Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

Í tilefni af 6. mars sem er Evrópudagur talþjálfunnar hef ég ákveðið að gera það sem ég lofaði sjálfri mér að ég myndi aldrei nokkurn tíma gera en það er að skrifa hér alla mína sögu sem viðkemur talmeinafræðingum. Ég er 24 ára gömul stelpa sem missti allan vöðvakraft vegna heilaáfalla og er því ótalandi, en á sama tíma er hugsun mín heil og ég er svo heppin að vegna kynna minna við talmeinafræðinga þá verður hversdagslegt líf mitt eins venjulegt og skemmtilegt og það getur orðið.

Ég var 22 ára þegar ég vaknaði rúmlega sólarhring of seint eftir heilablæðingu og heilaskurðaðgerð sem varð að framkvæma til að ég ætti einhvern möguleika á að halda þessu hverfula en á sama tíma óviðjafnanlega skemmtilega lífi áfram.

Ég var 22 ára þegar einu vöðvarnir sem hreyfðust voru hægra augnlokið og hinn sterki og stabíli hjartavöðvi. En ég man allt, ég man þegar mamma sagði mér hvað hefði átt sér stað, og ég man eftir öllum læknunum og hjúkrunarfræðingunum, hjúkrunarfræðinemunum og sjúkraliðunum, öllum sem björguðu lífi mínu nánast á hverjum degi og stundum oft á dag fyrstu þrjá mánuðina. Svo lá ég á sjúkrahúsi næstu ellefu mánuðina.

Ég man svo ótrúlega vel eftir þeim mikla gleðidegi þegar það kom til mín einn fær talmeinafræðingur og færði mér röddina mína aftur þótt hún hefði engan hljóm og ég ætti engan vöðvakraft til að mynda öll orðin sem höfðu bara búið innra með mér síðustu sex vikurnar. Ég man svo vel þegar talmeinafræðingurinn sýndi mér spjaldið og spurði mig svo: ,,Á hvaða staf byrjar nafnið þitt?” Ég horfði þá bara tvisvar á rauða hópinn því það þýddi K. Svo spurði hún mig ,,Hver stendur hér við hliðina á mér?” Og þá horfði ég fyrst á brúna hópinn og svo á rauða hópinn, því Á er rauður stafur í brúna hópnum, og þannig stafaði ég ÁSGEIR en Ásgeir stóð við hliðina á henni brosandi því alstærsta brosi sem ég hef séð nokkurn mann skarta! Síðan leyfði hún Ásgeiri að halda á spjaldinu og hún spurði mig ,,Til hvaða lands fórstu seinast í frí?” Talmeinafræðingurinn kenndi Ásgeiri að lesa af spjaldinu þegar ég stafaði með augunum GRIKKLAND. Það var svo gaman að koma mömmu minni, tengdamömmu og Ásgeiri á óvart þegar Ásgeir var að kenna þeim á spjaldið og ég stafaði ,,ÉG ER MEÐ HEILA HUGSUN OG ÉG HLAKKA SVO TIL ÞEGAR ÁSTHILDUR OG SÓLVEIG VERÐA KOMNAR”. Frá og með þessum orðum vissu þau að ég hafði alltaf verið með þeim og ég skildi allt.

Ég mun aldrei gleyma þessum degi. Þarna gat ég bara hreyft augun og látið fólk skilja já- og nei-in mín með því að ég blikkaði einu sinni fyrir já og tvisvar fyrir nei, en seinna gat ég líka hrist höfuðið ef ég vildi segja nei og kinkað kolli fyrir já. Lungun mín voru líka alveg að fara að vakna og ég gat andað með aðstoð súrefnis.

Það getur enginn ímyndað sér hvaða frelsisgjöf þetta var. Ég gat stafað með augunum fyrir hvern þann sem hafði áhuga á því að lesa af spjaldinu. Ásgeir og mamma áttu samt auðveldast með að lesa af spjaldinu, þau lesa hug minn líkt og hann sé þeim opin bók.

