Litlu sigrarnir

 

 

Frá því ég loksins vaknaði eftir blæðinguna og aðgerðina þá man ég allt, ég man þegar mamma sagði mér hvað ég hefði gengið í gegnum og ég man eftir rónni og þakklætinu sem ég fylltist þegar hún sagði mér frá þessu, ég varð samstundis svo þakklát að ég skildi hafa lifað þetta af. Ég varð ekki fúl eða reið yfir því að geta bókstaflega ekkert og sú reiði mun aldrei koma. Fyrst einhver varð að lenda í þessu þá er mikið betra að það hafi verið ég en einhver annar, fyrir það fyrsta þá er ég svo heppin að persónuleikinn minn er jafn sterkur og stapíll og fjöllin sem standa af sér öll vonsku veður, ég var slegin niður en ég mun reisa mig við og þá ætla ég mér að vera við öllu varin. Því lífsgleðin og nautnin við að njóta hvers augnabliks og gleðin eru mín vopn og þau munu vera það eins lengi og ég lifi. Á meðan ég reisi mig við þá er ég umvafin því albesta fólki sem fyrirfinnst á þessari jörðu, unnusti minn, stóra ástin í mínu lífi umvefur mig allri þeirri ást og hamingju sem ég þarf á að halda á sama tíma ofdekrar hann mig og er hann mér sá allra besti og skemmtilegasti félagi sem ég gæti látið mig dreyma um að eiga. Fjölskylda mín öll stendur við bakið á mér þá sérstaklega mamma mín og pabbi, systur mínar og yndislegu fjölskyldur þeirra, tengdafjölskylda og vinir sem sjá alltaf um að passa mig og umvefja mig svo innilegri umhyggju sem mér þykir svo vænt um. Mamma mín hefur alltaf verið langbesta mamman í öllum heiminum en núna er hún komin svo langt fyrir ofan lýsanleg mörk hún er bara svo mikið betri en albesta mamman sem fyrirfinnst, hún les huga minn líkt og hann sé hennar eigin svo er hún sú eina sem skilur öll óskýru orðin mín, hún gerir mig bókstaflega að þeirri sem ég er og með hennar hjálp að þeirri sem ég mun verða. Ég er svo óendanlega heppin í lífinu og með allt fólkið í kringum mig.

Ég er nýkomin heim eftir langt stopp í Reykjavík. Þar sigraði ég sko heldur betur sjálfan mig, á svo ólíkan hátt og marga litla en á sama tíma svo stóra og mikilfenglega sigra.

Þegar ég vaknaði eftir stóru heilablæðinguna þá gat ég bara hreyft annað augað og var bundin við öndunarvél. Ekki nokkur manneskja gat leitt hugann að því að þá fór að safnast vökvi bak við hljóðhimnurnar mína, með öllum sínum tilheyrandi verkjum og þessu helvítis suði. Í þrjú ár heyrði ég ekki neitt og ég bara hélt og trúði því í allri minni einlægni og hræðilegu þögn að bifhárin mín hefðu misst alla skynjun og verkirnir væru bara eitthvað sem ég þyrfti að lifa með svo ég sagði ekki nokkrum manni frá þessu, því þannig tekst ég á við mikinn ótta, minnist ekki á það og græt svo bara hljóðlausum tárum í koddann á kvöldin. Svo í sumar fór mig samt að langa að fá mér heyrnartæki. Ég saknaði þess svo að heyra allann venjulegan og hversdagslegan umgang, heyra óminn frá fjölskyldumeðlimum sem baksa um í húsinu og öll umhverfis hljóðin sem berast inn, tifið í klukkunni og ég þráði svo sárt bara að heyra og sáru tárin féllu hljóðlaus á kvöldin þegar ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að á morgun skildi ég segja við mömmu ,,Hey! Ég var að pæla í að fá mér heyrnartæki.” Og mikilvægast væri að brosa þegar ég myndi segja þetta því henni mætti aldrei gruna að ég hafi eytt öllum þessum mikla tíma í að loka mig frá öllum og hágrenja. Þegar morgundagurinn loksins kom mörgum dögum eftir þessa örlagaríku nótt þá varð ég að einum risa stórum stresshnút og með tárin í augunum, loksins segi ég þetta við mömmu, og hún bara skellihló og brosti og sagði ,,Hjúkk! Þá get ég loksins lækkað sjónvarpið!”

