Lærdómsríkur hjólatúr

Ég hef aldrei notið þess að fara hratt um. En þegar það er tekið frá manni þá saknar maður þess að hafa valið.

Þegar ég fékk hjólið mitt þá gafst mér loksins tækifæri til þess að fara frjáls ferða minna á eyrinni. Ég þurfti að læra á hjólið og fór því mjög hægt í fyrstu en smám saman jukust möguleikar mínir á að stilla það sjálf hversu hratt ég færi um. Þetta skyndilega val varð mér bæði framandi og spennandi. Ég er samt svo varkár að eðlisfari að ég var ekkert að drífa gírana upp. Í mestallt sumar fór ég ekki hærra en í þriðja gír. Þá var ég ekkert að þeysast langt fram úr þeim sem komu gangandi með mér. Í lok sumars fór þessi fjandans þriðji gír að vera svolítið leiðigjarn að mínu mati. Ég fór út að hjóla með systur minni, sem er miklu meiri glanni en ég. Þá fóru gírarnir upp og ég endaði í fimmta gír í þeirri ferð. Við fórum út á hlíð í það skipti og ég fékk að finna fyrir örlítilli golu leika um hárið mitt á meðan ég hjólaði og ég fann líka hvernig ég svitnaði við áreynsluna. Brosið sem það vakti og allar góðu minningarnar sem rifjuðust upp við að hjóla einmitt á þessum stað og að finna nákvæmlega sömu tilfinningar í líkamanum og þegar ég hljóp einmitt þarna sjö árum fyrr. Eftir þennan hjólatúr hef ég verið vitlaus í að fá að fara ein út að hjóla og finna fyrir endorfíni streyma um æðarnar.

Á laugardaginn var mamma næstum búin að segja já við þeirri bón en hún hætti svo við á síðustu stundum og kom hjólandi á eftir mér. Ég varð þá frekar fúl, setti hjólið í hæsta mögulega gírinn og ákvað að láta eins og hún væri ekki með mér. Ég fór í torfærur hjá varnargörðunum og hélt svo niður Hjallaveginn á fullu spani og var fljótlega komin niður á Hafnarstrætið. Þá fann ég svo vel hvernig vindurinn lék um hárið á mér svo ég gaf ennþá meira í og fann endorfínið þá streyma svo um mig að ég var næstum búin að gleyma að ég væri ekki alveg sátt við mömmu. Í huganum var ég farin að syngja lög af gamla hlaupa lagalistanum mínum og þegar ég var komin að viðlaginu í ,,Run fast for your mother” þá var ég komin að gatnamótum Hafnarstrætis og Öldugötunnar. Þá fannst mér óhugsandi að þurfa að hægja á mér og beygja inn Öldugötuna til að finna skáa af þessari háu gangstétt. Ég ákvað þá við undirspil trommuleiksins í millikaflanum að taka sénsinn og láta mig fljúga út af háu gangstéttarbrúninni. Ég var á þríhjóli svo að ég var ekkert hrædd um að detta. Mamma var sem betur fer ekki langt undan þegar hún sá mig hendast í loftköstum á hjólinu út á miðja götu og byrja í loftinu að steypast til vinstri. Sem betur fer er öryggisbelti á hjólinu mínu því að annars hefði þetta farið mikið verr. En djöfull var ég pirruð út í þessi helvítis belti þegar ég var loksins lent og gat þá ekki komið mér á fætur, rétt hjólið við og látið eins og ekkert hefði í skorist. Mamma sá í hvað stefndi og gaf þá allt í botn á sínu hjóli til þess að reyna að afstýra fallinu. Það fór þó ekki betur en svo að mamma brotlenti á hjólinu mínu þegar hún reyndi að ýta því til og datt sjálf kylliflöt á götuna. Næstu mínúturnar brölti mamma um og reyndi að reisa bæði mig og níðþungt hjólið við til þess að koma okkur af götunni. Ég hef aldrei þakkað jafn einlæglega fyrir það hvað umferðin er lítil á Flateyri. Mömmu brá svo við byltuna að við urðum ekki aftur vinkonur næstu klukkutímana. Ég varð bara þögla hlýðna stúlkan og mamma varð brjálaða mamman. Allt út af ást. Og einmitt vegna ástar þá má ég sem betur fer ekki fara ein út að hjóla næstu vikurnar.

Mig hefði aldrei grunað að einn hjólatúr gæti kennt mér svona margt. Nú veit ég að ég á ekki að fara þessa leið ef ég vil fara glannalega um. Eins ætla ég aldrei að óska þess að losna við mömmu. Ég fann hvað það er gott og mikilvægt að fá að læra af reynslunni. Það var líka undarlega hressandi að fá marblett og sár á hnéð og að finna aftur að það er hluti af lífinu að gera mistök og jafnvel meiða sig og læra þá af misstökunum. Ég finn að þarna er möguleiki fyrir mig til þess að takast á við nýjar áskoranir með öðru hugarfari en áður. Það er mikilvægast af öllu að fá að taka ákvarðanir sjálf, en vera ekki alltaf skjólstæðingur sem allir skýla og verja og taka ákvarðanir fyrir. Sem betur fer urðu meiðslin sem hlutust af þessari byltu ekki meiri en einn marblettur og ein skráma. Ég lærði þó mikið meira á sjálfa mig.

