Litlu sigrarnir

 

 

Frá því ég loksins vaknaði eftir blæðinguna og aðgerðina þá man ég allt, ég man þegar mamma sagði mér hvað ég hefði gengið í gegnum og ég man eftir rónni og þakklætinu sem ég fylltist þegar hún sagði mér frá þessu, ég varð samstundis svo þakklát að ég skildi hafa lifað þetta af. Ég varð ekki fúl eða reið yfir því að geta bókstaflega ekkert og sú reiði mun aldrei koma. Fyrst einhver varð að lenda í þessu þá er mikið betra að það hafi verið ég en einhver annar, fyrir það fyrsta þá er ég svo heppin að persónuleikinn minn er jafn sterkur og stapíll og fjöllin sem standa af sér öll vonsku veður, ég var slegin niður en ég mun reisa mig við og þá ætla ég mér að vera við öllu varin. Því lífsgleðin og nautnin við að njóta hvers augnabliks og gleðin eru mín vopn og þau munu vera það eins lengi og ég lifi. Á meðan ég reisi mig við þá er ég umvafin því albesta fólki sem fyrirfinnst á þessari jörðu, unnusti minn, stóra ástin í mínu lífi umvefur mig allri þeirri ást og hamingju sem ég þarf á að halda á sama tíma ofdekrar hann mig og er hann mér sá allra besti og skemmtilegasti félagi sem ég gæti látið mig dreyma um að eiga. Fjölskylda mín öll stendur við bakið á mér þá sérstaklega mamma mín og pabbi, systur mínar og yndislegu fjölskyldur þeirra, tengdafjölskylda og vinir sem sjá alltaf um að passa mig og umvefja mig svo innilegri umhyggju sem mér þykir svo vænt um. Mamma mín hefur alltaf verið langbesta mamman í öllum heiminum en núna er hún komin svo langt fyrir ofan lýsanleg mörk hún er bara svo mikið betri en albesta mamman sem fyrirfinnst, hún les huga minn líkt og hann sé hennar eigin svo er hún sú eina sem skilur öll óskýru orðin mín, hún gerir mig bókstaflega að þeirri sem ég er og með hennar hjálp að þeirri sem ég mun verða. Ég er svo óendanlega heppin í lífinu og með allt fólkið í kringum mig.

Ég er nýkomin heim eftir langt stopp í Reykjavík. Þar sigraði ég sko heldur betur sjálfan mig, á svo ólíkan hátt og marga litla en á sama tíma svo stóra og mikilfenglega sigra.

Þegar ég vaknaði eftir stóru heilablæðinguna þá gat ég bara hreyft annað augað og var bundin við öndunarvél. Ekki nokkur manneskja gat leitt hugann að því að þá fór að safnast vökvi bak við hljóðhimnurnar mína, með öllum sínum tilheyrandi verkjum og þessu helvítis suði. Í þrjú ár heyrði ég ekki neitt og ég bara hélt og trúði því í allri minni einlægni og hræðilegu þögn að bifhárin mín hefðu misst alla skynjun og verkirnir væru bara eitthvað sem ég þyrfti að lifa með svo ég sagði ekki nokkrum manni frá þessu, því þannig tekst ég á við mikinn ótta, minnist ekki á það og græt svo bara hljóðlausum tárum í koddann á kvöldin. Svo í sumar fór mig samt að langa að fá mér heyrnartæki. Ég saknaði þess svo að heyra allann venjulegan og hversdagslegan umgang, heyra óminn frá fjölskyldumeðlimum sem baksa um í húsinu og öll umhverfis hljóðin sem berast inn, tifið í klukkunni og ég þráði svo sárt bara að heyra og sáru tárin féllu hljóðlaus á kvöldin þegar ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að á morgun skildi ég segja við mömmu ,,Hey! Ég var að pæla í að fá mér heyrnartæki.” Og mikilvægast væri að brosa þegar ég myndi segja þetta því henni mætti aldrei gruna að ég hafi eytt öllum þessum mikla tíma í að loka mig frá öllum og hágrenja. Þegar morgundagurinn loksins kom mörgum dögum eftir þessa örlagaríku nótt þá varð ég að einum risa stórum stresshnút og með tárin í augunum, loksins segi ég þetta við mömmu, og hún bara skellihló og brosti og sagði ,,Hjúkk! Þá get ég loksins lækkað sjónvarpið!”

