Litlu sigrarnir í mars

Ef einhver hefði spurt mig þegar ég var lítil stelpa ,,hvað ætlar þú þér að verða þegar þú verður stór?” Þá hugsa ég að mitt svar hefði verið eitthvað á þessa leið ,,ég ætla að verða hjúkrunarkona alla virka daga sem yrði svo að leikkonu á kvöldin og söngkonu um helgar. Það má segja að draumar mínir hafi gjörsamlega hrunið niður og raunveruleikinn hafi elt mig uppi og fellt mig, hlegið að mér og síðan hafi hann rotað mig. Núna er ég að ranka við mér, hugsanirnar eru að verða skýrar og nú eru draumar mínir og þrár orðnar einhverjar allt aðrar og nú þrái ég ekkert heitar en að verða bara flott og stolt fyrirmynd fyrir hvern þann sem sér eitthvað uppbyggilegt í því sem ég geri, þar af leiðandi reyni ég að leggja mig virkilega mikið fram og vanda mig í öllu sem ég geri. Ég er svo ótrúlega heppin og stend alveg föst á því að það sé í rauninni ekkert sem ég mun aldrei geta, ef ég hef áhuga eða viljann og þrána til að komast eða ná einhvert þá muni mér á endanum takast það. Ég ætla mér að komast talandi og á fætur aftur og ná að klifra á toppinn mér er alveg sama hvaða toppur það verður og tíminn sem það mun taka mig skiptir mig engu máli.

Ég missti allann vöðvakraft yfir öllum líkama mínu, ég var sérstaklega lengi að ná stjórn á vinstra auganu mínu aftur. Fyrst lá það bara til hliðar en eftir því sem vikurnar liðu þá náði það að verða útlitslega rétt en sjónsviðið var mjög skert og ég var með tvísýni. Í dag er ég hætt að sjá óskýrt og tvöfalt. Ég fæ bæði höfuðverk og ógleði þegar ég set upp prisma gleraugun. Það voru gleraugu sem ég fékk til að sporna við tvísýninni, ég virkilega trúði því svo innilega að ég myndi aldrei nokkurn tíma losna við þau. Núna á ég þau bara til að minna mig á og þau öskra það bókstaflega á mig að það er í raun og veru ekkert sem ég mun aldrei geta.

Það sem ég ætla að gera í febrúar

Ég bíð febrúar svo hjartanlega velkominn! Ég er svo bjartsýn á að þegar þessi töfrandi vetrarmánuður skrýðir sinn sess og á sama tíma muni hann hrinda af stað einhverjum alveg hreint mögnuðum hlutum. Mér finnst svo margir vera að tala um að þeir séu eitthvað svo neikvæðir fyrir febrúar en ef það væri þannig hjá mér þá fyndist mér alveg tilvalið að nýta einmitt þennan mánuð til að byrja að skipuleggja sumarfríið eða einhverja aðra atburði sem vekja hjá manni eftirvæntingu og tilhlökkun. Fyrir mig dugar að gera svona lista sem er með tíu hlutum sem ég annað hvort hlakkar til að gera eða það verður gott að klára að gera þá.

Í febrúar þá ætla ég að…

Lesa fjórar bækur! Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með lesa en aldrei gert það af neinu viti en ég setti mér áramótaheit um að breyta því og í janúar kláraði ég fjórar bækur svo í febrúar ætla ég að gera slíkt hið sama.

Æfa eftir skipulagi og búa til æfingaplön fyrir hvern æfingatíma! Ef ég ákveð ekki fyrirfram hvað ég ætla að gera þá enda ég bara á því að gera endurtekningu á sömu æfingunum. Ég ætla að skipuleggja mig með þjálfurunum mínum og kortleggja framhaldið.

Í febrúar ætla ég að borða oftar! Í febrúar ætla ég að bæta mig í þessu. Við stóru blæðinguna þá misstu allir vöðvarnir mínir kraft og þá varð það mér nánast ógerlegt að borða. En í febrúar geta gerst undur og stórmerki ég æfi mig á hverjum degi og trúi á að þetta lagist.

Finna hið fullkomna samband milli mikillar vinnu og bara lifa! Það má segja að hið fullkomna samband á milli mikillar vinnu og njóta lífsins sé vandfundið. Dagarnir mínir líða svo oft annað hvort pakkaðir í vinnu eða enda bara allir í leti. Þannig að janúar fór eiginlega allur í að reyna að finna hentugt dagskipulag og sníða það svo að mér og því sem dagarnir bjóða upp á. Þannig að febrúar á að fara í að gera það að rútínu.

