Litlu sigrar seinustu missera

Það er svo ótrúlega skrítið þegar tilveran fer svona á hvolf eins og síðustu tæplega tvö ár hafa liðið þá er til fólk sem mislíkar það ekki svo sárt. Mér líður sjálfri stundum líkt og að þegar hægist svona skyndilega á tilveru fólks í kringum mig þá hafi ég betra tækifæri en áður til þess að vera í svipuðu tempói og það með mína tilveru. Allt í einu er ég ekki sú eina sem er svona hikandi við að grípa þau tækifæri sem mér bjóðast. Ég finn líka að svo margir standa núna í þeim sporum, sem ég þekki svo vel, að þurfa að vega og meta hvort hlutirnir séu áhættunnar virði og að velja og hafna í samræmi við sífellt nýjar og óvæntar aðstæður.

Takk Covid fyrir að sýna mér þessa nýju tilveru. Við göngum aldrei að neinu vísu í þessu lífi og þessar aðstæður sem við höfum búið við saman í tæplega tvö ár hafa gefið okkur tækifæri til þess að skoða hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað það er sem við viljum leggja rækt við. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og kannski er stundum svolítið gott að fá að vita hvað maður á og hvað maður er heppinn að eiga það.

Á þessum tæpum tveimur árum höfum við mamma og pabbi verið að mestu leyti ein í húsinu okkar á Flateyri og ekki mislíkað það svo mjög. Fyrir nákvæmlega tveimur árum þá var þrá mín til að flytja orðin gífurleg. Mér fannst ég vera að missa af svo mörgu, vinkonurnar flestar í Reykjavík og svo margt sem mér fannst ég þurfa að sjá og gera.  En Covid tók allar þessar þrár í burtu frá mér og sýndi mér aftur kostina við að búa á svona litlum stað þar sem það er í lagi að eiga sinn hóp í kringum sig og fá hann í heimsókn til sín. 

Í október í fyrra fékk ég hjólið mitt og hef síðan þá getað hjólað frá mér allt eirðarleysi. Stærsti sigurinn sem ég hef unnið á þessum tíma er samt sá að ég gaf iðjuþjálfun annan séns og það varð að verkefni sem finnskur nemandi í iðjuþjálfun er að vinna að. Hægri höndin, sem alltaf hefur verið kreppt og einskis nýt, opnaðist loksins og ég get núna hrafnasparkað nafnið mitt á blað. Ég fór líka að mála með alkóhólbleki og ég sver að skynjun mín í vinstri höndinni er betri.

Það er gott að finna kraftinn koma aftur í líkamann og að skynja hvernig hann eykst dag frá degi. 

Eftir gullfallega þáttinn í þáttaröðinni Dagur í lífi sem var sýndur þann 5. desember hef ég fengið sendar svo ótal margar fallegar kveðjur. Mér þykir ofboðslega vænt um þær allar. Ég hef ekki enn komist í það að svara öllum skilaboðunum sem ég hef fengið en einhverntímann mun það takast. Ég er allavega ótrúlega þakklát fyrir þessi góðu og hvetjandi viðbrögð sem þátturinn hefur fengið.

Ég hlakka til að takast á við öll þau verkefni sem munu koma með líðandi tímum og ætla að halda áfram að leggja mig fram.

Jóla- og nýárs- kveðjur frá mér til ykkar!

Lærdómsríkur hjólatúr

Ég hef aldrei notið þess að fara hratt um. En þegar það er tekið frá manni þá saknar maður þess að hafa valið.

Þegar ég fékk hjólið mitt þá gafst mér loksins tækifæri til þess að fara frjáls ferða minna á eyrinni. Ég þurfti að læra á hjólið og fór því mjög hægt í fyrstu en smám saman jukust möguleikar mínir á að stilla það sjálf hversu hratt ég færi um. Þetta skyndilega val varð mér bæði framandi og spennandi. Ég er samt svo varkár að eðlisfari að ég var ekkert að drífa gírana upp. Í mestallt sumar fór ég ekki hærra en í þriðja gír. Þá var ég ekkert að þeysast langt fram úr þeim sem komu gangandi með mér. Í lok sumars fór þessi fjandans þriðji gír að vera svolítið leiðigjarn að mínu mati. Ég fór út að hjóla með systur minni, sem er miklu meiri glanni en ég. Þá fóru gírarnir upp og ég endaði í fimmta gír í þeirri ferð. Við fórum út á hlíð í það skipti og ég fékk að finna fyrir örlítilli golu leika um hárið mitt á meðan ég hjólaði og ég fann líka hvernig ég svitnaði við áreynsluna. Brosið sem það vakti og allar góðu minningarnar sem rifjuðust upp við að hjóla einmitt á þessum stað og að finna nákvæmlega sömu tilfinningar í líkamanum og þegar ég hljóp einmitt þarna sjö árum fyrr. Eftir þennan hjólatúr hef ég verið vitlaus í að fá að fara ein út að hjóla og finna fyrir endorfíni streyma um æðarnar.