Við að fá þessa miklu gjöf sem spjaldið var mér þó að þetta séu bara hljómlausir stafir þá urðu þeir röddin mín og hún tjáir alveg jafnt eftirvæntingu, gleði, sorg og reiði rétt eins og hljómmikla röddin mín gerði fyrir þremur árum. Með tilkomu þessa spjalds fékk ég loksins aftur hina langþráðu stjórn yfir sjálfri mér. Ég fékk stjórnina yfir lyfjunum mínum, ég gat tjáð ást mína eða hatur, gat aftur stjórnað fatavali mínu, ég gat loksins aftur tjáð tilfinningar mínar, tekið þátt í umræðum og staðið fast á mínum skoðunum. Með augunum stafaði ég ljóð sem ég hafði samið þessar erfiðu vikur sem ég lá á gjörgæslunni, einnig stafaði ég með augunum kveðju sem systir mín las á styrktartónleikunum sem voru haldnir fyrir mig.

Ég stafaði með augunum í marga mánuði en svo vaknaði vinstri höndin og í dag (tveimur árum seinna) þá stafa ég með því að benda á stafinn. Þetta er orðið mikið einfaldara fyrir mig en þetta var. Ég lendi samt reglulega í fólki sem kann ekki að eiga samskipti við mig og þá forðar það sér fljótt og leyfir mér ekkert að tala. Ég hef farið til margra lækna sem hvorki líta á mig né tala við mig, þeir bara tala við aðilann sem kom með, svo ég ætti auðveldara með að stafa. En núna þá reyni ég alltaf að byrja á því að stafa ,,Hæ ég heiti Katrín Björk, mér þykir mjög gaman að kynnast þér og þótt ég tjái mig á þennan hátt þá þætti mér afar vænt um ef þú gætir talað við mig.”

Ég er tvisvar í viku í talþjálfun hjá Tröppu þar sem ég er í fjarþjálfun og í gegnum tölvuna á ég alveg ómetanleg samskipti við talmeinafræðinginn minn. Það er svo stórkostlegt að finna vöðvana vakna og fylgjast með þeim styrkjast. Mér finnst ég vera svo heppin að fá að njóta fjarþjálfunar hjá Kara connect sem gerir það mögulegt fyrir mig að ég geti búið með fjölskyldu minni hérna fyrir vestan og ég fái vikuleg samskipti við talmeinafræðing. Í framtíðinni þá sé ég fyrir mér að þetta spjald verði bara upp á vegg í ramma og ég labbandi og talandi svo allir geta skilið mig og allt hafi það verið þessum dásamlegu þjálfurum að þakka!

Fleiri stórir sigrar í febrúar!

Áður en ég veiktist þá lagði ég mikla áherslu og ég gerði mitt allra besta í að rækta bæði líkama og sál af heilbrigði og gera það eins vel og ég gæti. Ég naut mín aldrei betur en þegar ég var hlaupandi um Ægissíðuna eða út fallega fjörðinn minn andandi að mér þessu tæra, hreina og góða sjávarlofti, þetta gerði ég alltaf þrisvar í viku mér var alveg sama hvernig viðraði. Auðvitað var best að fara út í fallegt sumarveður þá fékk ég endalaust úthald og á þannig dögum kom ég mér ekki heim þá var ég bókstaflega óstöðvandi á hlaupunum ég naut náttúrunnar á einhvern allt annan og betri hátt en ég sé hana út um bílrúðuna. Lyktin af bæði náttunni og hafinu verður aldrei betri en þegar nef á hlaupum dregur að sér andann af þessum ilmi, það komast engin hlaup nálægt sumarútihlaupum. Ég naut mín líka svo vel í rigningu og jafnvel snjókomu og slyddu þá labbaði ég bara í hálkunni og snjónum, stundum barðist ég um í snjógalla og ég rétt komst út á götuna við heimilið mitt þá hnoðaði ég mér bara snjóbolta og kom inn miklu kátari en þegar ég fór út, þá var takmarkinu náð. Svo kom ég inn og gerði maga- og bak-æfingar, teygði og naut mín svo í að planka í góðann tíma.

