Litla land

Litla land, höfundur: Gaël Faye

Mér finnst þessi saga vera átakanleg, falleg, spennandi og áhrifamikil! Á þessum fordæmalausu tímum finnst mér það hljóma frekar kærkomið að vera í áskrift hjá bókaforlaginu Angústura og fá þessa dásemd senda beint upp að dyrunum heima hjá sér! Þessi bók hreyf mig alveg frá upphafi og til enda. Hún segir frá áhyggjulausu lífi 10 ára stráks í Afríkuríkinu Búrúndí. Vinirnir og þeirra uppátæki er það sem lífið snýst um þangað til borgarastríð skellur á og allt breytist. Mér finnst ótrúlega merkileg áhrifin sem þessi saga hafði á mig. Um leið og hún er saga um vináttu og sakleysi æskunnar þá er hún líka átakanlegur vitnisburður um þau eyðandi áhrif sem stríð og ofbeldi hafa á líf og samfélög manna. Þessi bók fær mín meðmæli!

,,Litla land er fyrsta skáldsaga tónlistarmannsins Gaëls Faye (f. 1982) og endurspeglar uppvöxt hans í Búrúndí. Bókin sló í gegn þegar hún kom út í Frakklandi árið 2016, hefur selst þar í yfir 800 þúsund eintökum, hlotið viðurkenningar og verðlaun og verið þýdd á 30 tungumál. Einstök saga sem nú hefur verið kvikmynduð.“ – angustura.is