Þetta var pínulítill persónulegur sigur sem vannst þegar ég fór að hlæja með henni. Allt í einu urðu þessi svo sorglegu sorgartár að stórskemmtilegum gleðitárum. Mamma reyndi og reyndi að finna tíma sem hentaði mér hjá Heyrnar og talmeinastöðinni en það gekk heldur brösuglega svo við ákváðum að ég færi fyrst til háls, nef og eyrnalæknis útaf eyrnaverknum sem hafði verið að plaga mig frá því ég fékk áfallið. Hann leit í eyrun á mér og sagði mér að það væri ekkert skrítið þó ég heyrði bara alls ekki neitt og verkjaði svona rosalega í eyrun, þau væru troðfull af vökva. Ég þurfti því bara rör og núna heyri ég allt! Það er ekkert í heiminum öllum sem getur verið dásamlegra en það að liggja við hliðina á ástinni sinni og geta ekkert sofið því þú ert of upptekin við að hlusta á andardráttinn hjá manneskjunni sem á bæði hjarta þitt og hug þinn allann. Þegar Ásgeir fór í vinnuna þá hlustaði ég bara á fuglana eða á regndropana falla til jarðar með sínum róandi dynkjum. Ég heyri vel í fyrsta sinn í þrjú ár!

Frá því ég fékk áfallið þá var eins og það hefði verið klippt á allar mínar ótal mörgu og pirrandi ofvirku kítlutaugar, mig bara var gjörsamlega hætt að kítla. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég var fegin að kítla ekki eftir að hafa kítlað óeðlilega mikið. Það var núna um daginn, sem sagt alveg nýliðinn, einn fallegann haustmorgunn þegar mamma var að hjálpa mér að klæða mig í peysu og þegar hún fór með hendina sína í handakrikann á mér til að ná í peysuna og toga hana niður þá var eins og hún hefði vakið upp af svefni sem ég hafði í sannleika sagt ekkert saknað þessi síhlæjandi og kítlandi fiðrildi sem fara um mig alla þegar einver gerir sig líklegan til að snerta mig í handakrikunum. Ég var fljót að skella höndinni niður og hlæja eins og hinn mesti vitleysingur!

Þegar ég hélt í sigurförina til Reykjavíkur þá játaði ég smá þrá fyrir foreldrum mínum sem hafði blundað í hjarta mínu í lengri tíma. Draumur minn var heldur langþráður og eitthvað sem margir héldu að ég myndi aldrei ná en ég ætlaði mér að ná því. Ég lá inn á stofunni minni á Grensás þegar ég ákvað að eftir nokkur ár þá ætlaði ég mér að koma gangandi inn á Grensás. Síðan þá hefur þetta verið eitt af mínum allra stærstu markmiðum. Núna eru þrjú ár frá því ég lá á Grensás og leyfði mér að dreyma þennan draum. Ég þarf að fara með  reglulegu millibili á Grensás til að hitta lækninn minn og þá fer ég alltaf og heilsa upp á starfsfólkið sem reyndist mér svo vel á þessum erfiðu tímum. Í október heimsókninni fór ég gangandi inn á Grensás og var í augnhæð við alla sem ég hitti!

