Að duga eða drepast

Ég sagði við mömmu að ég væri alveg að gefast upp og hún svaraði ,,að það væri annað hvort að duga eða drepast”, ég ákvað að duga eitthvað áfram.

Finnst mér ljóð eða viska sem tileinkuð er móður Teresu eiga svo vel við og vera svo hvetjandi.

GJÖF LÍFSINS
Lífið er tækifæri, gríptu það.
Lífið er fegurð, dáðu hana.
Lífið er gjöf, njóttu hennar.
Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika.
Lífið er áskorun, taktu henni.
Lífið er skylda, gerðu hana.
Lífið er leikur, leiktu hann.
Lífið er dýrmætt, gættu þess.
Lífið er auðlegð, varðveittu hana.
Lífið er kærleikur, gef þig honum á vald.
Lífið er loforð, láttu það rætast.
Lífið er sorg, sigraðu hana.
Lífið er söngur, syngdu hann!

Þegar ég vaknaði eftir stóru blæðinguna og aðgerðina, þá var það fyrsta sem kom í huga minn, aumingja mamma og pabbi, hvað þetta verður erfitt fyrir þau.

Ég fann ekki fyrir kvíða, hann var horfinn.

Eftir seinustu blæðingu tókst kvíðanum að troða sér aftur inn í huga mér og nú er verkefni að henda honum þaðan út aftur. Það er svo íþyngjandi að burðast með kvíða.

Ég hef aldrei skilgreint mig fatlaða, það eru aðrir sem gera það, ég er bara ég og fékk þetta verkefni sem ég reyni að vinna mig í gegnum og verða betri í dag en í gær.

Ég er mjög þakklát fyrir það sem ég get enn gert og nýt þess að skapa, áður var það söngurinn núna er það myndlistin og hönnun, en ég hannaði með góðri hjálp hálsmenið Tvær stjörnur.

Þakklætið og vonin um lyfið hafa hjálpað mér að gefast ekki upp, ég verð að æfa mig betur í að vera ekki hrædd um að missa það sem ég hef möguleika á að njóta í dag.

2 athugasemdir við “Að duga eða drepast

 1. Takk fyrir þessa fallegu og upplífgandi byrjun á deginum, jákvæð, hvetjandi, ljóðræn og litrík tjáning. Þú ert okkur öllum góð fyrirmynd.
  Bestu batakveðjur,
  Kristján
  PS : Er einhvers staðar hægt að kaupa þetta fallega men?

 2. Mikið ert þú dugleg og svo listræn, svo fallegar myndirnar og hálsmenið.
  Gangi þér innilega vel.
  Bestu batakveðjur, María

Leave a Reply