Tvær stjörnur

Draumur að rætast.

Ég fékk hugmyndina að hálsmeninu Tveimur stjörnum fyrir sjö árum. Úr meninu má sjá tvær stjörnur, eða verur, sem styðja hvor við aðra. Þegar hugmyndinni að hálsmeninu laust niður í kollinn á mér þá langaði mig að tjá svo margt með tveimur stjörnum. Menið stendur fyrir kærleika, von, samvinnu og ekki síst vináttu. Vináttan felur svo margt í sér sem ég sé í tveimur stjörnum. Þetta er gleði eins og dansandi manneskjur eða vinur að styðja vin og svo mætti lengi telja. Það getur hver og einn fundið sína merkingu í hálsmeninu.

Hrafnhildur, frænka mín, með hálsmenið

Eftir að hafa rissað upp hönnunina tók Haraldur Hrafn Guðmundsson, mágur minn og gullsmíðameistari, við og smíðaði gripinn í samvinnu við mig. Hálsmenið er úr silfri og á 45 cm silfurkeðju, – gullfallegt. Það var svo fyrir tveimur árum sem ég fékk styrk úr Þróunarsjóði Flateyrar til að fullvinna menið og hefja framleiðslu á því – og þá gat verkefnið farið af stað fyrir alvöru.

Ég kynntist fyrst starfi endurhæfingardeildar Grensáss árið 2014 og eftir stóra áfallið mitt árið 2015 dvaldi ég á Grensás í næstum því ár. Starfið þar skipti sköpum fyrir mínar framfarir. Fyrir ári síðan hitti ég því stjórn Hollvina Grensáss og viðraði hugmynd mína við þau að menið yrði selt til styrktar Grensás. Þau tóku hugmyndinni fagnandi.

Í vor fagnar Grensássdeildin 50 ára afmæli og af því tilefni verður söfnunarþáttur í sjónvarpi RÚV 6. október. Af þessu tilefni verður hálsmenið Tvær stjörnur til sölu hjá https://grensas.myshopify.com og rennur helmingur ágóðans af hverju meni til Grensássdeildar. Með Tveimur stjörnum vil ég sýna í verki þakklæti mitt til Grensássdeildar.

Ég elska að sjá svona samvinnu verða að veruleika. Ég er að springa úr spenningi að geta loksins sleppt þessu frá mér. Ég vona að sem flestir kíki á síðuna og sendi mér svo þeirra upplifun af þessum tveimur stjörnum. Ég óska að þær fái að lifa lengi og að sem flestir muni bera þær um ókomin ár.

Til hamingju Grensás með 50 ára afmælið!

2 athugasemdir við “Tvær stjörnur

Leave a Reply