Litlu sigrarnir í júní

Ég er svo ofboðslega heppin að hafa alltaf trúað því að ég sé að stefna á draumana mína og vinna að óskunum mínum

Fyrir þremur árum fékk ég þriðja og lang stærsta heilaáfallið. Þá var ég 22 ára og gat bara hreyft annað augað, vöðvarnir misstu allann kraft svo ég lá fyrstu vikurnar í öndunarvél og mínir nánustu gátu ekkert vitað að ég væri í raun og veru með þeim fyrr en það voru liðnar sex vikur frá því ég fékk áfallið en þá kemur talmeinafræðingur og gefur mér málið aftur. Þó það séu bara hljómlausir stafir á blaði þá urðu þeir strax röddin mín. Síðan þá hafa unnist svo endalaust margir sigrar, ég get andað, verið heima en ekki undir stanslausu eftirliti hjúkrunarfólks og lækna á sjúkrahúsi og ég get skrifað niður allar mínar hugsanir. Litlu sigrarnir eru mitt mánaðarlega klapp á bakið bara til að ég missi ekki kjarkinn og hætti að berjast. Mér finnst allir ættu að geta haldið utanum sína sigra sem vinnast á vegferðinni að einhverju takmarki. Litlu sigrarnir hjálpa mér að missa ekki þróttinn á þessari alltof löngu vegferð að takmarkinu,- BATA. Mér finnst þetta allt verða miklu skemmtilegra þegar ég fæ tækifæri til að verða ánægð og monta mig með sigrunum sem unnist hafa nú þegar.

Ég er 25 ára gömul stelpa sem stefni á draumana mína og mér finnst fátt skemmtilegra en að vinna að óskunum og þránum mínum.

Sætta mig við hnappinn

Við stóru heilablæðginuna þá missti ég allan vöðvakraft og því gat ég engu kyngt fyrstu mánuðina eftir áfallið, þar af leiðandi fór ég í pínu litla aðgerð þar sem var gert gat á magann minn og settur lítill hnappur þangað. Ég tala stundum um þetta sem minn neyðarhnapp sem sá til þess að það varð mér mögulegt að innbyrgða allann þann vökva, næringu og lyf sem ég varð að innbyrgða til að eiga einhvern möguleika á því að halda lífi. Í dag nota ég hann einungis fyrir öll þau nauðsynlegu lyf og vökva sem ég þarf á að halda. Í fyrstu þá skammaðist ég mín gífurlega fyrir hann og enginn mátti sjá glitta í hann. Fyrir ári síðan fór ég til útlanda og fór ekki úr sundbolnum þegar ég lá í sólbaði, eftir þessa ferð þá horfði ég á hvíta magann minn og ákvað að núna skildi ég sættast við hann. Það tók mig hálft ár og þá var næsta utanlandsferðin pöntuð og þá ákvað ég að sundbolurinn fengi ekki að koma með og ég keypti mér tvö ný bikiní til að taka með mér út. Svo í byrjun maí fór ég í myndatöku þar sem ég klæddist Brandson íþróttafötum, þá kom það mér satt best að segja pínu á óvart hvað það var raunverulega lítið mál að klæðast bara íþróttatopp við æfingabuxur og allir fá að sjá þennan fína neyðarhnapp sem ég er svo ofboðslega heppin að fá að skarta!

Anda og hósta

Ég man eftir sjálfri mér fyrstu vikurnar eftir að ég loks vaknaði eftir heilablæðinguna og aðgerðina þá var ég fyrstu vikurnar föst við öndunarvél. Svo vöknuðu sem betur fer lungun svona hálfpartinn og ég fór að geta andað með súrefni í nefinu. En súrefnismettunin var stöðugur barningur, þegar ég lá á spítalanum þá komu til mín sjúkraþjálfarar margoft á dag og bönkuðu mig til að reyna að hjálpa mér að losa um slímið til að reyna að sporna við því að það settist í kekki og mynduðust slímtappar sem myndu loka fyrir allt loftflæði um lungun mín. Það eru núna komin þrjú ár síðan ég hræddist súrefnismettunarmæla því ég mettaði aldrei nóg. Þegar ég var loksins komin inn á legudeild og hætt að þurfa vera stanslaust undir vökulum augum hjúkrunarfræðimenntaðs fólks. Þá blöskraði Ásgeiri hvað legudeildin var ,,fátæklega” tækjum búin svo hann setti bara súrefnismettunarmæli á tánna á mér og hafði hann þar á mér allann tímann meðan ég svaf. Í dag brosi ég og finnst mér ég vera ákaflega lukkuleg með að vera svona mikið elskuð. Þetta er hálf broslegt því í dag er ég laus við öndunarvélina, súrefniskútinn og ég get hóstað og ræskt mig. Ég get örugglega verið nokkuð klár á því að ég er hætt að vera hrædd við súrefnismettunarmæla!

2 athugasemdir við “Litlu sigrarnir í júní

  1. Það er ótrúlegt að sjá hvað þú hefur mikinn kraft og ert þrautseig Katrín mín. Ert örugglega hvatning fyrir marga sem lesa bloggið þitt. Kærar kveðjur til þín😊👏

Leave a Reply