Það sem ég ætla að gera í október

Í október skrifaði ég niður tíu atriði sem ég ætla að hafa á bak við eyrun, þessi mánuður tekur á móti okkur prýddur öllum þeim fallegustu litum sem haustið getur skartað. Stóru markmið mánaðarins hjá mér er að ég ætla að leggja mig alla fram um að njóta tímanns með yndislega fólkinu mínu og ég ætla á hverjum degi að ögra sjálfri mér. Mér finnst ég svo heppin að hafa tækifæri á að verða útkeyrð og ég elska þegar ég finn hvern vöðva verða algjörlega úrvinda af þreytu eftir æfingar. Ég er að æfa mig svo ég geti í framtíðinni tekið á móti öllum árstíðum fótgangandi án allrar aðstoðar og talandi.

Ég ætla að vera sparsöm í þessum mánuði því eftir svona búðarráp eins og ég átti í Reykjavík þar sem ég leyfði mér alls konar sárnauðsynlegt fínerí og óþarfa, en ég er svo óþolandi sparsöm að eðlisfari þannig að núna ætla ég mér að eyða peningum bara í það allra nauðsynlegasta og svo væri óskandi ef ég gæti byrjað að kaupa einhverjar jólagjafir, það minnkar svo stressið í desember.

.
Finna hið fullkomna samband á milli mikillar vinnu og njóta lífsins, dagarnir mínir líða svo oft annað hvort pakkaðir í vinnu eða enda bara allir í leti sérstaklega ef mér er kippt svona úr minni dagsdaglegu rútínu eins og Reykjavíkurferðin var. Þannig að seinustu dagar hafa farið í að reyna að finna hentugt dagsskipulag og sníða það svo að mér og því sem dagarnir bjóða upp á. Kannski set ég það í færslu og hingað inn ef ég finn eitthvert skipulag sem hentar mér.
.
Hugsa um heilsuna, byrja aftur að taka vítamínin mín og hugsa um hvað ég læt ofan í mig. Í október ætla ég ekki að sigra heiminn í þessum málum þannig að ég mun einungis setja markið gífurlega lágt í þessum málum og ég ætla mér að bæta fleiri ávöxtum inn í það sem ég borða yfir daginn.
.
Skrifa niður á hverjum degi einn til þrjá hluti sem ég ætla að gera yfir daginn, Alltaf þegar ég hef gert þetta þá fyllist ég einhverri skemmtilegri sigurtilfinningu á kvöldin þegar ég sest niður og strika yfir þau markmið sem mér tókst að standast yfir daginn.
.
Októbermánuður verður mánuðurinn þar sem ég byrja aftur að nota appið “Headspace”. Áður en ég fékk heilaáföllin þá notaði ég þetta app á hverjum degi. Mér var hugsað til þess um daginn hvað það var ótrúlega góð tilfinning sem ég fylltist eftir bara korters tíma, það var einhver ólýsanleg yfirveguð ró sem fylgdi mér út allan daginn.
.
Þegar það fara að koma köld haustkvöld þá ætla ég að drekka te, mér finnst fátt haust- og vetrarlegra en þegar ég eyði góðum og extra notalegum tíma að kúra mig á kvöldin upp í sófa undir teppi klædd í einhver þægileg föt, er að lesa einhverja skemmtilega bók og það sem gerir þessar stundir svona góðar er þessi undra góði tebolli sem er við hliðina á mér.
.
Ég ætla að vera sérstaklega dugleg og leggja virkilega mikla áherslu á allar teygjur þennan mánuðinn. Það er virkilega nauðsynlegt fyrir bæði stoltið mitt og ekki síður líkama minn að vera vel teygð.
.
Tómstunda markmiðið mitt þennan mánuðinn verður að ég ætla að klára bókina sem ég er að lesa. Ég held að það sé ekkert sem ég tengi meira við haustin en að gleyma sér í hugarheim við lestur á skemmtilegum bókum, núna í haust ætla ég áð klára eina bók og byrja á nýrri!

.
Mér finnst vöðvarnir mínir hafa rýrnað bæði eftir sumrið og fríið sem ég var í, ég finn það svo greinilega, ég ætla mér að byggja upp vöðva núna í haust, ná smá fyllingu upp í íþróttabuxurnar. Í október þá ætla ég mér að verða vöðvasafnari.
.
Ég hef alltaf haldið svo upp á haustlitina og þetta haust ætla ég að vera mikið úti, ég held að þrá mín til að vera úti hafi aldrei verið jafn sterk og einmitt núna, þannig að áður en veturinn kemur af fullum þunga, þá ætla ég að gera allt sem ég get til að njóta haustsins úti.

Leave a Reply