Sumarævintýr!

Í sætri sumarbyrjun þá gat ég platað fjölskyldu mína með mér í íslenskt sumarævintýri. Svo við héldum suður á land og ég fékk í fyrsta skipti að sjá suðurlandið skarta sínu fegursta.

Við byrjuðum á því að halda suður á bóginn þar sem fyrsta stopp var Seljalandsfoss, algjörlega túristalaus og við vorum þar nánast ein að skoða þessa náttúruperlu þar sem við gátum farið á bakvið fossinn og notið okkar í úðanum af fossinum og séð fallegu klettana sem eru í felum á bakvið fossinn sem og í fjallinu í kringum fossinn. Við nutum þess að horfa á fossinn í sólinni og sumarylnum. Ég var í dásamlegum fötum frá Zo-on, Engey Superstretz buxunum sem henta vel í bíl sem og úti í náttúrunni þar sem þær eru flísfóðraðar og eru því hlýjar og góðar sama hvort þær séu notaðar sem innsta lag undir aðrar buxur eða einar og sér. Við þær var ég í bláum Dynjandi stuttermabol. Það var æðislegt að ferðast um í þessum fötum svo áður en ég fór út að skoða Seljalandsfoss þá fór ég í peysu frá Zo-on sem heitir Vindur og í úðanum frá fossinum þá fór ég í jakka sem er einnig frá Zo-on og kallast Demba, sem er sérstaklega gott að hafa við höndina þar sem hann er alveg vatnsheldur en andar einnig mjög vel. Þar sem við vissum ekkert hvernig veðri væri von á. Eftir góða stund héldum við næst að Skógafossi og þá var einmitt komin rigning.

Ég naut mín vel við kraftinn frá Skógafossi. Ég fór eins langt og ég komst og reyndi að innbyrgða alla þá orku sem ég gat. Ég naut mín að standa við rætur fossins í rigningu og fá úðann af fossinum beint framan í mig. Við héldum svo á leið á Hótel Rangá og mér finnst svo gaman að keyra um í svona allt öðruvísi landslagi en ég er vön, sjá glitta í fjöllin í Vestmannaeyjum og einnig í Eyjafjallajökul. Flatlendið er svo mikið þarna. Þegar við komum að Hótel Rangá fannst mér svo merkilegt að sjá fjallið Heklu og fá að njóta fegurðar hennar svona í fjarska.

Það var tekið mjög vel og hlýlega á móti okkur á Hótel Rangá. Þegar við komum inn á hótelið tók stærðarinnar ísbjörn á móti okkur sem ég tók sem tákn um hlýju og kröftugheit. Ég hef sjaldan gist á svo góðu hóteli. Okkur var úthlutað svo góðum og flottum herbergjum þar sem við hvíldum okkur dálitla stund áður en við fórum á veitingastaðinn þeirra í kvöldmat. Þar var komið fram við okkur eins og við værum konungsfólk og betri mat hefur enginn af okkur smakkað. Alveg sama hvort það var lax, lamb, nautalund eða svepparisotto. Svo fengum við okkur eftirrétt, súkkulaðiköku og ís sem fullkomnaði daginn. Eftir matinn héldum við í pottana þar sem við gátum leyft ferðalagi dagsins að líða úr okkur með útsýni yfir þessa einstöku náttúru sem er þarna í kring áður en við fórum inn í herbergin okkar að sofa í þessari einstöku kyrrð og ró sem býr út á landi á næturnar.

Skyrta og buxur: Lindex
Skór: Adidas
Náttföt: Lindex
Bók: Forlagið

Svo vöknuðum við endurnærð daginn eftir og fórum í morgunmat. Svo fóru sumir í leikjaherbergið en þá fór ég að lesa og svo var haldið heim á leið með stoppum í Friðheimum, Geysi, Gullfoss og Þingvöllum. Ég klæddi mig rétt fyrir þann dag, þá var ég í buxum frá Zo-on sem heita Ganga. Þær eru bæði smart og einstaklega þægilegar. Svo var ég í gulum Dynjandi stuttermabol frá Zo-on og í Skarðshlíð peysu frá Farmers Market. Ég þurfti varla að fara í Dembu jakkann því sólin lék við okkur. Mér fannst svo áhugavert að fara í Friðheima og fá að sjá alla þá ræktun sem er þarna og fá að njóta matarins sem er í boði þarna sem er einmitt gerður úr ferskum tómötum og grænmeti sem er ræktað á staðnum.

