Ég er svo ofboðslega heppin að hafa alltaf trúað því að ég sé að stefna á drauma mína og vinna að óskum mínum
Ég gæti verið alla daga að vorkenna mér yfir hlutskipti mínu í lífinu, að ég tali óskiljanlega, líkami minn allur er kraftlaus og ég þarf hjálp við nánast allt. En lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Mér finnst ég vera heppnasta manneskja í heimi. Ég er umvafin því besta og skemmtilegasta fólki sem fyrirfinnst á þessari jarðarkringlu og þau passa upp á að allt gangi upp. Elsku allra besta mamma mín er orðin besti markmaður í heimi eftir þennan tíma. Og svo er það hann Ásgeir, stóra ástin í lífi mínu, sem hefur staðið þétt mér við hlið. Trúr og tryggari en allt. Þekkir mig betur en allir og á einhvern undraverðan hátt les hann huga minn líkt og minn hugur sé hans eigin. Ég er hvergi öruggari en í sterkum og stæltum faðmi hans. Þó mér líði oft eins og ég sé búin að vera í fjórtán ár á ellilífeyri þegar ég skoða myndir og myndbönd af jafnöldrum mínum niðri bæ að skemmta sér þá gæti ég ekki farið sáttari að sofa og hjúfrað mig brosandi í fangið á Ásgeiri, því ég er heppnasta manneskja í heimi. Þessi tími er mér fjarlægur ég sakna hans ekki vitund. Það er ekki til sá partur af mér sem myndi vilja skipta um líf, fyrst einhver varð að takast á við þessi áföll þá held ég að ég sé besti kosturinn til þess. Ég hef alltaf þurft að halda fast í hvert einasta kíló, núna hjálpar það kraftlitlum vöðvunum að það er ekki mikið sem þeir þurfa að bera. Ég hef alltaf haft bilaðann áhuga á anatomiu og lyfjum. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þessi lágmarks kunnátta mín er búin að bjarga mér. Ég hafði alltaf æft söng svo öndunarfærin mín eru sterk. Ég hef alltaf verið í góðu formi svo það er auðveldara að byggja upp styrk. Svo er það mikilvægasti þátturinn. Ég held það séu fáir jafn sterkir og ég, það þarf meira en þrjú heilaáföll til að drepa draumana mína, ég einblíni bara á það sem gleður mig í lífinu, allt það jákvæða og það sem ég er þakklát fyrir. Ég iða af spenningi að deila með ykkur litlu sigrunum sem eru búnir að gleðja mig svo óendanlega mikið. Ég má ekki gleyma því að það eru bara þrjú ár síðan ég gat bara hreyft annað augað!
Aukinn styrkur í talfærum
Þó ég viti að það eigi margir sigrar eftir að vinnast áður en ég tala eingöngu þá eru margir sigrar unnir og fyrst núna eftir að ég veiktist finn ég einhvern mun. Andlitið er að styrkjast, öndunarfærin láta alltaf meir og meir að stjórn og ég get tjáð mig með einstaka orðum við þá sem eru mér nánastir, ég er enn of feimin til að geta leyft öllum að heyra.
Að geta lagað eyrað
Þegar ég gat ekki hreyft höfuðið þá kom einstaka sinnum fyrir að eyrað beyglaðist undir mér. Það var svo sárt þegar mér var snúið og það gleymdist að laga eyrað og það var beyglað undir mér í marga klukkutíma. Verst var þegar þetta kom fyrir þegar ég gat hvorki myndað hljóð né hreyft mig. Þá gat ég ekki með nokkrum hætti látið fólkið í kringum mig vita að eitthvað væri að meiða mig.
Nota vinstri höndina
Fyrsta sem ég hreyfði viljastýrt voru fingurnir á vinstri hendi, það var í ágúst 2015 en það var ekki fyrr en á annan í jólum sem höndin fór að nýtast mér á ipad. Þá gat ég bara notað vísifingur og voru hreyfingarnar mjög ónákvæmar. Allur texti sem ég skrifaði var nánast óskiljanlegur. Svo þegar ég byrjaði að blogga þá tók það mig viku að gera eitt blogg, núna get ég búið til blogg og birt það samdægurs því ég nota alla fingur vinstri handar á lyklaborðið. Ég er samt ótrúlega lengi að skrifa en ég var það líka þegar ég var sex ára og var að byrja að nota tölvur í tölvutíma í fyrsta bekk í grunnskóla en svo vandist það. Þó ég verði aldrei jafn fljót og þegar ég gat notað báðar hendur á lyklaborðið þá trúi ég að með annarri (Einari mínum) geti ég deilt með ykkur á met tíma öllum þeim sigrum sem vinnast smátt og smátt á hverjum degi. Í dag nota ég alla fingurna á vinstri hendi (hann Einar minn) hvort sem ég er að nota ipad mér til dægrastyttinga eða annara verkefna, ég er síðan svo heppin að vinnan mín fer öll fram í gegnum PC tölvuna mína og þar nýtist vinstri mér vel einnig þegar ég nota iMacinn minn í önnur verkefni.