Í febrúar ætla ég að skora á mig! Og gera eitthvað sem ég hef ekki þorað að gera síðan ég veiktist!

Klæða mig í spelkur sex daga vikunnar! Mér finnst nauðsynlegt að setja þetta sem markmið, þá geng á milli staða.

Horfa á myndina “The Glass Castle! Ég las bókina í janúar og ég heillaðist svo af sögunni að það tók mig tvo daga að klára hana. Mér finnst þessi saga svo áhugaverð, skemmtileg og vel skrifuð því þetta er að mörgu leiti virkilega erfitt líf en mér finnst hún vera skrifuð af svo aðdáunarverði virðingu sem geri bókina að góðri lesningu og ég er forvitin að sjá hvernig sagan skilar sér sem bíómynd.

Halda áfram að setja mér fyrir verkefni! Á morgnanna þykir mér alveg upplagt að setja mér fyrir eitt til þrjú verkefni þá verður mikið meira úr deginum.

Í febrúar ætla ég að teygja vel! Ég ætla að vera sérstaklega dugleg og leggja virkilega mikla áherslu á allar teygjur þennan mánuðinn. Það er virkilega nauðsynlegt fyrir bæði stoltið mitt og ekki síður líkama minn að vera vel teygð.

Í Febrúar ætla ég að njóta lífsins alveg sérstaklega mikið. Ég ætla að njóta hverrar líðandi stundar, sama hvort sem ég sé bara ein eða með Ásgeiri, fjölskyldunni minni eða vinum.

Litlu sigrarnir í Janúar

Frá því ég var lítil hef ég alltaf getað verið ákaflega ánægð og stolt af sjálfri mér. Við þessi þrjú áföll óttaðist ég að þessi eiginleiki sem skiptir mig svo afar miklu máli hefði horfið og myndi örugglega aldrei sýna sig aftur í mínum karakter. Ég stóð mig jafnvel að því að vera að hugsa hugsanir í þessum dúr; hver getur svo sem verið ánægður og stoltur af sjálfum sér og verið svona bæklaður eins og ég er enn sem komið er. Ég hef ekki einu sinni örlitla stjórn yfir þeim vöðvum sem ég hafði áður en ég veiktist en samt er ég yfirleitt alltaf svona glöð. Ég trúi því statt og stöðugt að ég sé heppnasta manneskja sem til er í þessum heimi. Mér finnst að öllum eigi að finnast það um sjálfan sig, ,,af hverju segir þú það” er eflaust svarið sem ég fengi og ég svara því ,,AF ÞVÍ AÐ ÞÚ ERT ÞÚ!” Frá því vöðvarnir í andlitinu fóru að svara mér þá hef ég reynt að muna eftir því á hverjum morgni að brosa og hugsa ,,Vá hvað ég er heppin!” Að eiga dag sem er svo stútfullur af tækifærum er svolítið annað en þegar ég lá á gjörgæslunni, þar vaknaði ég bara og ég gat ekki brosað en ég ímyndaði mér að ég gæti kallað fram bros og sagði við sjálfan mig ,,í dag ætla ég mér að halda fast í lífið”, þó það hafi oft staðið tæpt þá hafa verkefnin mín yfir daginn bara aukist og í dag hugsa ég oft bara ,,Í dag ætla ég mér að gera mitt allra besta!” Ég trúi því að með rétta hugarfarinu og með gleðina að vopni komist ég lengra!

Hreyfa öklana

Það er eiginlega fáránlega stutt ssíðan þeir hreyfðust ekki og þó þeir hlýða mér núna þá veit ég að það eru margir sigrar sem ég á eftir að sigra þangað til ég verð ánægð. Næsta ökla markmið er að ég þarf verulega að bæta stöðugleikann í kringum öklana. Ef þið eruð með mig á instagram (@katrinbjorkgudjons) þá sýni ég það oft þar í story það sem betur má fara.

Ég get farið ofan í baðkar!!

Þið getið ekki ímyndað ykkur gleðina sem það veitir mér að loksins eftir rúmlega tvö og hálft ár hafi ÉG loksins í alvöru möguleika á því að sjóða mig ofan í brennandi heitu baði!