali óskiljanlega og geti ekki hlaupið um húsið. Tilfinningin er enn sú sama og hún hefur verið, maginn iðar af tilhlökkun og jólastemmingin hér heima er alltaf dásamleg og engri lík, ėg elska þegar maður finnur jólastressið leysast upp í gleði og hamingju sem verður svo mikil og innileg þegar maður á svona margar góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Það eru litlu hlutirnir sem gera jólastemminguna svona einstaka, lykt, tónlist, bíómyndir, spil, hlátur, samvera, vaka fram eftir nóttu og umfram allt njóta hvers augnabliks. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn mér finnst þetta einfaldlega vera dásamlegasti tími ársins.

Leave a Reply