Litlu sigrarnir í nóvember

Í nóvember eru tvö ár síðan ég vaknaði upp í mína verstu martröð, ég vaknaði á laugardagsmorgni heima hjá mér í Vesturbænum, níu dögum eftir að ég fékk mína fyrstu heilablæðingu, ég var að fara að hitta vinkonur mínar. Þegar ég reyndi að fara fram úr þá gat ég ekki hreyft hægri hluta líkama míns, í þetta sinn hafði ég fengið blóðtappa. Næstu sjö mánuði var líf mitt sveipað kvíðaþoku og ég var svo ótrúlega reið og hrædd við gjörsamlega allt lífið og allt sem lífið hafði upp á að bjóða. Út á við setti ég upp fake andlit, það mátti engann gruna að mér liði svona ógeðslega, ég náði engum svefni því annað hvort var ég svo kvíðin að ég grét alla nóttina eða ég vaknaði upp með martraðir, ég man enn eftir sigur tilfinningunni sem ég fylltist þegar ég náði í fyrsta sinn að komast fram að nóttu til án þess að vekja nokkurn þá fann ég stað þar sem ég gat ég grenjað og verið reið í friði. Við seinni blæðinguna, sem var miklu stærri og hún hefti mig meira líkamlega, en þá losaði hún mig úr þessum myrkraböndum. Það hafa margir sagt að ég sé fangi í eigin líkama núna, því ég tala nánast óskiljanlega og sé ekki með neitt jafnvægi þegar ég stend og geti því ekki gengið án stuðnings. En mér líður alls ekki sem ég sé einhver fangi núna, þó orðin séu óskýr þá hef ég mikla rödd og ég get skrifað. Í þessa sjö mánuði sem ég sá ekki skýrt vegna kvíðans og hræðslunar við lífið, þá var ég fangi. Þessi eilífi feluleikur og ég reyndi að blekkja hvern þann sem hélt að ekki væri allt í himnalagi hjá mér. Ég kveið alltaf morgundeginum sama hvaða rökréttu hugsanir ég reyndi að hugsa. Í sjö mánuði lifði ég full ótta, kvíða og stressi fyrir því sem framundan væri. Þegar ég vaknaði eftir seinni blæðinguna þá áttaði ég mig á því að þetta yrði að hætta, ég ætlaði hér eftir að njóta alls hins besta sem lífið hefur uppá að bjóða. Ég hugsa bara að allir þurfa að takast á við erfiðleika. Ég myndi ekki vilja skipta á mínu verkefni við einhvern annan. Ég óska engum að takast á við svona stórt verkefni. Ég er sannfærð um að ég sé heppnasta manneskja í heiminum nú hefur lífið mitt komist á botninn og þá er bara ein leið í boði og það er upp og ég ætla mér að komast á toppinn!Að stjórna huganum

Ég fann að eftir því sem leið á nóvember þá helltist yfir mig depurð og stress, ég varð hrædd við dagsetningarnar sem áföllin komu á og þá ofbauð ég sjálfri mér. Eftir nokkur tár þá fór ég út með mömmu og við horfðum á Esjuna með fallegri snjóföl, þannig að hún leit út eins og blýantsteikning á hvítu blaði þá áttaði ég mig á því að ég ætla mér að njóta alls hins góða sem lífið hefur upp á að bjóða núna en ekki vera að spóla fram og til baka í hugsunum hvernig lifið væri núna ef,,,ef,,,ef ekkert hefði komið fyrir, -ef – er leiðindar orð sem oft má sleppa. Núna hlusta ég á jólalög og er alveg sama hvaða dagur er. Ég nýt þess að horfa á birtuna endurkastast í klakabundinni tjörninni eða rauðglóandi vesturhiminn.

Sést smá í magavöðvana

Þessi punktur er bara fyrir sjálfið, því ef ég endurheimti sýnilegu magavöðvana, af hverju ætti ég þá ekki að geta endurheimt allt hitt líka.

Ég hef alltaf haft mjög sterka magavöðva og ég hef alltaf getað séð þá, gleðin var því ósvikin þegar tveir efstu vöðvarnir létu smá glitta í sig. Ég finn líka svo mikinn mun hvað allar hreyfingar verða mikið léttari þegar maður hefur sterkann bol.

Leave a Reply