Litlu sigrarnir í desember

LAST CHRISTMAS

Mér finnst skrítið að hugsa til seinustu jóla, það er í alvöru bara ár frá því ég fór ekki í ipad, skoðaði ekki samfélagsmiðla og eyddi öllum mínum frítíma liggjandi upp í rúmi, því ég gat ekki setið, og hlustaði á bækur. Akkúrat fyrir ári var ég tiltölulega nýfarin að halda haus, hreyfa vinstri hendi og geta notað höndina til að stafa, í byrjun desember stafaði ég enn með augunum. Vð komum svo seint heim að við gátum ekkert bakað samt urðu jólin alveg jafn gleðileg og áður þau voru bara öðruvísi, ég keypti mér engin jólaföt, ég borðaði engar mömmu smákökur og ég var bara enn svo ósátt og leið í hjarta mínu en það fór þegar jólastemmingin tók yfir. Í ár voru jólafötin keypt snemma og nóg af kökum bakaðar og jólastemmingin í hjártanu er önnur en í fyrra, núna finn ég að geta mín er alltaf að aukast og ég er svo miklu hamingjusamari í hjartanu.

Hefði ég skráð litlu sigrana í desember fyrir ári þá hefðu þeir orðið svona:


Rúllaði mér í heilan hring

Þegar við vorum nýkomin heim rétt fyrir jólin í fyrra þá ætlaði ég mér að sofa í minni holu sem er við vegginn í stóru rúmi og ég sem hafði hingað til legið hreyfingalaus í einbreiðu spítalarúmi en þegar ég kom í rúmið mitt þá rúllaði ég mér heilan hring í mína holu og hef sofið þar síðan.

Byrjaði að nota ipadinn

Ég hafði ekkert kíkt á facebook, instagram eða aðra samfélagsmiðla. Ég hafði ekki séð annað fólk nema þá fáu einstaklinga sem fengu að koma í heimsókn , í 6 mánuði sá ég ekki hvernig fólk talaði saman á þessum miðlum, ég skoðaði engar bloggsíður eða verslanir eins og ég var vön. Þetta gaf mér ákveðið frelsi sem ég er þakklát fyrir í dag núna svara ég bara þegar ég nenni og fer örsjaldan á facebook. Á jóladag í fyrra dreymdi mig að ég væri ekki ,,inn“ og hvernig ég klæddi mig væri eins og var í tísku fyrir fimm árum. Þessi ,,hræðilega martröð” (haha) vakti mig og ég fór að nota höndina á ipadinn. Frá og með þessum degi hef ég verið óstöðvandi á ipadinn og færni mín er stöðugt að aukast og ég passa mig vel á því að vera mjög meðvituð um tískuna svo mig dreymi ekki svona aftur. Haha

Hætt að skrifa allt niður sem ég stafaði
Fyrst þegar ég stafaði með augunum þá skrifuðu allir sem ég talaði við allt niður sem ég stafaði svo var ég farin að geta notað fingurinn en áfram skrifuðu allir og skrifaðar voru átta stílabækur. Mér fannst það frekar óþæginlegt að hafa það sem ég sagði skráð í bók sem lá á glámbekk í herberginu mínu og ef þú áttir leið þar um þá þurftir þú ekki annað en að vera forvitinn til að sjá allt það sem ég hafði sagt seinustu daga, virkilega óþæginlegt fyrir mig. Það var því mikill léttir á mér þegar ég fékk að tjá mig á eins eðlilegan máta og geta mín leyfði ekki þannig að hver sem er gat flett upp hverju orði sem ég sagði.

Það er yndislegt að núna ári seinna geti ég  setið, gengið með stuðningi, tjáð mig með einstaka orðum og setningum, skoðað og gert það sem mig langar til á netinu og svo finn ég hvað styrkurinn hefur aukist, til dæmis í sumar gat ég ekki opnað hurðarnar hér heima ég var ekki nógu sterk til að ýta hurðarhúninum niður en núna þá get ég gert það án þess að finnast það erfitt, ég get auðveldlega farið á hnéin og niður af þeim aftur og gengið sjálf á hnjánum, svo geng ég með stuðningi bæði upp og niður stiga. Stóri sigurinn á árinu var tvímælalaust að geta setið og að geta sest upp. Eitt ár er ekki langur tími en á einu ári getur svo sannarlega mikið gerst og ég veit að ég er hvergi nærri hætt, ég datt ofan í mjög djúpa holu og það mun taka tíma að klifra upp úr henni, en ég ætla mér!

4 athugasemdir við “Litlu sigrarnir í desember

Leave a Reply