Staðan í dag

Það er margt búið að gerast í lífi mínu undanfarna daga. Ég fékk annað heilaáfall í júní sem gerði brekkuna svolítið brattari fyrir mig. Ég er samt sem betur fer ennþá ég sjálf og finn að ég er á batavegi. Rétt áður en ég fékk áfallið núna í júní skrifaði ég færslu sem ég náði ekki að birta. Mig langar að birta hana núna þótt ég hafi orðið fyrir þessu bakslagi og ég stefni að því að ná aftur fyrri styrk.

Í dag er ég sjö ára

Ég hélt alltaf að ég yrði farin bæði að ganga og tala á þessum tíma en svo er víst ekki. Ég man eftir því þegar ég lá uppi í sjúkrarúminu og gat hvorki gefið frá mér hljóð né hreyft mig nokkuð og var bundin við öndunarvél. Þá var hugur minn á sífelldri hreyfingu og ég hugsaði alltaf að eftir sjö ár yrði mér batnað og að þá myndi ég geta gert hvað sem mig langaði til.

Mig óraði ekki fyrir því að batinn myndi verða svona hægur og að ég myndi svona mörgum árum seinna ennþá þurfa að nota hjólastól og talgervil eða stafaspjald.

Það hafa samt svo margir sigrar unnist, eins og til dæmis nýjustu stóru sigrarnir mínir.

Nýjasti sigurinn

Í dag get ég kyngt öllum töflum sem ég tek! Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu frelsandi það er að vera ekki svona bundin við hnappinn sem ég er með í maganum til þess að taka við vökva og næringu.

Stóra sumarið

Alveg síðan það fór að hausta hef ég verið með kitlandi tilfinningu í maganum af eftirvæntingu fyrir þessu sumri. Þá var ég nú ekki byrjuð að mála og mig hefði aldrei grunað hvert það að mála myndi geta leitt mig. Nú er ég með þrjár skipulagðar myndlistarsýningar, eina sem er nýlokið á Bryggjukaffi á Flateyri og tvær sem verða opnaðar í sumar og næsta sumar.

Önnur sýninganna verður opnuð í Krummakoti á Flateyri, á vinnustofu Jean Larson, þann 6. ágúst og hin sýningin verður haldin í Eyjafirði eftir ár.

Fyrir mig er það að mála eins og að syngja, enda heitir sýningin mín í Krummakoti Þetta er nýja lagið mitt.

Nýir sigrar

Ég fór að ganga ein með handriði sitt hvoru megin við mig í janúar eða febrúar. Ég get ekki lýst því hversu sterk hún var, frelsistilfinningin sem ég fann fyrir við það að geta gengið sjálf. Það streymdu gleðitár niður vangana mína þegar ég færði annan fótinn fram fyrir hinn.

Á þessu ári fór ég að þora miklu oftar að tala upphátt við mömmu mína. Ég er þá frekar að sigrast á sjálfri mér en nokkrum öðrum. Mér finnst svo skrítið að heyra röddina mína mynda svona óskiljanleg orð og að hafa ekki fullkomna stjórn á raddstyrknum eða raddblænum. Stundum bregður mér ennþá við að heyra eigin rödd. Ég hef þó einsett mér að leyfa henni að hljóma oftar þó að það sé skrítið. Þá næ ég að æfa mig og vonandi öðlast betra vald á talinu.

Í vor varð ég líka loksins nógu hugrökk til þess að nota talgervilinn. Ég held að það sem hafi einna helst haldið aftur af mér við að nota hann hafi verið skortur á sjálfstrausti. Ég var líka alltaf svo viss um að ég myndi ná að tala aftur svo mér fannst ekki taka því að læra almennilega á hann. Ég fann það um leið og ég gat látið mömmu skilja illskiljanlegu orðin mín að ég gæti notað talgervilinn til þess að hjálpa mér á meðan ég æfi mig.

Þegar ég opnaði sýninguna mína á Bryggjukaffi gat ég nýtt mér þessa tækni til þess að flytja smá ræðu fyrir viðstadda. Fyrir nokkru síðan hefði mér fundist það alveg óhugsandi og beðið mömmu um að lesa upp ræðu sem ég hefði skrifað. Þessi sigur er í mínum huga risastór og hann veitir mér hvatningu til þess að nýta mér vel þá möguleika sem bjóðast, jafnvel þótt þeir séu ekki fullkomnir.

Ég er núna að selja myndirnar mínar sem voru á sýningunni á Bryggjukaffi á Flateyri. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sel myndir eftir sjálfa mig. Ég gerði tuttugu og fimm eftirprent af þeim sextán myndum sem héngu á sýningunni og þau kosta 6000 kr. stykkið. Ef keypt eru tvö prent kosta þau samtals 10.000 kr. (eða 5.000 kr. stykkið) og þrjú prent kosta 12.000 kr. (eða 4000 kr. stykkið).

Endilega hafið samband við mig inni á Instagram eða Facebook ef þið viljið eignast mynd.

Eitt skref í einu

Það hefur margt breyst síðan ég skrifaði þetta og staðan svolítið önnur.

Ég læt þetta þó ekki slá mig út af laginu og ætla að ná mér aftur á strik. Ég held áfram að mála myndirnar mínar og skrifa þó að þrótturinn sé aðeins minni en fyrir nokkrum vikum síðan. Ég fer líka í sjúkraþjálfun og er staðráðin í því að ná aftur fyrri styrk. 

Þegar ég er svona bundin við sjúkrarúm skerpist augað og tilfinningin fyrir smáatriðum.

Ég hlakka þess vegna til þess að halda áfram að vinna myndirnar mínar fyrir sýninguna sem verður á Flateyri 6.-14. ágúst á vinnustofu Jean Larson. Þar verða m.a. til sýnis myndir sem eru unnar úr alkóhól bleki. Þetta verða bæði myndir sem ég hef unnið með Jean Larson og myndir sem ég er núna að vinna í iðjuþjálfun. Það gleður mig mikið hvað myndirnar mínar hafa fengið góðar viðtökur. Það er ennþá hægt að panta prent af myndunum sem voru á síðustu sýningu en þar sem hver þeirra er bara gefin út í 25 eintökum er mis mikið til af þeim.

3 athugasemdir við “Staðan í dag

  1. Hæ Katrín,
    Ég vona að þú sért að jafna þig eftir síðusta áfall og verðir fljót að ná fyrr styrk ❤️
    Ég er svo ofsalega ánægð með myndina sem ég keypti af þér, falleg mynd og prentunin er svo falleg. Mig langar svo að vita hvar þú lést prenta myndirnar.

  2. Kæra Katrín Björk. Mér þykir mjög leitt að heyra að þú hafir fengið bakslag. Flest okkar eru að fá bakslög og eru í einhverju bataferli en þú ert veruleg fyrirmynd í því hvernig eigi að takast á við þau. Og að minna manninn á að við erum öll bróthæg..að lífið er gjöf…að þar er svo margt að þakka fyrir. Ég sendi þér hlýja sólargeislu og ilmandi skógalykt og góðar batakveðjur. Hlakka til að heyra frá þér næst og gangi þér sem allra best með sýninguna❤🌳 Birgitta

Leave a Reply to Árný ÖrnólfsdóttirCancel reply