Taska: zo-on

Þetta var góð byrjun á deginum sem var nýttur til að bera helstu náttúruperlur suðurlandsins augum og í sól þá skörtuðu þær sínu fegursta. Hvort sem það var Strokkur að gjósa, krafturinn í Gullfossi eða kyrrðin við Þingvallavatn. Þá voru þessir dagar fullkomnaðir með fegurð suðurlandsins hvort sem það var rigning eða sól. Mér finnst ég vera svo heppin að hafa fólk í kringum mig sem nennir að taka þátt í svona ævintýrum með mér!

Langt síðan síðast!

Peysa, buxur og taska eru frá ZO-ON

Halló fallegi heimur! Nú er ég að vakna og byrjuð að líkjast sjálfri mér eftir fjóra mjög krefjandi og þunga mánuði. Ég er svo innilega þakklát öllum þeim sem standa mér næst og þau passa upp á að góða og bjarta skapið fái aldrei að víkja mér frá.

Ég hef samt reynt að hafa nóg að gera, desember leið með öllum sínum jólauppákomum, þó ég hafi verið úthaldslítil þá naut ég mín bara á hliðarlínunni. Litlausi janúar kom og þá fór ég til dæmis í yndislegar þrjár vikur til Reykjavíkur. Febrúar kom og fyrst þá sleppti höfuðborgin takinu á mér, ég hélt heim og stóðst svo annað árið í röð þá miklu og erfiðu áskorun sem ég set á sjálfan mig og skemmti mér manna best á stóra og skemmtilega þorrablótinu sem er haldið hérna. Síðan kom minn allra uppáhalds mánuður mars og þá gat ég loksins aftur byrjað að skrifa og æfa!

Eftir lítið desember óhapp sem endaði svo á því að vera jólakraftaverk. Viku fyrir jól var ég flutt í flýti til Reykjavíkur á Landspítalann. Á þeirri viku gerðust heldur betur kraftaverk og öllum til undrunar og gleði fékk ég að halda jólin heima, umvafin öllu mínu mikilvægasta fólki. Í dag, þremur mánuðum eftir þessa lífsreynslu stend ég staðfastari en nokkurn tímann áður í þeirri trú að ég sé í hópi þeirra allra heppnustu manneskja í öllum þessum risastóra heimi!

Daginn áður en ég hélt til Reykjavíkur þá beið mín einn sá besti pakki sem ég hef nokkurn tímann fengið. Þetta var sem mér hefði verið veittur lykill að betri líðan, því í honum leyndust fjórar góðar og skemmtilegar bækur sem ég fékk að gjöf frá Forlaginu. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri. Ég gæti ekki verið þakklátari, ég bókstaflega át þessar sögur ofan í mig með hinni mestu og bestu lyst og ánægju. Ég hef sýnt og sagt frá þeim á instagram story. Ég fékk svo mikil og góð viðbrögð við því að ég hef ákveðið að setja það líka hingað inn um hvað bækurnar eru, ásamt því ætla ég líka að segja ykkur hvaða áhrif lesturinn á þeim hafði á mig.

„Að vetrarlagi” eftir Isabel Allende.

Aftan á bókarkápunni stendur:

„Þegar versti snjóbylur í manna minnum geisar í Brooklyn lendir háskólaprófessorinn Richard í því að keyra á bíl ungrar konu, Evelynar, sem er ólöglegur innflytjandi frá Gvatemala. Ekkert stórmál – fyrr en Evelyn birtist skömmu síðar heima hjá honum og biður um hjálp. Í örvæntingu leitar Richard ráða hjá leigjanda sínum, Lucíu frá Chile, og það verður upphaf óvæntrar ástarsögu og ævintýralegs leiðangurs til Gvatemala samtímans og Brasilíu og Chile áttunda áratugar síðustu aldar. Isabel Allende hóf feril sinn með töfrasögunni óviðjafnanlegu, Húsi andanna, sem fór sigurför um heiminn. Hún hefur síðan skrifað fjölda skáldsagna og átakamál samtímans hafa ávallt verið henni hugleikin. Mannréttindi, mannleg reisn og innflytjendamál eru meginstefin í þessari heillandi sögu sem skrifuð er af rómuðu innsæi ástsæls höfundar.”

Þessi bók greip mig strax frá fyrstu síðu, ég er núna búin að lesa hana fjórum sinnum. Í hvert sinn sem ég byrja á sögunni birtist mér ný saga sem iljar hjarta mínu og hún fangar huga minn og segir mér í raun nýja sögu. Ég sé fyrir mér að þessi saga fái að eiga heima á náttborðinu mínu út árið. Mér finnst svo gott að hafa allavega eina bók á náttborðinu sem ég get lesið á kvöldin þegar mig vantar góðann endi á daginn. Á þannig kvöldum þá knúsar þessi bók hjartað!