Jólasigurinn

Ég sigraðist virkilega stórt á sjálfri mér á þriðjudagskvöldið, ég fór á mína fyrstu jólatónleika síðan ég veiktist. Þá fyrstu í þrjú ár og mikið var það nú gott að gleyma sér í tónaflóðinu og þetta var svo einstaklega náttúrulegt fyrir mig. Áður en heilaáföllin fóru að ónáða mig þá var desember sá mánuður sem ég var hvað mest upptekin allt árið. Bæði var ég í prófum og svo var ég að syngja á gífurlegum fjölda af skemmtilegum jólatónleikum. Mér finnst ég hafa verið svo ólýsanlega heppin að hafa fengið að kynnast og tileinka mér tónlistargleði því hún hreinlega bjargar mér þá daga sem þetta verkefni mitt í lífinu virðist mér óyfirstíganlegt. Þá er svo gott að eiga í alvöru stað sem rekur alla svartsýni burt og boðar frekar bjartsýni, gleði og hóflega af smá vitleysu. Fyrir ári síðan kom það ekki til greina að ég færi á nokkra tónleika og leyfði fólki að sjá mig. Í dag nýt ég mín í athyglinni og ég vona yfirleitt alltaf að ég hitti sem flesta. Eins og á þriðjudagskvöldið þá hitti ég svo marga og ég naut þess svo innilega og meira að segja svo miklu meira en ég hafði þorað að vona. Þetta kvöld varð því sem draumi líkast. Þetta voru bæði stórskemmtilegir og fallegir tónleikar og síðan varð stemmingin svo létt að ég var þurrkandi tárin af hlátri. Bæði falleg og svo undur skemmtileg stund hjá Eyþóri Inga og gamla kórnum mínum, Sunnukórnum!

Það sem ég ætla að gera í desember


Loksins er desember kominn, mánuðurinn sem ég hef beðið eftir með eftirvæntingu síðan hann kláraðist í fyrra. Ég elska allt við jólin, skreytingarnar, jólaljósin, bakstur, pakka inn pökkum, hlusta á jólatónlist, horfa á jólamyndir og eiga mikilvægar stundir með fjölskyldu og vinum. Allir eiga sér einhverjar minningar sem kveikja á jólabarninu í manni. Ég held fast í alla lykt, hefðir og þá hluti sem kalla á jólin fyrir mig. Ég get ekki beðið eftir því að komast heim og þegar öll jólaljós og skreytingar eru komnar upp, ilmur af kökum leikur um allt heimilið og með jólatónlist í bakgrunni skreytum við fjölskyldan tréið, þá eru jólin komin í hjartanu mínu.

Tala meira. Ég ætla mér að tala en þá þarf ég að æfa mig ótrúlega mikið.
Undirbúa heimferð. Það er mikið sem fylgir okkur og margt sem þarf að gera áður en við komumst heim. Þá er ágætt að ég hef alltaf þurft að skipuleggja mig mjög vel og nú raða ég verkefnum niður á daga og skrifa niður allt það sem má ekki gleymast.
Ganga meira. Ég þarf að vera dugleg að standa og ganga, jafnvægið kemur hægt en örugglega, ég verð að reka mig áfram svo þetta gangi hraðar.
Fara í Blómaval og kaupa jólaskraut. Mér finnst fátt skemmtilegra en að hafa fínt í kringum mig. Ég er með eitt skraut í huga sem ég verð að fá pabba til að smíða, ég þarf þá að kaupa í það.
Jólaskreyta. Þó ég geri ekki mikið eins og er nema skipta mér að, þá finnst mér bara gaman að jólaskreyta.
Baka. Maginn minn iðar af spennu við tilhugsunina um að fá nýbakaðar hveitikökur, sörur, ameríska súkkulaðiköku og aðrar smákökur sem mamma galdrar fram.
Kaupa jólagjafir. Ég elska að gefa gjafir og á haustin byrja ég á að gera hugmyndalista með hugmyndum að gjöfum fyrir vinkonur mínar, fjölskyldu og Ásgeir, svo þegar líða fer að jólum þá verður mikið auðveldara að ákveða gjafir.
Pakka inn gjöfunum. Ég elska að gefa fallega pakka sem eru vel innpakkaðir, það er auðvitað lykilatriði!
Horfa jólamyndir, hlusta á jólallög og njóta lífsins!