PAINTING IS MY NEW SONG

Síðastliðinn laugardag opnaði ég málverkasýningu í Krummakoti, vinnustofu listakonunnar Jean Larson á Flateyri. Við Jean vinnum svo vel saman og ég hlakkaði til að koma til hennar og sjá sýninguna. Ég var búin að hugsa mikið um það hvort ég gæti sjálf verið viðstödd opnunina og efaðist satt að segja um það, enda er ég búin að vera mjög slöpp undanfarnar vikur.


Þegar ég vaknaði þennan laugardag fann ég þó, til allrar hamingu, að ég treysti mér til þess að bregða mér til Flateyrar og opna sýninguna með Jean og góðum vinum mínum sem skipulögðu hana með okkur.  Við mamma undirbjuggum daginn vel og mér fannst svo gaman að velja loksins föt og hafa mig aðeins til. Ég hafði ekkert farið af spítalanum síðan ég fékk áfallið um daginn og ég fann tilhlökkunina hríslast um mig. 

Ég fann líka fyrir smá kvíða, því ég get aldrei alveg treyst á það hvernig dagsformið verður hverju sinni. Ég vonaði bara að þetta myndi allt ganga vel og við mæðgurnar héldum af stað til Flateyrar fullar eftirvæntingar.

Allt gekk framar okkar björtustu vonum þennan dag. Þegar við mamma komum til Flateyrar tóku Jean og Alan maðurinn hennar á móti okkur við Krummakot. Jean var búin að gera vinnustofuna sína svo fallega í tilefni dagsins og ég sá strax hvað myndirnar mínar nutu sín vel á veggjunum. Það var eitthvað svo falleg og hlý birta á verkstæðinu sem Jean var eiginlega búin að breyta í lítinn sýningarsal.

Mér brá við að sjá hvað það voru margir gestir mættir á sýninguna. Mér fannst æðislegt að hitta allt þetta fólk og finna stemninguna á staðnum og alla jákvæðu orkuna. Ég hitti marga vini og kynntist líka nýju fólki sem var áhugasamt um myndirnar mínar. Það var svo gaman að sjá hvað margir stöldruðu lengi við og spjölluðu fyrir utan Krummakot í góða veðrinu sem við fengum þennan dag.

Ég tek þennan kraft með mér inn í næstu vikur og býð ykkur að koma og skoða sýninguna mína, Painting is My New Song.

Leave a Reply