Jólasigurinn

Ég sigraðist virkilega stórt á sjálfri mér á þriðjudagskvöldið, ég fór á mína fyrstu jólatónleika síðan ég veiktist. Þá fyrstu í þrjú ár og mikið var það nú gott að gleyma sér í tónaflóðinu og þetta var svo einstaklega náttúrulegt fyrir mig. Áður en heilaáföllin fóru að ónáða mig þá var desember sá mánuður sem ég var hvað mest upptekin allt árið. Bæði var ég í prófum og svo var ég að syngja á gífurlegum fjölda af skemmtilegum jólatónleikum. Mér finnst ég hafa verið svo ólýsanlega heppin að hafa fengið að kynnast og tileinka mér tónlistargleði því hún hreinlega bjargar mér þá daga sem þetta verkefni mitt í lífinu virðist mér óyfirstíganlegt. Þá er svo gott að eiga í alvöru stað sem rekur alla svartsýni burt og boðar frekar bjartsýni, gleði og hóflega af smá vitleysu. Fyrir ári síðan kom það ekki til greina að ég færi á nokkra tónleika og leyfði fólki að sjá mig. Í dag nýt ég mín í athyglinni og ég vona yfirleitt alltaf að ég hitti sem flesta. Eins og á þriðjudagskvöldið þá hitti ég svo marga og ég naut þess svo innilega og meira að segja svo miklu meira en ég hafði þorað að vona. Þetta kvöld varð því sem draumi líkast. Þetta voru bæði stórskemmtilegir og fallegir tónleikar og síðan varð stemmingin svo létt að ég var þurrkandi tárin af hlátri. Bæði falleg og svo undur skemmtileg stund hjá Eyþóri Inga og gamla kórnum mínum, Sunnukórnum!

Litlu sigrarnir í nóvember // The small victories

Í nóvember eru þrjú ár síðan ég vaknaði upp í mína verstu martröð, ég vaknaði á laugardagsmorgni heima hjá mér í Vesturbænum, níu dögum eftir að ég fékk mína fyrstu heilablæðingu, ég var að fara að hitta vinkonur mínar. Þegar ég reyndi að fara fram úr þá gat ég ekki hreyft hægri hluta líkama míns, í þetta sinn hafði ég fengið blóðtappa. Næstu sjö mánuði var líf mitt sveipað kvíðaþoku og ég var svo ótrúlega reið og hrædd við gjörsamlega allt lífið og allt sem lífið hafði upp á að bjóða. Út á við setti ég upp fake andlit, það mátti engann gruna að mér liði svona ógeðslega, ég náði engum svefni því annað hvort var ég svo kvíðin að ég grét alla nóttina eða ég vaknaði upp með martraðir, ég man enn eftir sigur tilfinningunni sem ég fylltist þegar ég náði í fyrsta sinn að komast fram að nóttu til án þess að vekja nokkurn þá fann ég stað þar sem ég gat grenjað og verið reið í friði. Við seinni blæðinguna, sem var miklu stærri og hún hefti mig meira líkamlega, en þá losaði hún mig úr þessum myrkraböndum. Það hafa margir sagt að ég sé fangi í eigin líkama núna, því ég tala nánast óskiljanlega og sé ekki með neitt jafnvægi þegar ég stend og geti því ekki gengið án stuðnings. En mér líður alls ekki sem ég sé einhver fangi núna, þó orðin séu óskýr þá hef ég mikla rödd og ég get skrifað. Í þessa sjö mánuði sem ég sá ekki skýrt vegna kvíðans og hræðslunnar við lífið, þá var ég fangi. Þessi eilífi feluleikur og ég reyndi að blekkja hvern þann sem hélt að ekki væri allt í himnalagi hjá mér. Ég kveið alltaf morgundeginum sama hvaða rökréttu hugsanir ég reyndi að hugsa. Í sjö mánuði lifði ég full ótta, kvíða og stressi fyrir því sem framundan væri. Þegar ég vaknaði eftir seinni blæðinguna þá áttaði ég mig á því að þetta yrði að hætta, ég ætlaði hér eftir að njóta alls hins besta sem lífið hefur uppá að bjóða. Ég hugsa bara að allir þurfa að takast á við erfiðleika. Ég myndi ekki vilja skipta á mínu verkefni við einhvern annan. Ég óska engum að takast á við svona stórt verkefni. Ég er sannfærð um að ég sé heppnasta manneskja í heiminum nú hefur lífið mitt komist á botninn og þá er bara ein leið í boði og það er upp og ég ætla mér að komast á toppinn!

. . .

