Ég var tveggja og hálfs árs og man ekki neitt

Í dag eru 26 ár frá því sá atburður sem mótaði mig hvað mest átti sér stað.

Ég var tveggja og hálfs árs þegar við fjölskyldan lentum í snjóflóðinu á Flateyri. Sem betur fer hafði pabbi byggt svo sterkt hús að efri hæðin flaut ofan á flóðinu og við komumst öll lífs af. Við misstum allt veraldlegt en við höfðum hvort annað og það skiptir mig mestu máli.

Ég var tveggja og hálfs þegar ég lenti í atburði sem ég man ekkert eftir en hann hafði áhrif á hugsunarhátt minn fyrir lífstíð. Ég man eftir þegar ég lék mér á grunninum á húsinu mínu, ég man eftir óörygginu, hræðslunni, óréttlætinu og sorginni sem ég fylltist og skynjaði í kringum mig þegar ég skammaði snjóinn og ég man hvernig hugur minn þroskaðist og ég gekk ekki að morgundeginum vísum.

Ég hef oft verið spurð að því hvort ég líti ekki öðruvísi á lífið eftir heilaáföllin þrjú, svarið er nei, ég var tveggja og hálfs árs þegar hugur minn tók í fyrsta skipti út ótímabæran þroska. Sem lítið barn í blóma lífsins náði ég í gegnum þessa hræðilegu og miklu sorg að halda í blómstrið með ör á sálu minni og skilning á lífinu sem ég vona að ekkert tveggja og hálfs árs gamalt barn þurfi að fá, svona er lífið í hnotskurn og það eina sem ég get gert er að njóta hvers dags sem mér er gefinn.

Okkur fjölskyldunni fannst ósanngjarnt að náttúran gæti rekið okkur frá Flateyri, þannig við þrjóskuðumst við og pabbi byggði aðra höll fyrir okkur á Flateyri. Í dag er hugurinn heima og hjá öllum sem misstu svo mikið. Ég kveiki á kertum og læt hugann reika um liðna tíð.

Vetrarkuldi ❄️

Mér finnst svo innilega ánægjulegt og bókstaflega yndislegt að desember hafi gengið í garð umvafinn fannhvítri jörð. Snjórinn gerir allt svo mikið hátíðlegra, allt verður bjartara og jólalegra. Reyndar er einn óhjákvæmilegur fylgikvilli sem fylgir svona veðurfari og þessum árstíma bara yfir höfuð og það er kuldinn. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég á oft alveg hrikalega erfitt með að fara út í snjóinn og kuldann snemma á morgnana þegar ég er dauðþreytt og það sem er eiginlega verst og fær mig næstum til að hætta við að fara út, er að ég er bara klædd þunnum æfingafötum. Á þannig morgnum finnst mér nauðsynlegt að eiga góða úlpu sem ver mig fyrir mesta kuldanum og verður hún líka að vera svo flott og fín!

Í október fékk ég að gjöf frá Zo On og kallast Mjöll úlpa. Mér finnst hún vera fullkomin utanyfirflík einmitt fyrir íslenskt veðurfar. Í október og nóvember notaði ég mest bara innra lagið á úlpunni eitt og sér, þá er það flottur vatteraður jakki, svo ef það var rigning þá notaði ég fallegu regnkápuna en hún er ytra lagið. Núna eftir að það fór að kólna þá smellti ég jakkanum inn í regnkápuna og þannig verður þetta að vatnsheldri hlýrri og ótrúlega flottri úlpu!

Þegar ég hugsa til baka þá held ég að ég viti fátt hátíðlegra en minninguna þegar ég kem inn heima hjá mér eftir að hafa verið úti að leika mér. Ég er eitt risastórt bros sem er frosið fast við þessa miklu og innilegu gleði sem býr innra mér, þá eru kinnarnar á mér fastar uppi, þær eru rauðar af allri gleðinni og frostbitnar, eftir að ég hef verið úti í lengri tíma að leika mér í snjónum. Þegar ég opna útidyrahurðina heima hjá mér þá grípur mig skemmtileg og falleg jólatónlist, pabbi minn situr og tendrar upp arineldinn sem skín svo fallega inn í jólalegu stofunni heima, mér líður svo unaðslega vel. Í minningunni þá er mamma inn í eldhúsi syngjandi með jólatónlistinni og að baka fyrir jólahátíðina, ég kasta af mér snjóugum útifötunum og hleyp til mömmu því ég er svo æst í að fá að hjálpa henni!

Þó ég hafi ekki líkamlega getu til að endurupplifa þessa minningu þá komst ég örugglega næst því þegar ég labbaði með stuðning mömmu frá bílastæðinu, þar sem ég stoppa til að finna vindinn blása um mig og finna öll veðurbrigðin leika um mig þá er gott að ég sé klædd flottu og góðu úlpunni frá Zo On, Mjöll, hún ver mig eins mikið og úlpa getur gert fyrir öllum veðurbrigðum. Ég kem svo lafmóð, blaut og hamingjusöm inn og hvað haldið þið, er þá ekki pabbi að kveikja upp í arninum!

Litlu sigrarnir í mars

Ef einhver hefði spurt mig þegar ég var lítil stelpa ,,hvað ætlar þú þér að verða þegar þú verður stór?” Þá hugsa ég að mitt svar hefði verið eitthvað á þessa leið ,,ég ætla að verða hjúkrunarkona alla virka daga sem yrði svo að leikkonu á kvöldin og söngkonu um helgar. Það má segja að draumar mínir hafi gjörsamlega hrunið niður og raunveruleikinn hafi elt mig uppi og fellt mig, hlegið að mér og síðan hafi hann rotað mig. Núna er ég að ranka við mér, hugsanirnar eru að verða skýrar og nú eru draumar mínir og þrár orðnar einhverjar allt aðrar og nú þrái ég ekkert heitar en að verða bara flott og stolt fyrirmynd fyrir hvern þann sem sér eitthvað uppbyggilegt í því sem ég geri, þar af leiðandi reyni ég að leggja mig virkilega mikið fram og vanda mig í öllu sem ég geri. Ég er svo ótrúlega heppin og stend alveg föst á því að það sé í rauninni ekkert sem ég mun aldrei geta, ef ég hef áhuga eða viljann og þrána til að komast eða ná einhvert þá muni mér á endanum takast það. Ég ætla mér að komast talandi og á fætur aftur og ná að klifra á toppinn mér er alveg sama hvaða toppur það verður og tíminn sem það mun taka mig skiptir mig engu máli.

Ég missti allann vöðvakraft yfir öllum líkama mínu, ég var sérstaklega lengi að ná stjórn á vinstra auganu mínu aftur. Fyrst lá það bara til hliðar en eftir því sem vikurnar liðu þá náði það að verða útlitslega rétt en sjónsviðið var mjög skert og ég var með tvísýni. Í dag er ég hætt að sjá óskýrt og tvöfalt. Ég fæ bæði höfuðverk og ógleði þegar ég set upp prisma gleraugun. Það voru gleraugu sem ég fékk til að sporna við tvísýninni, ég virkilega trúði því svo innilega að ég myndi aldrei nokkurn tíma losna við þau. Núna á ég þau bara til að minna mig á og þau öskra það bókstaflega á mig að það er í raun og veru ekkert sem ég mun aldrei geta.