Á laugardaginn var mamma næstum búin að segja já við þeirri bón en hún hætti svo við á síðustu stundum og kom hjólandi á eftir mér. Ég varð þá frekar fúl, setti hjólið í hæsta mögulega gírinn og ákvað að láta eins og hún væri ekki með mér. Ég fór í torfærur hjá varnargörðunum og hélt svo niður Hjallaveginn á fullu spani og var fljótlega komin niður á Hafnarstrætið. Þá fann ég svo vel hvernig vindurinn lék um hárið á mér svo ég gaf ennþá meira í og fann endorfínið þá streyma svo um mig að ég var næstum búin að gleyma að ég væri ekki alveg sátt við mömmu. Í huganum var ég farin að syngja lög af gamla hlaupa lagalistanum mínum og þegar ég var komin að viðlaginu í ,,Run fast for your mother” þá var ég komin að gatnamótum Hafnarstrætis og Öldugötunnar. Þá fannst mér óhugsandi að þurfa að hægja á mér og beygja inn Öldugötuna til að finna skáa af þessari háu gangstétt. Ég ákvað þá við undirspil trommuleiksins í millikaflanum að taka sénsinn og láta mig fljúga út af háu gangstéttarbrúninni. Ég var á þríhjóli svo að ég var ekkert hrædd um að detta. Mamma var sem betur fer ekki langt undan þegar hún sá mig hendast í loftköstum á hjólinu út á miðja götu og byrja í loftinu að steypast til vinstri. Sem betur fer er öryggisbelti á hjólinu mínu því að annars hefði þetta farið mikið verr. En djöfull var ég pirruð út í þessi helvítis belti þegar ég var loksins lent og gat þá ekki komið mér á fætur, rétt hjólið við og látið eins og ekkert hefði í skorist. Mamma sá í hvað stefndi og gaf þá allt í botn á sínu hjóli til þess að reyna að afstýra fallinu. Það fór þó ekki betur en svo að mamma brotlenti á hjólinu mínu þegar hún reyndi að ýta því til og datt sjálf kylliflöt á götuna. Næstu mínúturnar brölti mamma um og reyndi að reisa bæði mig og níðþungt hjólið við til þess að koma okkur af götunni. Ég hef aldrei þakkað jafn einlæglega fyrir það hvað umferðin er lítil á Flateyri. Mömmu brá svo við byltuna að við urðum ekki aftur vinkonur næstu klukkutímana. Ég varð bara þögla hlýðna stúlkan og mamma varð brjálaða mamman. Allt út af ást. Og einmitt vegna ástar þá má ég sem betur fer ekki fara ein út að hjóla næstu vikurnar.

Mig hefði aldrei grunað að einn hjólatúr gæti kennt mér svona margt. Nú veit ég að ég á ekki að fara þessa leið ef ég vil fara glannalega um. Eins ætla ég aldrei að óska þess að losna við mömmu. Ég fann hvað það er gott og mikilvægt að fá að læra af reynslunni. Það var líka undarlega hressandi að fá marblett og sár á hnéð og að finna aftur að það er hluti af lífinu að gera mistök og jafnvel meiða sig og læra þá af misstökunum. Ég finn að þarna er möguleiki fyrir mig til þess að takast á við nýjar áskoranir með öðru hugarfari en áður. Það er mikilvægast af öllu að fá að taka ákvarðanir sjálf, en vera ekki alltaf skjólstæðingur sem allir skýla og verja og taka ákvarðanir fyrir. Sem betur fer urðu meiðslin sem hlutust af þessari byltu ekki meiri en einn marblettur og ein skráma. Ég lærði þó mikið meira á sjálfa mig.

Til hamingju með lífið! / Sky is the limit!