//This November there are three years since I woke up to my worst nightmare. I woke up at home on a Saturday morning, nine days after I got my first stroke, I was going to meet my girlfriends. When I tried to get out of bed I could not move the right side of my body, this time it was a blood clot. For the next seven months my life was filled with anxiety and I was very angry and full of fear towards everything in life. To the outside world I put on a fake face, I did not want anybody to know how terrible I felt, I could not sleep, I was either so filled with anxiety that I cried all night or I woke up with nightmares, but I remember the triumph I felt one night when I was able to get out of bed without waking anybody up and found a place where I could just cry and be mad by myself. When I got my last stroke, which was much bigger and took more from me physically, it made me get rid of those terrible feelings. Many people have said that I am a prisoner in my own body since my speech is blurred and hard to understand and I have no balance when I stand and therefore I can not walk without help. But I do not feel like a prisoner at all, even though my words are not clear, I do have a big voice and I can write. I was a prisoner for the seven months I could not see clear because of anxiety and fear towards life. I did put on a fake face and tried to make everybody believe I was totally fine and was always scared for tomorrow and it did not matter how hard I tried to reason with my self. For seven months I lived full of fear and anxiety for the future. When I woke up after the last stroke I realized this had to stop, I was going to enjoy all the good things life has to offer. I just think that everybody have their own challenges to overcome. I would not like to change places with someone else. I do not wish for anybody to conquer such a big challenge. I belive I am the luckiest person in the world, now my life has reach the bottom and there is inly one way out, up, and I am going to reach the top.

Þennan dag fyrir þremur árum missti ég svo mikið meira en nokkurn gæti einhvern tíma grunað. Ég var ákveðin í að ég ætlaði sko aldrei að biðja um hjálp við nokkurn skapaðan hlut, því hætti ég frekar að gera hluti sem ég gat ekki gert í stað þess að þiggja hjálpina. Til dæmis þá henti ég alveg gífurlegu magni af fatnaði sem var í minni stærð því ég gat ekki klætt mig í svo þröng föt með annari hendi, þess vegna keypti ég mér bara stærri föt og sagði öllum að mér fyndist mikið flottara að ganga í oversized fötum. Öðru máli gegndi síðan með þessa bölvaða skó, nú var hægri fóturinn minn orðinn svo lélegur rétt eins og hægri hendin svo ég tók öll skópörin mín og taldi mig hafa hent þeim, því ég varð svo reið og ég grét svo sárt þegar ég komst að því að ég annað hvort komst ekki ofan í skóna eða ég gat ekki gengið á hælunum á þeim, því þeir voru með of háum hælum.

Ég fékk sko að troða þessu bévítans stolti upp í mig aftur því núna þegar ég þarf hjálp frá einhverjum öðrum við nánast allt sem ég geri, þá dregur mamma fram Timberland skónna mína þegar fyrsti snjórinn kom og ég komst ofan í þá í spelkunum, svo núna get ég gengið í snjónum án þess að verða vot eða köld á tánum. Takk,takk, takk elsku heimsins besta mamma mín fyrir að bjarga þeim frá ruslinu!

. . .

// On this day three years ago I lost more than anybody could ever imagine. I was determent to never ask anybody for help to do anything, instead I would just stop doing the things I could not do. For example I threw away allot of clothes in my size because I could not dress myself with one hand if they were tight, I just bought bigger clothes and told everyone I thought that look was much cooler. Same thing went for my shoes, (or so I thought), my right foot was not able to use my shoes and I felt so mad and sad when I found out that I was either not able to fit the foot in them or the heel was to high. Now when I need help with doing almost everything and have had to swallowed my pride in regards to that, my mom digs out my Timberland winter boots and they fit me even with my braces on so now I can walk in the snow without getting wet or cold feet. Thanks, thanks, thanks wolds greatest mom for saving them from the trash!

Fallegasta gjöf sem til er


Á liðnum dögum voru tvö ár frá því þessi stórkostlegi atburður átti sér stað. Þá söng þessi dásamlega vinkona mín, bæði ein og í hópi með öllu hæfileikaríkasta tónlistafólki Ísafjarðarbæjar, heila stórtónleika fyrir mig og fjölskyldu mína. Fyrir troðfullri Ísafjarðarkirkju skilaði hver einn og einasti sem komu að þessum tónleikum af sér algjörlega ógleymanlegum, dásamlegum og tárvotum klukkustundum hjá mér. Fyrir mér var þetta svo einstakt, þó ég væri föst í rúmi inn á stofnun, þá skynjaði ég allan samhuginn og kærleikann, hjartahlýjuna og kraftinn sem bókstaflega flæddi í stríðum straum í gegnum skjáinn og endaði allur í hjartanu á mér. Ég man hvað mér fannst það alveg hræðilegt að ég væri svo veikburða og kraftur minn væri svo lítill og hann var svo langt því frá nægur til að ég gæti verið í salnum og þakkað öllum fyrir.

