Nýjir og spennandi tímar!

Ég held að vorið sé komið núna! Ég er svo spennt fyrir komandi tímum. Ég er svo mikið vor-barn, minn tími er svo sannarlega á vorin, ég nýt þess alveg til hins ítrasta að finna hvað sólin hækkar bæði á himninum og í hjartanu mínu, fylgjast með náttúrunni vakna fyrir utan gluggana og með hækkandi sólu þá brýst fram í hjarta mínu sól og einhver óviðjafnanlegur sumar spenningur.

Ég nýt mín svo vel á þessum tíma, í öllum þessum mismunandi æfingum sem ég er í og vinnandi að einu riiisa stóru verkefni sem kom bara bókstaflega upp í hendurnar á mér. Þó það sé ótrúlega svekkjandi að finna fyrir því hversu lítils ég er raunverulega megnug, hausinn minn er alltaf allavega áttatíu skrefum framar en líkamleg geta mín. Af einhverjum stórkostlegum og óútskýranlegum ástæðum hef ég kynnst svo yndislegu og algjörlega stórbrotnu fólki sem getur látið magnaða hluti gerast. Ég vil trúa því að einn daginn geti ég látið einhverja álíka hluti gerast hjá mér. En þangað til ég verð búin að finna mitt tempó á milli æfinga og vinnu þá skrifa ég minna hingað inn. Þess á milli reyni ég að sýna smá brot af mínu daglega lífi á Instagram story!

Núna um helgina hafa harðsperrurnar sem ég vann mér inn á föstudaginn bara að líða úr mér á meðan ég er að vinna og njóta tímans með yndislega fólkinu mínu. Þegar ég var tvítug og spurð að því ,,Hvar sérðu þig eftir fimm ár?” Þá hefði ég aldrei nokkurn tímann getað svarað því neitt nálægt því eða nokkuð í líkingu við það sem lífið svo bar mig. Nú er ég 25 ára, ég er svo heppin að ég fæ en þá að búa á æskuheimili mínu, annar fóturinn á mér er samt fyrir sunnan og ég vinn við það skemmtilegasta sem ég geri! Ég verð bara meyr af gleði og þakklæti. Þó mig skorti allann vöðvakraft sem nýtist mér til að bæði tala og ganga án hjálpar frá einhverjum öðrum. Þá leikur lífið bókstaflega um mig og við mig, ég fer ekki af því ég held ég sé í hópi þeirra allra lánsömustu.

Eigið góða viku! 🙂

Litlu sigrarnir í mars

Ef einhver hefði spurt mig þegar ég var lítil stelpa ,,hvað ætlar þú þér að verða þegar þú verður stór?” Þá hugsa ég að mitt svar hefði verið eitthvað á þessa leið ,,ég ætla að verða hjúkrunarkona alla virka daga sem yrði svo að leikkonu á kvöldin og söngkonu um helgar. Það má segja að draumar mínir hafi gjörsamlega hrunið niður og raunveruleikinn hafi elt mig uppi og fellt mig, hlegið að mér og síðan hafi hann rotað mig. Núna er ég að ranka við mér, hugsanirnar eru að verða skýrar og nú eru draumar mínir og þrár orðnar einhverjar allt aðrar og nú þrái ég ekkert heitar en að verða bara flott og stolt fyrirmynd fyrir hvern þann sem sér eitthvað uppbyggilegt í því sem ég geri, þar af leiðandi reyni ég að leggja mig virkilega mikið fram og vanda mig í öllu sem ég geri. Ég er svo ótrúlega heppin og stend alveg föst á því að það sé í rauninni ekkert sem ég mun aldrei geta, ef ég hef áhuga eða viljann og þrána til að komast eða ná einhvert þá muni mér á endanum takast það. Ég ætla mér að komast talandi og á fætur aftur og ná að klifra á toppinn mér er alveg sama hvaða toppur það verður og tíminn sem það mun taka mig skiptir mig engu máli.

Ég missti allann vöðvakraft yfir öllum líkama mínu, ég var sérstaklega lengi að ná stjórn á vinstra auganu mínu aftur. Fyrst lá það bara til hliðar en eftir því sem vikurnar liðu þá náði það að verða útlitslega rétt en sjónsviðið var mjög skert og ég var með tvísýni. Í dag er ég hætt að sjá óskýrt og tvöfalt. Ég fæ bæði höfuðverk og ógleði þegar ég set upp prisma gleraugun. Það voru gleraugu sem ég fékk til að sporna við tvísýninni, ég virkilega trúði því svo innilega að ég myndi aldrei nokkurn tíma losna við þau. Núna á ég þau bara til að minna mig á og þau öskra það bókstaflega á mig að það er í raun og veru ekkert sem ég mun aldrei geta.

Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

Í tilefni af 6. mars sem er Evrópudagur talþjálfunnar hef ég ákveðið að gera það sem ég lofaði sjálfri mér að ég myndi aldrei nokkurn tíma gera en það er að skrifa hér alla mína sögu sem viðkemur talmeinafræðingum. Ég er 24 ára gömul stelpa sem missti allan vöðvakraft vegna heilaáfalla og er því ótalandi, en á sama tíma er hugsun mín heil og ég er svo heppin að vegna kynna minna við talmeinafræðinga þá verður hversdagslegt líf mitt eins venjulegt og skemmtilegt og það getur orðið.

Ég var 22 ára þegar ég vaknaði rúmlega sólarhring of seint eftir heilablæðingu og heilaskurðaðgerð sem varð að framkvæma til að ég ætti einhvern möguleika á að halda þessu hverfula en á sama tíma óviðjafnanlega skemmtilega lífi áfram.

