Ljúfa líf!

Mér finnst ég vera hálf feimin eftir að hafa opinbera mig svona og fá í algjörann bónus þessa gífurlegu athygli. Ég vil náttúrulega að saga mín nái eyrum sem flestra og að sem flestir fari alveg óhræddir í blóðprufu og láti athuga hvort þeir beri þetta gen, og ef svo er þá taka þeir þátt í rannsókninni sem vonandi skilar af sér lyfi. Þá hverfa líkurnar á því að einhver feti í mín spor og þá þarf enginn að lifa lengur í ótta um sjálfan sig eða afkomendur sína því lyfið mun láta afleiðingarnar hverfa.

Ef þið vitið ekki um hvað ég er að tala þá ættuð þið að lesa þetta blogg:

https://katrinbjorkgudjons.com/2019/04/11/stora-leyndarmalid-mitt/

Á seinustu vikum og mánuðum hef ég verið svo heppin að hafa lært að meta þann hugarheim sem bækur senda mann í. Ég hef verið svo heppin að ég hef alltaf átt virkilega auðvelt með lestur en aldrei kunnað að gefa mér tíma til þess að gleyma mér yfir bókum. Svo eftir stóra áfallið þá heyrði ég af bók sem Ingólfur Margeirsson skrifaði og heitir „María”, þar með var bókaormurinn kominn í mig og síðan þá  hef ég verið algjörlega óstöðvandi í bókunum. Í janúar fékk ég sendingu frá Forlaginu og í mars fékk ég svo aðra sendingu frá þeim.

Ég talaði um bókina „Að vetrarlagi” eftir Isabel Allende í þessu bloggi hér:

https://katrinbjorkgudjons.com/2019/03/13/langt-sidan-sidast/

Í sendingunni var meðal annars þessi bók, spennusaga eftir höfundinn Flynn Berry og heitir „Heltekin”. Mér finnst hún vera tilvalin til að taka með sér til sólarlanda. Ég held að hún gæti örugglega verið góður ferðafélagi í fríið. Hún náði mér alveg frá fyrstu síðu en samt á sama tíma átti ég ekkert erfitt með að slíta mig frá henni. Ég hefði vel séð mig með hana að lesa á meðan ég væri að sólbaða mig á einhverri fínni strönd í hita og saltkeimuðu andrúmslofti, eða þar sem ég væri ein í hópi fólks og mig langaði til að koma mér inn í spennandi bókaheim sem ég á samt auðvelt með að koma mér út úr. Þá er „Heltekin” eftir Flynn Berry tilvalin!

Á afmælisdaginn minn í mars var ég svo heppin að ég fékk sendingu frá forlaginu. Í þeirri sendingu var sú besta og sú áhrifamesta bók sem ég hef lesið, á einhvern óviðjafnanlegan hátt snerti hún mig á svo fallegann máta. Hún er skrifuð svo listilega vel um það ljótasta, hryllilegasta og ógeðslegasta mannannaverk sem gerð hafa verið. Þetta er bókin „Húðflúrarinn í Auschwitz” saga Lales og Gitu, skrifuð svo einstaklega vel af Heather Morris. Þessi bók fékk mig til að hlæja og grenja, verða svo stressuð að ég fékk mig ekki til að leggja bókina frá mér, en umfram allt þá skildi þessi saga mig eftir með hlýju og ást í hjartanu.

Bókin fjallar um:

„Húðflúrarinn í Auschwitz segir hjartnæma sögu Lales og Gitu Sokolov sem urðu ástfangin í útrýmingarbúðunum alræmdu árið 1942 og tókst fyrir hálfgert kraftaverk að lifa dvölina af. Þau fundu hvort annað aftur í stríðslok og áttu langa ævi saman. Bókin er byggð á frásögn slóvakíska gyðingsins Lales sem með óbilandi bjartsýni, mannúð, útsjónarsemi og persónutöfrum komst af í hörmulegum aðstæðum og bjargaði mörgum meðbræðra sinna. Nauðugur gegndi hann starfi húðflúrara búðanna og óttinn við að verða dæmdur fyrir samstarf við nasista kom í veg fyrir að hann segði nokkrum manni sögu sína. Heather Morris kynntist Lale 87 ára gömlum á hjúkrunarheimili í Melbourne í Ástralíu. Með þeim skapaðist vinátta og traust sem varð til þess að Lale rauf áratuga langa þögn sína. Saga hans hefur snortið fjölda fólks og Húðflúrarinn í Auschwitz er metsölubók víða um heim.”

2 athugasemdir við “Ljúfa líf!

Leave a Reply