Þegar haustar

Þegar dagarnir byrja aðeins að þyngjast svona þegar haustar. Þá á ég trix sem virkar alltaf á mig, ég bið einhvern um að fara með mig út í stuttann göngutúr. Þar sit ég kappklædd í hjólastólnum og mér líður aldrei betur en þegar kaldur vindurinn blæs framan í mig þannig augun mín tárast. Á þeim tíma næ ég að meta það og finna hvað mér finnst það vera svo óskaplega  dýrmætt að fá að vera partur af þessari stórfenglegu og mögnuðu náttúru. Ég fylli lungun af hreinu og tæru sjávarlofti, við rætur Eyrarfjallsins dreg ég að mér andann og feyki síðan fýlunni langt út á haf og vona að hún finni mig aldrei aftur. Þegar heim er komið fer ég brosandi og ánægð að vinna. Á milli vinnulota fæ ég tækifæri á að skoða til dæmis einhverja sigra sem unnir eru. Ágúst sigurinn síðan í fyrra fær mig til að takast á loft og svífa um á einhverju gleðiskýji:

https://katrinbjorkgudjons.com/2017/08/23/stori-sigurinn-the-small-victories/

Í ágúst ætla ég bara að nefna einn svo risa stóran og akfeitan sigur að ég ræð mér vart fyrir svo innilegri gleði, bara tilhugsunin um að ég geti þetta loksins aftur eftir tvö ár. Í tvö ár gat ég þetta ekki og ég hafði ekki nokkurn einasta möguleika á að æfa þetta upp á nokkurn hátt ég varð bara að sætta mig við að geta þetta ekki og sagði ekki nokkurri einustu manneskju frá þessu og sofnaði svo bara með heljarinnar hnút í maganum af áhyggjum.

En núna segi ég svo glöð og ótrúlega fegin bless við þennan áhyggjuvald ég mun aldrei nokkurn tímann koma til með sakna hans. Ég græt af gleði bara þegar ég reyni að skrifa það, því núna get ég loksins aftur,

ANDAÐ MEÐ NEFINU! Eftir tvö ár þar sem ég gat aðeins viljastýrt og óviljastýrt andað með munninum það er svo ólýsanlega magnað og svo innilega óstjórnlega undursamlegt og gleðilegt að geta loksins eitthvað sem ég var bara búin að sætta mig við að kæmi aldrei aftur, því ég gat ekkert gert til að æfa þetta. En svo vaknaði ég einn morguninn núna í byrjun ágúst og ég fór strax að undra mig á því af hverju tungan væri ekki föst uppi í skraufþurrum gómnum og varirnar voru hvorki þurrar eða fastar við tennurnar, þá runnu bara gleðitár niður kinnar mínar því ég gat andað með nefinu. Nú get ég loksins haldið munninum lokuðum og andað.

Ég hélt ég yrði alltaf að leggja mikla og erfiða vinnu í hvern lítinn sigur en svo sigrast sá ósigur sem ég hef saknað svo ógurlega sárt og mikið allt í einu og ég hafði enga möguleika á því að æfa þetta upp, en góðir hlutir gerast svo sannarlega hægt. Núna þarf ég ekki að þykjast finna einhverja lykt þegar það er borið upp að nefinu mínu, núna þá get ég bara fundið lyktina.

Mín hljóðu saknaðartár sem ég hef grátið svo ótal sinnum í koddann án þess að nokkurn gruni að ég sé að gráta hafa nú breyst í innilegann og háværann gleðihlátur sem er ómögulegt að hlæja án þess að gleðitárin fossist úr augunum. Það eina sem þessi sigur þurfti til að vinnast var þolinmæði og það vanhagar sko ekkert á henni hjá mér!

2 athugasemdir við “Þegar haustar

  1. Sæl, langar til að þakka þér fyrir að leiða mig í sannleikann um hvað það er í raun og veru að vera hetja og fyrirmynd. Ég hef fylgst með blogginu þínu og finnst það ótrúlega nærandi hvort sem er í “strögglinu eða bara hversdagsleikanum.
    Njóttu dagsins 🙏🏼

    Kv
    Þórómar

  2. Þvílík hetja og fyrirmynd sem þú ert. Það eru forréttindi að fá að fylgjast með blogginu þínu. Takk 🙂 Bkv. Ragnheiður

Leave a Reply