Litlu sigrarnir í október

Ég fékk extra langa helgi um þessa helgi, ég fékk einnig að njóta mín í félagsskap þeirra sem standa hjarta mínu næst alla helgina og svo aukalega mánudag og þriðjudag. Mér líður sem ég sé endurnærð og ég finn alveg hvað félagsskapur með mínum nánustu lyftir mér upp, kætir og bætir!

Eftir þessa frábæru helgi sit ég undir kasmírullarteppi upp í sófanum á skrifstofunni minni, með heitann og góðann tebolla og kertaljós, ég kúri mig sérlega vel undir teppið þegar ég heyri í haustinu sem dansar úti með kulda og látum, það reynir að ná öllum laufblöðunum með sér. Mér finnst ég svo heppin að vera inni og þurfa ekki að fara út.

Mér finnst ég líka svo óendanlega heppin að vera gædd mínu hugarfari. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sé ég það góða í flest ölllu. Ég man þegar ég vaknaði eftir stóra áfallið hvað ég upplifði mig óendanlega heppna. Ég lifði, ég hef nægan tíma til að ná kröftum mínum upp aftur. Heppilegt að ég hef aldrei ætlað mér eða langað nokkuð til að verða afrekskona í íþróttum eða tónlistarkona. Ég komst að því að þessi óvelkomna heilablæðing mun ekki að stoppa mig í neinu þó hún tefji rosalega fyrir mér þá veit ég að ég get allt sem ég ætla mér þó það taki mig lengri tíma en annars hefði gert. Ég er svo heppin að ég get skrifað um litlu sigrana sem vinnast á leiðinni þangað. Ég skrifa um litlu sigrana bara fyrir mig sjálfa svo að ég hafi eitthvað til að gleðjast yfir á dögum sem þráin til að tala og ganga verður óbærileg.

Stundum eru litlu sigrarnir ekki stærri en þetta:

Ég get sleikt á mér efri vörina

Þó ég komist ekki alltaf þegar ég vil með tunguna út í munnvikin þá get ég verið ákaflega stolt af þessum litla sigri.

Ég get rækst mig og hóstað

Mér finnst svo erfitt að telja þetta upp sem lítinn sigur en það er eiginlega fáránlega stutt síðan það varð að soga allt slím sem var aukalega í lungunum mínum frá mér. Núna get ég ræskt mig og hóstað það burt!

Leave a Reply