10 atriði sem ég lærði á árinu 2016


Þetta ár var svo lærdómsríkt, skemmtilegt og gott. Þetta var svo sannarlega ár framfara. Árið 2015 fór í að berjast fyrir lífinu, 2016 var upphitun bæði á líkama og sál, upphitun sem ég þurfti virkilega á að halda fyrir 2017 sem ég ætla að gera að einni heljarinnar æfingu. Á árinu 2016 lærði ég að þekkja mig betur, ég reyni að vera mjög meðvituð um kosti mína og veikleika, ég reyni eftir bestu getu að fækka veikleikunum þannig að ég verði sátt. Þegar maður tekur sig í svona sjálfsskoðun er mikilvægt að hrósa sér fyrir það sem manni finnst vera gott. Hér eru 10 atriði sem ég hef lært árið 2016:



Ég lærði að það er í lagi að eiga sér drauma og mér finnst hvetjandi og sniðugt að setja markið hátt þannig að það virðist ómögulegt í fyrstu, en ekkert er ómögulegt. Þessi bloggsíða er gott dæmi um það. Nokkrum mánuðum áður en ég byrjaði að blogga þá var ég nær dauða en lífi og algjörlega hreyfingalaus, en ég átti mér draum svo þegar ég hafði einn fingur sem lét að stjórn þá byrjaði ég að blogga og nú hálfu ári seinna eru fingurnir orðnir fimm sem láta að stjórn og ég er hvergi nærri hætt.

Ég hef lært að maður þarf að búa til sín tækifæri sjálfur.

Ég hef lært að góði hlutir gerast hægt, og það krefst mikillar þolinmæði og ákveðni að ná markmiðum sínum en þegar það næst verður það ótrúlega gleðileg stund.

Ég hef lært að umfram allt þá á maður að vera sáttur með sjálfan sig. Það er svo erfitt að líða vel ef maður er stöðugt að rífa sjálfan sig niður. Ég hugsa oft til þess þegar ég var lítil og kom grátandi til mömmu í nýrifnum buxum og mamma huggaði mig og hvíslaði svo að mér áður ég fór ,,þú mannst svo að þú ert flottust” ég man ég þurrkaði tárin í flýti og hljóp af stað því ég trúði því. Þegar ég horfi í spegilinn og sé þetta kraftlitla andlit, hjólastólinn og spelkurnar þá segi ég ,,þú ert flott” þú getur ekki fengið aðra til að trúa því ef þú trúir því ekki sjálfur.

Ég lærði að takast á við lífið án kvíðans, stressins og að hafa áhyggjur af öllu.

Ég lærði að sitja og setjast upp!

Ég lærði að allt byrjar með trú á sjálfum sér.

Ég lærði að láta óskir, drauma, þrár og væntingar ekki valda mér vonbrigðum, ef það tekst ekki núna þá æfi ég mig bara meira og þá tekst það næst eða þarnæst.

Ég lærði að þó munnurinn minn tali nánast óskiljanlega þá geti ég tekið virkan þátt í öllu lífinu og samskiptum. Ég á góða og trausta vini sem hafa bjargað mér meira en eflaust nokkurt þeirra grunar.

Ég hef lært að maður þarf að setja sjálfan sig í forgang. Ég lærði að það er ekkert ljótt og stundum bara nauðsynlegt að leggjast upp í sófa með maska og góða bók. Við þurfum líka að muna að verðlauna okkur ef við náum markmiðum eða klárum áfanga, þá er gott að gefa sjálfum sér eitthvað sem mann hefur lengi dreymt um.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og njótið kvöldsins ♥

2 athugasemdir við “10 atriði sem ég lærði á árinu 2016

  1. Kæra Katrín um leið og ég óska þér og þínum gleðilegs árs, þá vona ég að árið 2017 verði þér hamingju og gleðiríkt .Þú lítur glæsilega út og það geislar af þér .Ég er viss um að þú gerir þér ekki grein fyrir hvað skrif þín gera mörgum gott sem lesa ,meira að segja ég miðaldra konan staldra oft við og hugsa já þetta er alveg rétt hjá henni 🙂

Leave a Reply