Eftir þessi áföll núna hef ég saknað þessara hreyfinga svo sárt og ég get bókstaflega ekki beðið eftir jafnvæginu og þessum styrk sem ég þarf á að halda í svona ævintýri. En núna eru æfingarnar mínar alltaf að verða líkari og líkari mér. Ég byrja núna hvern æfingatíma á því að ganga með þjálfaranum mínum í göngugrind sem ég hélt að ég myndi aldrei fást til að standa jafn montin við og ég raunverulega er. Fyrst þegar ég fór að ganga þá var ég sett í mun hærri og eldri göngugrindur og ég man hversu ógeðslega erfitt það var að ganga í þeim, þær jafnvel voru höktandi og óstýrandi helvíti. Eftir hvern tíma endaði ég hágrátandi og að lokum gerði ég samkomulag við sjálfan mig, ég lofaði mér því að ég skildi aldrei nokkurn tímann koma til með að ganga við göngugrind aftur. Án þess að láta mig vita pantaði þjálfarinn minn göngugrind fyrir mig, hún lítur allt öðruvísi út en hinar sem reyndust mér svo illa. Ég tók mér heila tvo mánuði í það að horfa á hana og sættast við hana.

Svo á fyrstu æfingunni á nýju ári sættist ég á að byrja að æfa með hana. Í byrjun febrúar var þetta strax orðið mér svo auðvelt að ég þorði að ganga með göngugrindina bæði upp og niður brekku! Það tók hrikalega á og þetta var mér virkilega erfitt, ég fylltist sömu tilfinningu og ég var vön að fyllast á hlaupunum, núna var ég bara að erfiða í gjörbreyttum aðstæðum.

Síðan gekk ég inn á bekk og gerði þar hinar ýmsu styrktaræfingar og endaði svo á því að rúlla mér yfir á magann og lyfti mér upp á olnbogana. Ég fann þá hvað styrkurinn í hnakkanum var orðinn gjörbreyttur, ég trúði því varla en ég hélt höfðinu frá bekknum svo ég þorði að láta reyna á það að prufa að lyfta mér upp á tærnar, og það tókst! Þannig að núna planka ég nánast í hverjum tíma og það gleður mig alltaf jafn mikið.

Á þessum þorrablótstíma sem febrúar er, þá var ég löngu búin að ákveða að ég myndi aldrei framar taka þátt í þessu og fara á Stútung sem er stóra þorrablótið í Önundarfirði. Mér fannst sem ég myndi bara gera lítið úr sjálfri mér ef ég mætti þangað sitjandi í hjólastól og talandi á þetta helvítis stafaspjald. En um áramótin setti ég mér áramótaheit um að hætta að vera feimin svo ég fór á Stútung og var þar á meðal hátt í 300 manns sitjandi í hjólastólnum mínum og ég blaðraði við alla þá sem þorðu að lesa af stafaspjaldinu mínu og ég fór meira segja út á dansgólfið og dansaði þar við vinkonu mína. Núna er ég svo yfir mig kjaftfull af þakklæti og svo finnst mér ég alveg mega vera stolt af sjálfri mér!

Óvæntir sigrar

Það er svo ótrúlega gaman og það eru í rauninni forréttindi að fá að búa í þannig umhverfi að mér sé tekið alveg eins og ég er og mér er meira segja tekið vel!

Fyrir þremur mánuðum þá var ég svo óörugg að ég átti í mestum vandræðum að fara út á meðal fólks því ég hélt að hver sem horfði á mig myndi pottþétt bara vera að því vegna þess að hann væri velta sér upp úr göllunum mínum og setja út á mig. En um áramótin setti ég mér markmið og skoraði á mig. Eitt var að vera meira meðal fólks og gerði ég það strax á gamlárskvöld en þá var ég á meðal fjölda fólks í blysförinni í stóra hjólastólnum mínum og með alla mína galla yljaði ég mér við brennuna og ákvað að að svona skildi nýja árið verða, þetta yrði ekki árið þar sem ég grenjaði úr mér augun rétt áður en ég færi ókunnugar aðstæður, ég gerði það bara árið 2017. Ég nýt þess svo að sigra sjálfan mig og trana mér framfyrir þessa feimnu, sígrenjandi óöruggu stelpu og helst ýta henni sem lengst í burtu, ég myndi sparka ef ég væri viss um að ég gæti gert það nógu fast. Þetta mun aldrei aftur verða einhver hluti af mér. Svo sigraði ég sjálfan mig og kom mér svo algjörlega á óvart á seinasta laugardag! Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég er glöð og ánægð með sjálfan mig og stolt af sjálfri mér. Það nennir enginn að bæði bæta og byggja mig upp svo það er eins gott að ég geri það bara sjálf!