Fyrir rúmlega einum og hálfum mánuði fékk ég gjöf frá versluninni Maí (mai.is) sem innihélt meðal annars þrjár vörur frá húðvörumerkinu The Ordinary sem ég verð að segja ykkur frá! Ég er algjör húðumhirðu dýrkandi og elska að hugsa vel um húðina mína þannig ég var mjög spennt að fá að prófa þessar vörur.
Granactive Retinoid 2% Emulsion
Ég var svo hrædd við að byrja að nota þessa vöru! Ég er með mjög viðkvæma húð og hafði ekki góða reynslu af öðru Retinol eða samskonar vörum áður. Svo ég byrjaði hægt og notaði þetta bara einu sinni í viku til að byrja með. Svo eftir því sem húðin mín vandist vörunni gat ég aukið notkunina og fór að taka eftir að húðin virkaði bjartari, jafnari og jafnvel ferskari á morgnana! Ég nota þetta bara á kvöldin og mæli að sjálfsögðu með að verja húðina sérstaklega fyrir sólinni á daginn þar sem hún verður viðkvæmari fyrir sól.
Buffet
Þetta serum inniheldur peptíð sem hjálpa kollagen framleiðslu húðarinnar og veitir líka raka í leiðinni. Það er smá sticky fyrst en ef maður leyfir því að fara inn í húðina fyrst þá hættir þá hverfur þessi áferð. Ég nota þetta alltaf eftir hreinsun á morgnana svo ef ég er í tímaþröng finnst mér líka virka vel að setja rakakrem yfir. Ég er með frekar þurra húð og finnst þessi vara halda rakanum vel inni í húðinni.
Natural Moisturizing Factors + HA
Ég dýrka þetta krem! Mér finnst það mjög létt, rakagefandi en líka milt og ekkert ertandi. Það inniheldur amínósýrur, hyaluronic sýrur sem veita raka og líka ceramide sem heldur rakanum vel inn í húðinni. Ég nota það bæði á kvölds og morgna. Ef ég nota það á kvöldin finnst mér ég vakna með mjúka og vel nærða húð. Það þarf ekki mikið af því en það virkar samt mjög vel. Ég elska svona einfaldar og nærandi vörur!