Litlu sigrarnir í mars

Ef einhver hefði spurt mig þegar ég var lítil stelpa ,,hvað ætlar þú þér að verða þegar þú verður stór?” Þá hugsa ég að mitt svar hefði verið eitthvað á þessa leið ,,ég ætla að verða hjúkrunarkona alla virka daga sem yrði svo að leikkonu á kvöldin og söngkonu um helgar. Það má segja að draumar mínir hafi gjörsamlega hrunið niður og raunveruleikinn hafi elt mig uppi og fellt mig, hlegið að mér og síðan hafi hann rotað mig. Núna er ég að ranka við mér, hugsanirnar eru að verða skýrar og nú eru draumar mínir og þrár orðnar einhverjar allt aðrar og nú þrái ég ekkert heitar en að verða bara flott og stolt fyrirmynd fyrir hvern þann sem sér eitthvað uppbyggilegt í því sem ég geri, þar af leiðandi reyni ég að leggja mig virkilega mikið fram og vanda mig í öllu sem ég geri. Ég er svo ótrúlega heppin og stend alveg föst á því að það sé í rauninni ekkert sem ég mun aldrei geta, ef ég hef áhuga eða viljann og þrána til að komast eða ná einhvert þá muni mér á endanum takast það. Ég ætla mér að komast talandi og á fætur aftur og ná að klifra á toppinn mér er alveg sama hvaða toppur það verður og tíminn sem það mun taka mig skiptir mig engu máli.

Ég missti allann vöðvakraft yfir öllum líkama mínu, ég var sérstaklega lengi að ná stjórn á vinstra auganu mínu aftur. Fyrst lá það bara til hliðar en eftir því sem vikurnar liðu þá náði það að verða útlitslega rétt en sjónsviðið var mjög skert og ég var með tvísýni. Í dag er ég hætt að sjá óskýrt og tvöfalt. Ég fæ bæði höfuðverk og ógleði þegar ég set upp prisma gleraugun. Það voru gleraugu sem ég fékk til að sporna við tvísýninni, ég virkilega trúði því svo innilega að ég myndi aldrei nokkurn tíma losna við þau. Núna á ég þau bara til að minna mig á og þau öskra það bókstaflega á mig að það er í raun og veru ekkert sem ég mun aldrei geta.

Leave a Reply