Í dag er ég þriggja ára!

Það eru komin þrjú ár síðan ég vaknaði eftir stóru heilablæðinguna. Ég hélt að ég myndi alla tíð vera skjálfandi á beinunum og hágrenjandi af kvíða og hræðslu bæði fyrir fjórtánda og fimmtánda júní, en í ár sýndi ég sjálfri mér að öllu má breyta og ég bauð vinkonum mínum til mín í movie night í gærkvöldi. Það eru hrein og klár forréttindi að geta haldið upp á lífið með vinkonum sínu þar sem mögulegt er að skála fyrir lífinu með hlátursskvettum og fagna og finna hversu ótrúlega lánsamar við í rauninni erum.

Þessi áföll hafa bæði sýnt mér myrkustu og grátlegustu hliðar þessa lífs svo þegar ég loksins vaknaði eftir stóru blæðinguna þá var ég aftur á mínum bjarta og stór skemmtilega stað. Ég man svo vel þegar ég vaknaði eftir áfallið og heilaskurðaðgerðina þá gat ég bara opnað annað augað en skilningur minn á öllu í kringum mig og allt vit sem var þar áður en ég veiktist hélst sem betur fer óbreytt og óskaddað, þá sat mamma við rúmið hjá mér og sagði mér hvað hefði átt sér stað. Strax á því augnabliki leið mér sem ég væri í hópi þeirra alheppnustu og öll gleðin kom til mín aftur og allar þær gömlu góðu tilfinningar sem höfðu legið í dvala í heila sjö langa og stranga mánuði. Ég mun aldrei koma til með að líta á mig sem ég sé eitthvað fórnarlamb þessara áfalla, ég er sigurvegari!

Í dag þá get ég ekki einu sinni reynt að sjá lífið fyrir mér hefði ég aldrei fengið stóru blæðinguna. Þó hún hafi stolið frá mér ýmsum lífsgæðum þá ætla ég mér að ná þeim aftur. Stóra heilaáfallið gaf mér marga tugi ára af ótímabærum þroska og ég ákvað að nýta mér þau bara til góðs. Þó áhugi minn liggi á einhverjum allt öðrum stað núna þá hafa þessi þrjú ár kennt mér listina að hlusta. Ég hef gaman að því að hafa svolitla dulúð og deila aðeins mínum hjartans málum með mínum allra nánustu eða bara geyma þau í hjartanu mínu. Ég held að ég sé stoltust af öllum þolinmæðisblómunum sem þessi áföll hafa gætt mig. Mér finnst að allir ættu að einbeita sér miklu meira að öllum litlu sigrunum sem vinnast á leiðinni að einhverju ákveðnu markmiði, þeir geta veitt manni svo mikla gleði.

Ég lærði alltof ung að ég geng ekki að morgundeginum vísum og síðan ég fór að muna eftir mér þá nýt ég hverrar líðandi stundar. Ég er svo ótrúlega heppin að þetta hugafar hefur fylgt mér alveg síðan þá og mun fylgja mér út lífið.

Saga mín er í stuttu máli svona:

Ég var 21 árs í háskólanámi, ég var að farast úr prófkvíða, svo ég las allt námsefni fyrst um sumarið, svo um haustið og síðan í nóvember 2014 var ég byrjuð að lesa allt námsefnið yfir í þriðja skiptið, þá fékk ég litla heilablæðingu sem lét mig missa kraft í hægri hlutanum af líkamanum en svo morguninn eftir var ég á góðri leið með að endurheimta allan kraftinn og var hin fúlasta þegar ég mátti ekki fara heim til mín, ég varð sko að fara að læra. Svo um tveim vikum seinna á rólegu föstudagskvöldi þá erum við Ásgeir bara tvö saman og áttum yndislegar stundir saman við hlógum og skemmtum okkur endalaust við að reyna að losa mig við þessa leti í hægri hlutanum. Morguninn eftir þá vakna ég og get ekki hreyft hægri hlutann af líkamanum mínum, þá hafði ég fengið blóðtappa sem tók hægri höndina frá mér. Um leið og ég áttaði mig á þessu þá lá leiðin mín beinustu leið inn í ógeðslegt hugarhelvíti, ég var að farast úr hræðslu við eigin hugsanir. Næstu sjö mánuðir liðu í mesta sársauka sem ég hef upplifað, dagarnir liðu í mesta feluleik sem ég hef upplifað og næturnar liðu nánast því allar alveg eins, ég var svo ógeðslega hrædd að ég gat ekkert sofið því ég hræddist svo hugsanir mínar og drauma þannig að ég laumaðist alltaf sem lengst frá öllum og ég grét ein alla nóttina. Eftir nákvæmlega þannig nótt vaknaði ég laugardaginn 13. júní, þann dag ætlaði ég að snúa við blaðinu, ég tók mig í sjálfsskoðun og hljóp svo 5 km þar sem ég hugsaði allan tímann að ég væri að losa mig við þessa endalausu hræðslu, um nóttina svaf ég í fyrsta sinn í mjög langan tíma áhyggjulausum svefni. 14. júní kemur og ég fæ risastóra heilablæðingu og er flutt sofandi með sjúkraflugvél til Reykjavíkur, þar sem ég fer í aðgerð og vakna svo alltof seint eða rúmum sólarhring síðar og síðan ég vaknaði þá man ég allt, ég man þegar ég lá í öndunarvél með súrefni og tengd við fjöldann allan af allskonar vélum og ég gat bara rétt svo opnað augun en ég gat ekki hreyft þau eða gert neitt annað. Ég man svo vel að á sama tíma og mamma sagði mér hvað ég hefði gengið í gegnum þá fylltist ég gleði, hamingju og ró og þessar tilfinningar hafa ekki vikið frá mér síðan 15. júní 2015 og munu aldrei fá að fara, þann 15. júní endurheimti ég stelpuna sem ég hef alltaf verið og er enn þá svo vitlaus að ég er viss um að ég sé heppnasta manneskja í öllum heiminum og mér finnst að öllum eiga að finnast það um sjálfan sig. Ég lít bara á veikindi mín sem flækju sem ég ætla mér að leysa og mér er sama um tímann sem þetta mun taka mig.

Í dag, nákvæmlega þremur árum eftir stóru heilablæðinguna, þá eru vöðvarnir í talfærunum enn kraftlausir þannig ég tala óskiljanlega og ég hef bara kraft til að borða maukaðan mat, ég hef ekkert jafnvægi svo ég hvorki stend né geng án þess að fá stuðning og því nota ég oftast hjólastól. Ég gæti svo vel falið mig inni í herbergi og verið reið og fúl við lífið, þar gæti ėg í friði bloggað og sagt bara því vonda, öllum samskiptum sem hafa gjörsamlega farið úr böndunum og ég gæti skrifað bara um það hvað ég þrái að vera ekki svona. Þá væri líf mitt heldur sviplaust fyrir minn smekk, ég hef alltaf þurft að fara brosandi í gegnum lífið þess vegna skrifa ég nánast eingöngu um jákvæða hluti sem láta mér líða vel því sama þó ég geti hvorki gengið eða talað þá hef ėg heila hugsun og ég get farið brosandi og hlæjandi í gegnum allt lífið!

4 athugasemdir við “Í dag er ég þriggja ára!

  1. Hugarfar þitt er svo hvetjandi og aðdáunarvert! Þú ert mikil fyrirmynd, lífið heldur áfram og þá er bara um að gera að njóta og fanga augnablikið <3 Takk fyrir að gefa svona mikið af þér líkt og þú gerir með skrifum þínum. Áfram þú og til hamingju með daginn

Leave a Reply