Jólasigurinn

Ég sigraðist virkilega stórt á sjálfri mér á þriðjudagskvöldið, ég fór á mína fyrstu jólatónleika síðan ég veiktist. Þá fyrstu í þrjú ár og mikið var það nú gott að gleyma sér í tónaflóðinu og þetta var svo einstaklega náttúrulegt fyrir mig. Áður en heilaáföllin fóru að ónáða mig þá var desember sá mánuður sem ég var hvað mest upptekin allt árið. Bæði var ég í prófum og svo var ég að syngja á gífurlegum fjölda af skemmtilegum jólatónleikum. Mér finnst ég hafa verið svo ólýsanlega heppin að hafa fengið að kynnast og tileinka mér tónlistargleði því hún hreinlega bjargar mér þá daga sem þetta verkefni mitt í lífinu virðist mér óyfirstíganlegt. Þá er svo gott að eiga í alvöru stað sem rekur alla svartsýni burt og boðar frekar bjartsýni, gleði og hóflega af smá vitleysu. Fyrir ári síðan kom það ekki til greina að ég færi á nokkra tónleika og leyfði fólki að sjá mig. Í dag nýt ég mín í athyglinni og ég vona yfirleitt alltaf að ég hitti sem flesta. Eins og á þriðjudagskvöldið þá hitti ég svo marga og ég naut þess svo innilega og meira að segja svo miklu meira en ég hafði þorað að vona. Þetta kvöld varð því sem draumi líkast. Þetta voru bæði stórskemmtilegir og fallegir tónleikar og síðan varð stemmingin svo létt að ég var þurrkandi tárin af hlátri. Bæði falleg og svo undur skemmtileg stund hjá Eyþóri Inga og gamla kórnum mínum, Sunnukórnum!

2 athugasemdir við “Jólasigurinn

Leave a Reply