Litlu sigrar seinustu missera

Það er svo ótrúlega skrítið þegar tilveran fer svona á hvolf eins og síðustu tæplega tvö ár hafa liðið þá er til fólk sem mislíkar það ekki svo sárt. Mér líður sjálfri stundum líkt og að þegar hægist svona skyndilega á tilveru fólks í kringum mig þá hafi ég betra tækifæri en áður til þess að vera í svipuðu tempói og það með mína tilveru. Allt í einu er ég ekki sú eina sem er svona hikandi við að grípa þau tækifæri sem mér bjóðast. Ég finn líka að svo margir standa núna í þeim sporum, sem ég þekki svo vel, að þurfa að vega og meta hvort hlutirnir séu áhættunnar virði og að velja og hafna í samræmi við sífellt nýjar og óvæntar aðstæður.

Takk Covid fyrir að sýna mér þessa nýju tilveru. Við göngum aldrei að neinu vísu í þessu lífi og þessar aðstæður sem við höfum búið við saman í tæplega tvö ár hafa gefið okkur tækifæri til þess að skoða hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað það er sem við viljum leggja rækt við. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og kannski er stundum svolítið gott að fá að vita hvað maður á og hvað maður er heppinn að eiga það.

Á þessum tæpum tveimur árum höfum við mamma og pabbi verið að mestu leyti ein í húsinu okkar á Flateyri og ekki mislíkað það svo mjög. Fyrir nákvæmlega tveimur árum þá var þrá mín til að flytja orðin gífurleg. Mér fannst ég vera að missa af svo mörgu, vinkonurnar flestar í Reykjavík og svo margt sem mér fannst ég þurfa að sjá og gera.  En Covid tók allar þessar þrár í burtu frá mér og sýndi mér aftur kostina við að búa á svona litlum stað þar sem það er í lagi að eiga sinn hóp í kringum sig og fá hann í heimsókn til sín. 

Í október í fyrra fékk ég hjólið mitt og hef síðan þá getað hjólað frá mér allt eirðarleysi. Stærsti sigurinn sem ég hef unnið á þessum tíma er samt sá að ég gaf iðjuþjálfun annan séns og það varð að verkefni sem finnskur nemandi í iðjuþjálfun er að vinna að. Hægri höndin, sem alltaf hefur verið kreppt og einskis nýt, opnaðist loksins og ég get núna hrafnasparkað nafnið mitt á blað. Ég fór líka að mála með alkóhólbleki og ég sver að skynjun mín í vinstri höndinni er betri.

Það er gott að finna kraftinn koma aftur í líkamann og að skynja hvernig hann eykst dag frá degi. 

Eftir gullfallega þáttinn í þáttaröðinni Dagur í lífi sem var sýndur þann 5. desember hef ég fengið sendar svo ótal margar fallegar kveðjur. Mér þykir ofboðslega vænt um þær allar. Ég hef ekki enn komist í það að svara öllum skilaboðunum sem ég hef fengið en einhverntímann mun það takast. Ég er allavega ótrúlega þakklát fyrir þessi góðu og hvetjandi viðbrögð sem þátturinn hefur fengið.

Ég hlakka til að takast á við öll þau verkefni sem munu koma með líðandi tímum og ætla að halda áfram að leggja mig fram.

Jóla- og nýárs- kveðjur frá mér til ykkar!

4 athugasemdir við “Litlu sigrar seinustu missera

  1. Gleðilegt nýtt ár. Frábært hugarfar hjá þér og þú ert svo sannarlega mikil fyrirmynd fyrir alla. Gangi þér vel í nýjum áskorunum á árinu.

Leave a Reply to jolnnderssnCancel reply