Það sem ég ætla að gera í október

Ég vakna einn bjartann og fallegan haustmorgun. Ég gef mér alltaf góðann tíma til að hugleiða upp í rúmi í morgunbirtunni, helst áður en nokkur annar vaknar, þá kem huganum í það dagsform sem mér þykir réttast hverju sinni. Svo núna um daginn þá fann ég að ég væri tilbúin í ærlega sjálfskoðun. Sú skoðun leiddi það í ljós að ég ætla að færa mér annan risa-stórann og kærkominn séns. Ég er komin með algjörlega nóg af því að leyfa huganum alltaf að tala mig niður, þó ég þrái það svo heitt að geta bæði talað og gengið þá færist ég bara fjær þeim markmiðum ef ég ætla að leyfa mér að loka og læsa mig djúpt inni í einhverri myrkrakompu öskra og hágrenja úr mér augun með súrum, fýldum og grænum saknaðartárum. Í draumaheimi þá myndi ég bara þrái að eiga draumahúsið með unnusta mínum, vera nær þeim sem eru mér mikilvægir, o.s.frv. Ég hef auðvitað allar þær langanir líka, þær eru bara svo pínu-agnar smávægilegar miðað við þá risa-stóru og plássfreku löngun og þrá að endurheimta vöðvakraftinn til að mynda skiljanleg orð, sungið eða jafnvel öskrað eða hrópað, endurheimta allann glataðann vöðvakraft og geta aftur hlaupið og gengið, notað báðar hendurnar mínar og vera þess megnug að geta gert allt sem ég gat gert áður en heilaáföllin komu. Ég ætla mér að ná þessu upp aftur og þá þýðir ekkert að gleyma sér í einhverri sjálfsvorkunn, það er svo drepleiðinlegt og ég veit vel að ég þrífst ekki vel í leiðindum. Ég á mér í staðinn eitt stórt markmið og það er eftirfarandi: ,,Að ná að endurheimta alla þá færni sem heilaáföllin tóku frá mér.” En þangað til það vinnst þá set ég mér mánaðarleg markmið með bros á vör!

Í OKTÓBER ÆTLA ÉG AÐ…

Núna er haustið komið og ég þarf að koma mér í góða haust-rútínu. Mér líður best ef ég næ að vera mætt á skrifstofuna mína og byrjuð að vinna klukkan sjö. Ég kann vel við það, mér finnst ég ná að gera miklu meira úr deginum þegar ég byrja að vinna klukkan sjö. Þá vil ég líka fara sofa klukkan átta.

Ég finn hvað ég verð mikið afkastameiri ef það fyrsta sem ég geri þegar ég sest á skrifstofuna mína á morgnanna er að finna tvö eða þrjú verkefni sem ég ætla að leggja aðaláherslu á þann daginn, þá get ég raðað þeim niður í tíma- og áhersluröð með öllum hinum verkefnum.

Dagarnir verða svo miklu auðveldari og skemmtilegri ef brosið er mitt leiðarljós í gegnum þá!

Ég á það til að missa aðeins móðinn þegar allt mitt hversdagslega líf fer að koma aftur inn eftir sumarfrí. En ég ætla aldrei að missa móðinn og gefast upp þó það sé stundum svolítið freistandi að klæðast bara náttfötum á nóttunni og líka allan liðlangan daginn, liggja svo bara upp í rúmi og lesa. Þegar ég er í þessu hugarástandi þá geta allir athafnir sem reynast mér erfiðar orðið hreinlega ógerlegar í huganum á mér, en þá þarf ég bara að muna að ég get allt þó það taki langan tíma og sé mér erfitt. Ég GET, ÆTLA og SKAL komast á æfingar á hverjum degi og eftir æfingar tekur vinnan aftur við!

Ég ætla að klæðast spelkum og skóm alla daga. Það hvetur mig til að ganga á milli staða.

Ég þarf að minna sjálfa mig á að reyna fyrst að segja það sem ég vil segja áður en ég stafa það á stafaspjaldinu.

Gleðin gefur svo mikið af sér. Ég ætla að láta gleðina vera öllu yfirsterkara svo ég taki á móti áskorunum með brosi á vör þá get ég gert mitt albesta til að ég geti verið stolt og ánægð með sjálfan mig.

Þegar ég vakna þá finnst mér ég sjaldan byrja dagana betur en þegar ég kem huganum fljótlega í það að hugsa jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir um bæði mig og verkefni dagsins, þá líða dagarnir miklu auðveldar.

Njóta haustsins og eyða sem mestum tíma með vinum mínum og fjölskyldu.

Borða á fyrirfram ákveðnum tímum. Ég verð aldrei svöng svo ég ætla að prufa að borða eftir klukku!

Leave a Reply