Mér finnst svo innilega ánægjulegt og bókstaflega yndislegt að desember hafi gengið í garð umvafinn fannhvítri jörð. Snjórinn gerir allt svo mikið hátíðlegra, allt verður bjartara og jólalegra. Reyndar er einn óhjákvæmilegur fylgikvilli sem fylgir svona veðurfari og þessum árstíma bara yfir höfuð og það er kuldinn. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég á oft alveg hrikalega erfitt með að fara út í snjóinn og kuldann snemma á morgnana þegar ég er dauðþreytt og það sem er eiginlega verst og fær mig næstum til að hætta við að fara út, er að ég er bara klædd þunnum æfingafötum. Á þannig morgnum finnst mér nauðsynlegt að eiga góða úlpu sem ver mig fyrir mesta kuldanum og verður hún líka að vera svo flott og fín!
Í október fékk ég að gjöf frá Zo On og kallast Mjöll úlpa. Mér finnst hún vera fullkomin utanyfirflík einmitt fyrir íslenskt veðurfar. Í október og nóvember notaði ég mest bara innra lagið á úlpunni eitt og sér, þá er það flottur vatteraður jakki, svo ef það var rigning þá notaði ég fallegu regnkápuna en hún er ytra lagið. Núna eftir að það fór að kólna þá smellti ég jakkanum inn í regnkápuna og þannig verður þetta að vatnsheldri hlýrri og ótrúlega flottri úlpu!
Þegar ég hugsa til baka þá held ég að ég viti fátt hátíðlegra en minninguna þegar ég kem inn heima hjá mér eftir að hafa verið úti að leika mér. Ég er eitt risastórt bros sem er frosið fast við þessa miklu og innilegu gleði sem býr innra mér, þá eru kinnarnar á mér fastar uppi, þær eru rauðar af allri gleðinni og frostbitnar, eftir að ég hef verið úti í lengri tíma að leika mér í snjónum. Þegar ég opna útidyrahurðina heima hjá mér þá grípur mig skemmtileg og falleg jólatónlist, pabbi minn situr og tendrar upp arineldinn sem skín svo fallega inn í jólalegu stofunni heima, mér líður svo unaðslega vel. Í minningunni þá er mamma inn í eldhúsi syngjandi með jólatónlistinni og að baka fyrir jólahátíðina, ég kasta af mér snjóugum útifötunum og hleyp til mömmu því ég er svo æst í að fá að hjálpa henni!
Þó ég hafi ekki líkamlega getu til að endurupplifa þessa minningu þá komst ég örugglega næst því þegar ég labbaði með stuðning mömmu frá bílastæðinu, þar sem ég stoppa til að finna vindinn blása um mig og finna öll veðurbrigðin leika um mig þá er gott að ég sé klædd flottu og góðu úlpunni frá Zo On, Mjöll, hún ver mig eins mikið og úlpa getur gert fyrir öllum veðurbrigðum. Ég kem svo lafmóð, blaut og hamingjusöm inn og hvað haldið þið, er þá ekki pabbi að kveikja upp í arninum!