Þetta var pínulítill persónulegur sigur sem vannst þegar ég fór að hlæja með henni. Allt í einu urðu þessi svo sorglegu sorgartár að stórskemmtilegum gleðitárum. Mamma reyndi og reyndi að finna tíma sem hentaði mér hjá Heyrnar og talmeinastöðinni en það gekk heldur brösuglega svo við ákváðum að ég færi fyrst til háls, nef og eyrnalæknis útaf eyrnaverknum sem hafði verið að plaga mig frá því ég fékk áfallið. Hann leit í eyrun á mér og sagði mér að það væri ekkert skrítið þó ég heyrði bara alls ekki neitt og verkjaði svona rosalega í eyrun, þau væru troðfull af vökva. Ég þurfti því bara rör og núna heyri ég allt! Það er ekkert í heiminum öllum sem getur verið dásamlegra en það að liggja við hliðina á ástinni sinni og geta ekkert sofið því þú ert of upptekin við að hlusta á andardráttinn hjá manneskjunni sem á bæði hjarta þitt og hug þinn allann. Þegar Ásgeir fór í vinnuna þá hlustaði ég bara á fuglana eða á regndropana falla til jarðar með sínum róandi dynkjum. Ég heyri vel í fyrsta sinn í þrjú ár!

Frá því ég fékk áfallið þá var eins og það hefði verið klippt á allar mínar ótal mörgu og pirrandi ofvirku kítlutaugar, mig bara var gjörsamlega hætt að kítla. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég var fegin að kítla ekki eftir að hafa kítlað óeðlilega mikið. Það var núna um daginn, sem sagt alveg nýliðinn, einn fallegann haustmorgunn þegar mamma var að hjálpa mér að klæða mig í peysu og þegar hún fór með hendina sína í handakrikann á mér til að ná í peysuna og toga hana niður þá var eins og hún hefði vakið upp af svefni sem ég hafði í sannleika sagt ekkert saknað þessi síhlæjandi og kítlandi fiðrildi sem fara um mig alla þegar einver gerir sig líklegan til að snerta mig í handakrikunum. Ég var fljót að skella höndinni niður og hlæja eins og hinn mesti vitleysingur!

Þegar ég hélt í sigurförina til Reykjavíkur þá játaði ég smá þrá fyrir foreldrum mínum sem hafði blundað í hjarta mínu í lengri tíma. Draumur minn var heldur langþráður og eitthvað sem margir héldu að ég myndi aldrei ná en ég ætlaði mér að ná því. Ég lá inn á stofunni minni á Grensás þegar ég ákvað að eftir nokkur ár þá ætlaði ég mér að koma gangandi inn á Grensás. Síðan þá hefur þetta verið eitt af mínum allra stærstu markmiðum. Núna eru þrjú ár frá því ég lá á Grensás og leyfði mér að dreyma þennan draum. Ég þarf að fara með  reglulegu millibili á Grensás til að hitta lækninn minn og þá fer ég alltaf og heilsa upp á starfsfólkið sem reyndist mér svo vel á þessum erfiðu tímum. Í október heimsókninni fór ég gangandi inn á Grensás og var í augnhæð við alla sem ég hitti!

3 athugasemdir við “Litlu sigrarnir

  1. Vá þú ert ótrúlegur karakter!!! Og frábær penni! Til hamingju með alla sigrana þína, þú ert heldur betur góð fyrirmynd❤️

Leave a Reply to Audur GudjonsdottirCancel reply