MEÐ VINDINN Í BAKIÐ

Eftir að hafa legið bjargarlaus í sjúkrarúmi og ekki getað náð sambandi við nokkra manneskju en þó með heila hugsun allan tímann sem ég gat ekki tjáð þá hefur hugurinn þroskast og sýn mín á lífið breyst. Ég finn núna hvað litlu hlutirnir skipta miklu máli. Veröldin smækkar þegar maður er hverja stund við dauðans dyr. Hver einasta stund verður svo dýrmæt og hver andardráttur skiptir svo miklu meira máli en fréttir dagsins.

//

Lífið varð eins og dýrgripur sem ég þurfti að halda fast í svo ég myndi ekki missa hann. Ég lærði að kunna að meta hvert það skipti sem ég fékk að vakna, sjá litbrigði náttúrunnar og hlusta á hversdaginn ganga sinn vanagang. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessu lífi með öllum þeim tækifærum sem það færir manni, sigrum jafnt sem ósigrum. 

Síðan í haust hef ég fengið að njóta lífsins á minn hátt. Þá keypti ég mér hjól og get í kjölfarið í fyrsta sinn síðan ég veiktist farið ein út í náttúruna og notið lífsins á mínum hraða og forsendum. Það er bara ég sem stjórna því hvert ég fer og á hvaða hraða ég er. Þetta er svo ólíkt því að vera keyrð um í hjólastól úti. Þá verður mér alltaf svo kalt og á erfitt með að vera í samskiptum við fólkið sem er með mér. Ég elska að fá að vera á hjólinu,  hvort sem það er ein með hugsunum mínum eða með öðru fólki.  Alveg eins og þegar ég fór í hlaupatúrana mína áður en ég veiktist þá kvikna oft bestu hugmyndirnar mínar þegar ég er búin að reyna á mig og er orðin sveitt ein á hjólinu. Þó að fyrstu skiptin á hjólinu hafi ég verið mjög óörugg þóttist ég vera öryggið uppmálað. Innst inni var ég þó skíthrædd og alltaf að pæla í því hvar ég væri staðsett á götunni eða gangstéttinni. Í dag er ég orðin miklu öruggari og stundum líður mér eins og kærulausu fífli á vegum úti. Það er mjög hressandi tilfinning. 

Það eru svo mikil forréttindi að fá að sjá náttúruna vakna eftir veturinn og vera hluti af henni. Það er svo magnað að sjá heiminn opnast beint fyrir framan augun á sér og finna fyrir árstíðaskiptunum og veðrabrigðunum. Að sjá trén laufgast og grasið grænka, að vera köld og blaut úti í rigningu og vindi eða svitna og finna fyrir hitanum í sólskini. Það er ekkert sem getur toppað það! Ég nýt þess að hjóla með vindinn í bakið og ber höfuðið hátt með alla mína lífsreynslu.

Photos: Ásgeir Helgi Þrastarson at Gústi Productions

WITH THE WIND AT YOUR BACK

After laying helpless in a hospital bed, unable to reach out to the people around me, being of a sound mind with no way to express myself. It matured me and my outlook on life has changed. I can now understand how important the little things are. The world becomes smaller when each moment is lived on the brink of death. Each second becomes so precious and each breath means so much more than what is going on in todays news.

Life suddenly felt like a prized possession that I had to hold on to as tight as I could so I wouldn‘t loose it. I learned to appreciate each time I got to wake up, see the colors of nature and listen to everyday life go on around me. I am endlessly thankful to get to be a part of this life with all its opportunities, victories and ups and downs.

Since last fall I have gotten to enjoy life in my own way. I bought myself a bike which means that now, for the first time since I got sick, I can go alone out to nature and enjoy life on my own pace and my own terms. I control where I go and how fast I go. It‘s nothing like being pushed around in a wheelchair outside. I always get so cold and have difficulties communicating with the people around me. I love being on the bike, whether it‘s by myself or with other people. And just as I used to get all my best ideas while out jogging before I got sick, now I get them when I‘m sweating, alone on the bike. I remember being insecure when I first started riding the bike. I faked confidence for those around me but inside I was struggling. Afraid where I was positioned on the streets or the sidewalk. Today I‘m much more confident and sometimes I feel like a careless fool out on the streets. It‘s a very refreshing feeling.

I feel so privileged getting to see nature waking up after winter and being a part of it. It‘s amazing to see the world open right before your eyes and feel the seasons changing with the changing weather. Seeing the trees flaunt new leaves and the grass getting greener. Being cold and wet out in the rain and wind or sweating in the heat of the sun. Nothing will top these feelings! I enjoy riding my bike with the wind at my back and my head held high inspite of everything life has thrown at me.

Photos: Ásgeir Helgi Þrastarson at Gústi Productions