My favorite season 

bestseller.is – HÉR

Gleðilegan sunnudag! Hér eru nokkrar hugmyndir hugmyndir af klæðnaði fyrir komandi tímabil. Hvort sem maður er að fara á tónleika með fjölskyldu eða vinum, út að borða með betri helmingnum sínum eða bara í partý þá finnast mér þessi dress tilvalin. Ég á það til að fá einhverja óútskýranlega ofsafenga löngun í föt, bæði svona fínni eins og ég sýni hér, eða þá bara kósýföt. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég þarf nausynlega að fá mér allarþessar flíkur fyrir þennan árstíma. Ég fæ þessa löngun alltaf á þessum tíma, rétt áður en jólaundirbúningurinn hefst með öllum sínum spilakvöldum, jólaboðum og veislum. Ég hlakka svo ofboðslega til!

Welcome November 

Mér finnst næstum ótrulegt að það sé kominn nóvember og það lítur svona út úti, hvergi snjór á láglendi en hvítt í fjallatoppum. Ég er samt alls ekki að kvarta, ég kemst ennþá út í göngutúra sitjandi í hjólastólnum mínum í haustsólinni sem leikur um mig og fallega fjörðinn minn.

Í nóvember ætla ég að njóta þess að vera heima, þar er nefnilega best að vera og svo ætla ég að leggja sérstaka  áherslu á allar æfingar. Fyrstu þrjár vikurnar eftir Reykjavíkurferðina þá varð ég að vera bara í teygjum en núna finn ég að ég er búin að ná kraftinum upp aftur og ég er  öll í harðsperrum eftir æfingatímana sem ég hef farið í eftir þessa teygjutörn. 

Fyrst það er kominn 1. nóvember þá byrja ég að hlusta á jólatónlist en ég bíð til 15. nóvember að suða í mömmu og pabba um að setja upp jólaljós og skreytingar, ég veit samt alveg að þau hlusta aldrei á suðið í mér fyrr en aðventan er byrjuð, en ég veit vel að við myndum öll þrjú sakna suðsins svo sárlega ef ég myndi hætta þessari hefð, ég er hreinlega ekkert viss um að jólin myndu koma ef ég myndi sleppa þessum afar mikilvæga sið (Haha!).

Vonandi var dagurinn ykkkur góður! ❤

Kosningar

 Ég má til með að deila einni sögu í tilefni kosninganna
Ég hef alla tíð talið mig vera lausa við allar pólitískar skoðanir, ég hef bara stutt ákveðna flokka ef einhver sem skiptir mig hjartans máli og ég treysti er í efstu sætunum annars skila ég auðu, á þeim tímapunkti er mín pólitíska vitund bara ekki meiri.

Fyrir ári síðan var ég á Grensás og allur minn tími fór  í að sætta mig við sjálfan mig og bæta getu mína. Það var því ekkert jafn fjarri huga mínum og stjórnmál. Það kom samt aldrei neitt annað til greina hjá mér en að ég myndi nýta mér kosningaréttinn og skila bara auðu. Ég útskýri þetta fyrir mömmu rétt áður en við höldum á kjörstað svo hún væri viss um hvað ég vildi, þar sem ég vil að hún sé mín hægri hönd í kjörklefanum fremur en nokkur annar. Þegar röðin kemur loks að okkur þá  sýnir mamma persónuskilríkið mitt og mér er vísað á kjörklefa. Þegar mamma ætlar með mér inn í klefann þá er hún stoppuð og kölluð afsíðis, þar er henni gerð grein fyrir að hún megi ekki aðstoða mig því hún gæti verið að hafa áhrif á mig. Svo verður smá havarí, leit að pappírum og þeir hringja ótal símtöl. Svo allt í einu föttum við að svo óheppilega vildi til að ég hafði gleymt stafaspjaldinu út í bíl og urðum við mamma að sækja það svo ég gæti látið mitt álit í ljós. Þegar við komum að bílnum reynir mamma að tala mig af því að kjósa mitt atkvæði ætti hvort sem er eftir að vera autt og myndi engu breyta, en þrjóskupúkinn kom upp í mér, ég ætlaði að kjósa! Þegar við komum aftur með spjaldið er mömmu gerð grein fyrir að ég eigi rétt á réttargæslumanni fatlaðra en mamma reynir að maldra í móinn og segir að ég geti tjáð mig á spjaldinu og svo geti ég mótmælt með hljóðum. Við þessar upplýsingar er spjaldið tekið af mömmu og henni vísað á dyr. Mennirnir höfðu aldrei séð stafaspjald og skildu ekkert uppbyggingu þess en mér tókst á endanum að láta þá ná sér í penna og blað sem var á borðinu og svo fékk ég þá til að skrifa niður stafina sem ég benti á. Svo gerist eitt það það furðulegasta augnablik sem ég hef lent í ég horfi á fingurinn á mér stafa:
,,Hæ ég heiti Katrín Björk Guðjónsdóttir, ég hef mjög sterkar pólitískar skoðanir og er hingað komin að styðja minn flokk.”


Þetta var svo einkennilegt það var líkast því sem einhver hafi tekið völdin af mér, því ég kunni ekki einu sinni flokksbókstafina. En þetta hafðist nú allt að lokum, þetta tók góða klukkustund og þá fékk mamma aftur að koma inn. Ég dáist svo að þessum mönnum að hafa klárað þetta, þó það hafi tekið sinn tíma þá hefðu þeir líka getað sagt bara nei! Það er ekki í boði fyrir þig að kjósa.
Í gær fór ég og kaus eftir minni upplýstu ákvörðun og hún elskulega mamma mín fór með mér í kjörklefann og merkti við þann staf sem ég hafði ákveðið að væri réttastur fyrir mig núna.