Tónleikarnir veittu mér kraft:

Það er ótrúlegt hvað svona samhugur og kraftur geta látið magnaða hluti gerast. Eftir þessa tónleika vöknuðu lungun í mér og ég gat loksins alveg sagt skilið við súrefnisgrímuna sem hefur svo oft bjargað lífi mínu.

,, Það voru haldnir styrktartónleikar í Ísafjarðarkirkju til styrktar Katrínu Björk og okkur fjölskyldunni, þarna komu fram frábærir kórar og tónlistarfólk. Ég og Katrín Björk fylgdumst með þessum atburði í gegn um síma og hrifumst með öllum kærleikanum og orkunni sem frá þeim streymdi. Vil ég þakka öllum sem tóku þátt í þessum frábæru tónleikum.
Katrín tjáir sig með augunum.
Við erum með blað sem er með stafrófinu á og með því tjáir hún sig alveg vilt og galið. Og stafaði hún þessa kveðju staf fyrir staf. Þetta er alls ekki fyrir alla, þurfa einstaklingar að vera afburðar greindir og hafa allt of stóran skammt af þolinmæði, því við erum alltaf að grípa fram í og hún Katrín Björk er varla búin að gera einn staf þegar við byrjum að giska á orðið.
Þetta er kveðjan frá Katrínu Björk sem Hulda María las á tónleikunum.
Þegar lífið fer í átján kollhnísa, fimmtán handahlaup, tólf heljarstökk og brotlendir svo, þá er gott að vera umvafinn góðu fólki. Ásgeir Guðmundur Gíslason kærasti minn, fjölskylda, tengdafjölskylda og vinir hafa ekki vikið frá mér þessa mánuði. Og starfsfólk sjúkrahúsanna hefur verið mér mjög gott.
Ég er innilega þakklát þeim sem stóðu að stofnun styrktarsjóðsins og þeim sem lagt hafa honum lið, einnig ykkur sem standið að þessum tónleikum, ég veit vel að vinnan bakvið hvert lag er mikil.
Svo þessi ótrúlegi árangur í Reykjavíkurmaraþoninu, ég mun aldrei ná að trúa því að það hafi verið hlaupnir 511 kílómetrar fyrir mig, og allir styrktaraðilar hlauparanna, ég er svo þakklát. Einnig allar kveðjunar sem okkur hafa borist, þetta veitir mér allt styrk og er mér mikil hvatning. Svo fékk ég fallegasta bútasaumsteppi sem ég hef augum litið, þar er áþreifanlegur kærleikur í hverju spori. Samhugur í litlu bæjarfélagi kemur svo glöggt í ljós þegar lífið brotlendir svona.
Söngur hefur verið stór þáttur í lífi mínu og þótt hann hafi brugðist mér núna þá get ég sem betur fer hlustað – og mörg laganna á þessu prógrammi eru mér afar kær. Þá sérstaklega Heyr mína bæn og ég trúi því að einhver heyri mína bæn.
Lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Á vegi manns verða erfiðleikar og áföll en það er okkar að vinna úr og láta það ekki eyðileggja lífshamingjuna. Því gleðiglampinn í augum og brosið fleytir manni svo miklu lengra og ég ætla mér að halda í það eins lengi og ég lifi.
Þetta ljóð samdi ég 8. ágúst síðastliðinn.

Á leið minni um lífsins ólgu sjó

stundum í stórhríð og byl

hefur það sýnt sig 

að alltaf styttir upp

þó það sýnist svart þess á milli.

Þá þarf ég kjark og þor

til að fara aftur

út á þilfar á ný
Njótið lífsins.”

Ég er svo óendanlega heppin með þetta fjölmarga, stórskemmtilega og afar yndislega fólk sem er allstaðar í kringum mig. Þau létu þessa tónleika verða að veruleika, um hundrað manns komu fram á þessum tónleikum. Ég hafði sungið með öllum kórunum sem komu þarna fram og allir sem sungu á þessum tónleikum sungu sig inn í hjarta mitt. Þá sérstaklega æskuvinkona mín Arnheiður. Við höfum í öll þessi ár notið okkar saman, við hlæjum og syngjum alveg endalaust saman og alls ekkert minna nú þó Arnheiður sé rödd okkar beggja alla vega enn sem komið er. Ég er svo endalaust heppin! ❤
Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar karlakórinn tók Rósina en það var lagið okkar afa og við sungu það mikið saman. Það mun alltaf eiga sérstakann stað í hjarta mínu.

Og svo þegar Arnheiður söng, Er sólin skín á skjá. ❤

Ég læt hér fylgja með mína útgáfu af Heyr mína bæn þar sem Arnheiður raddar og spilar á píanóið og fleiri vinir okkar spila á öll hin hljóðfærin. Þetta gerðum við fyrir níu árum.