Mér þykir enginn tími jafn ómótstæðilegur og sumartíminn. Staða sólarinnar hefur greinilega svo gífurleg áhrif á mig. Ég leyfi mér yfirleitt að taka nokkra daga þar sem ég fæ algjört sumarfrí en þá reyni ég að hugsa ekkert um vinnuna. Þegar nokkrir þannig dagar hafa liðið þá verð ég óþreyjufull að byrja dagana mína aftur klukkan sex á skrifstofunni að vinna. Mér finnst gott að hafa gróft dagsplan og mitt lítur út einhvern veginn svona:
06.00 – 11.00: Vinna
11.00 – 13.00: Æfingar
13.00 – 18.00: Vinna
Til að koma mér í gírinn svo ég komist inní þessa rútínu og ég nái að halda henni, þá á ég þrjú ráð sem koma mér alltaf í gírinn og haldast pikkföst í rétta gírnum.
Mér finnst best að byrja á því að gefa mér smá pakka. Oftast vel ég mér einhver falleg íþróttaföt sem veita mér spark í rassinn og þá held ég að ég verði enn tilbúnari til að takast betur á við komandi verkefni. Í ár var það fjólublár síðerma Brandson bolur sem heitir HILDR. HILDR bolirnir hafa verið í svo miklu uppáhaldi hjá mér að ég bara varð að finna mér ástæðu til að eignast alla litina. Síðan fékk ég mér svartar AUÐUR Brandson leggings. Mér þykir svo gott að vera í þeim bæði á meðan ég er bara heima að vinna og svo seinnipartinn eða á dögum þegar ég vil bara vera í kósýgallanum.
Síðan finnst mér nauðsynlegt að leyfa sjálfri mér að njóta þess að vera úti. Mér þykir lang skemmtilegast að reyna á mig og verða útkeyrð á hreyfingu úti. Áður en ég veiktist þá naut ég mín aldrei betur en eftir langa hlaupatúra þar sem ég fékk tíma til að vera ein með sjálfri mér og mæðast, svitna og verða algjörlega uppgefin. En eftir stóra áfallið þá get ég ekki látið mig hverfa svona, þannig að ég set bara tónlist í eyrun og bið mömmu um að styðja mig á meðan ég geng einn hring í kringum húsið. Ég fyllist öll upp af alveg sömu góðu tilfiningunni og hlaupatúrinn var vanur að fylla mig, ég sigrast á sjálfum mér, verð bæði móð og sveitt svo verð ég algjörlega uppgefin eftir þennann hring.
Mínir drauma sumar-morgnar, -dagar og -kvöld eyði ég sitjandi úti í veðurblíðunni að lesa góða bók. Ég veit fátt notalegra en eyða tíma með góðri bók. Í byrjun hvers sumars vel ég mér nokkrar bækur sem ég ætla mér að ná að lesa á komandi mánuðum. Ég valdi mér fjórar bækur sem ég ætla að lesa þetta sumarið, „Glæpur við fæðingu” eftir Trevor Noah. „Olga” höfundur Bernhard Schlink, „Meðleigjandinn” höfundur Berth O’Leary, svo verð ég viðurkenna að ég er einna spenntust fyrir bókinni hennar Jenny Colgan „Sumareldhús Flóru” mér finnst hún Jenny Colgan hafa hingað til skrifað svo skemmtilegar bækur, ég gleymi mér alltaf við lestur á þeim. Ef þið fylgið mér á instagram þá tala ég mikið um bækurnar þar. Þið finnið mig á instagram undir nafninu katrinbjorkgudjons