Áður en ég veiktist þá lagði ég mikla áherslu og ég gerði mitt allra besta í að rækta bæði líkama og sál af heilbrigði og gera það eins vel og ég gæti. Ég naut mín aldrei betur en þegar ég var hlaupandi um Ægissíðuna eða út fallega fjörðinn minn andandi að mér þessu tæra, hreina og góða sjávarlofti, þetta gerði ég alltaf þrisvar í viku mér var alveg sama hvernig viðraði. Auðvitað var best að fara út í fallegt sumarveður þá fékk ég endalaust úthald og á þannig dögum kom ég mér ekki heim þá var ég bókstaflega óstöðvandi á hlaupunum ég naut náttúrunnar á einhvern allt annan og betri hátt en ég sé hana út um bílrúðuna. Lyktin af bæði náttunni og hafinu verður aldrei betri en þegar nef á hlaupum dregur að sér andann af þessum ilmi, það komast engin hlaup nálægt sumarútihlaupum. Ég naut mín líka svo vel í rigningu og jafnvel snjókomu og slyddu þá labbaði ég bara í hálkunni og snjónum, stundum barðist ég um í snjógalla og ég rétt komst út á götuna við heimilið mitt þá hnoðaði ég mér bara snjóbolta og kom inn miklu kátari en þegar ég fór út, þá var takmarkinu náð. Svo kom ég inn og gerði maga- og bak-æfingar, teygði og naut mín svo í að planka í góðann tíma.
Eftir þessi áföll núna hef ég saknað þessara hreyfinga svo sárt og ég get bókstaflega ekki beðið eftir jafnvæginu og þessum styrk sem ég þarf á að halda í svona ævintýri. En núna eru æfingarnar mínar alltaf að verða líkari og líkari mér. Ég byrja núna hvern æfingatíma á því að ganga með þjálfaranum mínum í göngugrind sem ég hélt að ég myndi aldrei fást til að standa jafn montin við og ég raunverulega er. Fyrst þegar ég fór að ganga þá var ég sett í mun hærri og eldri göngugrindur og ég man hversu ógeðslega erfitt það var að ganga í þeim, þær jafnvel voru höktandi og óstýrandi helvíti. Eftir hvern tíma endaði ég hágrátandi og að lokum gerði ég samkomulag við sjálfan mig, ég lofaði mér því að ég skildi aldrei nokkurn tímann koma til með að ganga við göngugrind aftur. Án þess að láta mig vita pantaði þjálfarinn minn göngugrind fyrir mig, hún lítur allt öðruvísi út en hinar sem reyndust mér svo illa. Ég tók mér heila tvo mánuði í það að horfa á hana og sættast við hana.
Svo á fyrstu æfingunni á nýju ári sættist ég á að byrja að æfa með hana. Í byrjun febrúar var þetta strax orðið mér svo auðvelt að ég þorði að ganga með göngugrindina bæði upp og niður brekku! Það tók hrikalega á og þetta var mér virkilega erfitt, ég fylltist sömu tilfinningu og ég var vön að fyllast á hlaupunum, núna var ég bara að erfiða í gjörbreyttum aðstæðum.
Síðan gekk ég inn á bekk og gerði þar hinar ýmsu styrktaræfingar og endaði svo á því að rúlla mér yfir á magann og lyfti mér upp á olnbogana. Ég fann þá hvað styrkurinn í hnakkanum var orðinn gjörbreyttur, ég trúði því varla en ég hélt höfðinu frá bekknum svo ég þorði að láta reyna á það að prufa að lyfta mér upp á tærnar, og það tókst! Þannig að núna planka ég nánast í hverjum tíma og það gleður mig alltaf jafn mikið.
Á þessum þorrablótstíma sem febrúar er, þá var ég löngu búin að ákveða að ég myndi aldrei framar taka þátt í þessu og fara á Stútung sem er stóra þorrablótið í Önundarfirði. Mér fannst sem ég myndi bara gera lítið úr sjálfri mér ef ég mætti þangað sitjandi í hjólastól og talandi á þetta helvítis stafaspjald. En um áramótin setti ég mér áramótaheit um að hætta að vera feimin svo ég fór á Stútung og var þar á meðal hátt í 300 manns sitjandi í hjólastólnum mínum og ég blaðraði við alla þá sem þorðu að lesa af stafaspjaldinu mínu og ég fór meira segja út á dansgólfið og dansaði þar við vinkonu mína. Núna er ég svo yfir mig kjaftfull af þakklæti og svo finnst mér ég alveg mega vera stolt af sjálfri mér!