Ég var 22 ára þegar einu vöðvarnir sem hreyfðust voru hægra augnlokið og hinn sterki og stabíli hjartavöðvi. En ég man allt, ég man þegar mamma sagði mér hvað hefði átt sér stað, og ég man eftir öllum læknunum og hjúkrunarfræðingunum, hjúkrunarfræðinemunum og sjúkraliðunum, öllum sem björguðu lífi mínu nánast á hverjum degi og stundum oft á dag fyrstu þrjá mánuðina. Svo lá ég á sjúkrahúsi næstu ellefu mánuðina.

Ég man svo ótrúlega vel eftir þeim mikla gleðidegi þegar það kom til mín einn fær talmeinafræðingur og færði mér röddina mína aftur þótt hún hefði engan hljóm og ég ætti engan vöðvakraft til að mynda öll orðin sem höfðu bara búið innra með mér síðustu sex vikurnar. Ég man svo vel þegar talmeinafræðingurinn sýndi mér spjaldið og spurði mig svo: ,,Á hvaða staf byrjar nafnið þitt?” Ég horfði þá bara tvisvar á rauða hópinn því það þýddi K. Svo spurði hún mig ,,Hver stendur hér við hliðina á mér?” Og þá horfði ég fyrst á brúna hópinn og svo á rauða hópinn, því Á er rauður stafur í brúna hópnum, og þannig stafaði ég ÁSGEIR en Ásgeir stóð við hliðina á henni brosandi því alstærsta brosi sem ég hef séð nokkurn mann skarta! Síðan leyfði hún Ásgeiri að halda á spjaldinu og hún spurði mig ,,Til hvaða lands fórstu seinast í frí?” Talmeinafræðingurinn kenndi Ásgeiri að lesa af spjaldinu þegar ég stafaði með augunum GRIKKLAND. Það var svo gaman að koma mömmu minni, tengdamömmu og Ásgeiri á óvart þegar Ásgeir var að kenna þeim á spjaldið og ég stafaði ,,ÉG ER MEÐ HEILA HUGSUN OG ÉG HLAKKA SVO TIL ÞEGAR ÁSTHILDUR OG SÓLVEIG VERÐA KOMNAR”. Frá og með þessum orðum vissu þau að ég hafði alltaf verið með þeim og ég skildi allt.

Ég mun aldrei gleyma þessum degi. Þarna gat ég bara hreyft augun og látið fólk skilja já- og nei-in mín með því að ég blikkaði einu sinni fyrir já og tvisvar fyrir nei, en seinna gat ég líka hrist höfuðið ef ég vildi segja nei og kinkað kolli fyrir já. Lungun mín voru líka alveg að fara að vakna og ég gat andað með aðstoð súrefnis.

Það getur enginn ímyndað sér hvaða frelsisgjöf þetta var. Ég gat stafað með augunum fyrir hvern þann sem hafði áhuga á því að lesa af spjaldinu. Ásgeir og mamma áttu samt auðveldast með að lesa af spjaldinu, þau lesa hug minn líkt og hann sé þeim opin bók.

Við að fá þessa miklu gjöf sem spjaldið var mér þó að þetta séu bara hljómlausir stafir þá urðu þeir röddin mín og hún tjáir alveg jafnt eftirvæntingu, gleði, sorg og reiði rétt eins og hljómmikla röddin mín gerði fyrir þremur árum. Með tilkomu þessa spjalds fékk ég loksins aftur hina langþráðu stjórn yfir sjálfri mér. Ég fékk stjórnina yfir lyfjunum mínum, ég gat tjáð ást mína eða hatur, gat aftur stjórnað fatavali mínu, ég gat loksins aftur tjáð tilfinningar mínar, tekið þátt í umræðum og staðið fast á mínum skoðunum. Með augunum stafaði ég ljóð sem ég hafði samið þessar erfiðu vikur sem ég lá á gjörgæslunni, einnig stafaði ég með augunum kveðju sem systir mín las á styrktartónleikunum sem voru haldnir fyrir mig.

Ég stafaði með augunum í marga mánuði en svo vaknaði vinstri höndin og í dag (tveimur árum seinna) þá stafa ég með því að benda á stafinn. Þetta er orðið mikið einfaldara fyrir mig en þetta var. Ég lendi samt reglulega í fólki sem kann ekki að eiga samskipti við mig og þá forðar það sér fljótt og leyfir mér ekkert að tala. Ég hef farið til margra lækna sem hvorki líta á mig né tala við mig, þeir bara tala við aðilann sem kom með, svo ég ætti auðveldara með að stafa. En núna þá reyni ég alltaf að byrja á því að stafa ,,Hæ ég heiti Katrín Björk, mér þykir mjög gaman að kynnast þér og þótt ég tjái mig á þennan hátt þá þætti mér afar vænt um ef þú gætir talað við mig.”

Ég er tvisvar í viku í talþjálfun hjá Tröppu þar sem ég er í fjarþjálfun og í gegnum tölvuna á ég alveg ómetanleg samskipti við talmeinafræðinginn minn. Það er svo stórkostlegt að finna vöðvana vakna og fylgjast með þeim styrkjast. Mér finnst ég vera svo heppin að fá að njóta fjarþjálfunar hjá Kara connect sem gerir það mögulegt fyrir mig að ég geti búið með fjölskyldu minni hérna fyrir vestan og ég fái vikuleg samskipti við talmeinafræðing. Í framtíðinni þá sé ég fyrir mér að þetta spjald verði bara upp á vegg í ramma og ég labbandi og talandi svo allir geta skilið mig og allt hafi það verið þessum dásamlegu þjálfurum að þakka!