Það sem ég ætla að gera í október

Ég vakna einn bjartann og fallegan haustmorgun. Ég gef mér alltaf góðann tíma til að hugleiða upp í rúmi í morgunbirtunni, helst áður en nokkur annar vaknar, þá kem huganum í það dagsform sem mér þykir réttast hverju sinni. Svo núna um daginn þá fann ég að ég væri tilbúin í ærlega sjálfskoðun. Sú skoðun leiddi það í ljós að ég ætla að færa mér annan risa-stórann og kærkominn séns. Ég er komin með algjörlega nóg af því að leyfa huganum alltaf að tala mig niður, þó ég þrái það svo heitt að geta bæði talað og gengið þá færist ég bara fjær þeim markmiðum ef ég ætla að leyfa mér að loka og læsa mig djúpt inni í einhverri myrkrakompu öskra og hágrenja úr mér augun með súrum, fýldum og grænum saknaðartárum. Í draumaheimi þá myndi ég bara þrái að eiga draumahúsið með unnusta mínum, vera nær þeim sem eru mér mikilvægir, o.s.frv. Ég hef auðvitað allar þær langanir líka, þær eru bara svo pínu-agnar smávægilegar miðað við þá risa-stóru og plássfreku löngun og þrá að endurheimta vöðvakraftinn til að mynda skiljanleg orð, sungið eða jafnvel öskrað eða hrópað, endurheimta allann glataðann vöðvakraft og geta aftur hlaupið og gengið, notað báðar hendurnar mínar og vera þess megnug að geta gert allt sem ég gat gert áður en heilaáföllin komu. Ég ætla mér að ná þessu upp aftur og þá þýðir ekkert að gleyma sér í einhverri sjálfsvorkunn, það er svo drepleiðinlegt og ég veit vel að ég þrífst ekki vel í leiðindum. Ég á mér í staðinn eitt stórt markmið og það er eftirfarandi: ,,Að ná að endurheimta alla þá færni sem heilaáföllin tóku frá mér.” En þangað til það vinnst þá set ég mér mánaðarleg markmið með bros á vör!

Í OKTÓBER ÆTLA ÉG AÐ…

Núna er haustið komið og ég þarf að koma mér í góða haust-rútínu. Mér líður best ef ég næ að vera mætt á skrifstofuna mína og byrjuð að vinna klukkan sjö. Ég kann vel við það, mér finnst ég ná að gera miklu meira úr deginum þegar ég byrja að vinna klukkan sjö. Þá vil ég líka fara sofa klukkan átta.

Ég finn hvað ég verð mikið afkastameiri ef það fyrsta sem ég geri þegar ég sest á skrifstofuna mína á morgnanna er að finna tvö eða þrjú verkefni sem ég ætla að leggja aðaláherslu á þann daginn, þá get ég raðað þeim niður í tíma- og áhersluröð með öllum hinum verkefnum.

Dagarnir verða svo miklu auðveldari og skemmtilegri ef brosið er mitt leiðarljós í gegnum þá!

Ég á það til að missa aðeins móðinn þegar allt mitt hversdagslega líf fer að koma aftur inn eftir sumarfrí. En ég ætla aldrei að missa móðinn og gefast upp þó það sé stundum svolítið freistandi að klæðast bara náttfötum á nóttunni og líka allan liðlangan daginn, liggja svo bara upp í rúmi og lesa. Þegar ég er í þessu hugarástandi þá geta allir athafnir sem reynast mér erfiðar orðið hreinlega ógerlegar í huganum á mér, en þá þarf ég bara að muna að ég get allt þó það taki langan tíma og sé mér erfitt. Ég GET, ÆTLA og SKAL komast á æfingar á hverjum degi og eftir æfingar tekur vinnan aftur við!

Ég ætla að klæðast spelkum og skóm alla daga. Það hvetur mig til að ganga á milli staða.

Ég þarf að minna sjálfa mig á að reyna fyrst að segja það sem ég vil segja áður en ég stafa það á stafaspjaldinu.

Gleðin gefur svo mikið af sér. Ég ætla að láta gleðina vera öllu yfirsterkara svo ég taki á móti áskorunum með brosi á vör þá get ég gert mitt albesta til að ég geti verið stolt og ánægð með sjálfan mig.

Þegar ég vakna þá finnst mér ég sjaldan byrja dagana betur en þegar ég kem huganum fljótlega í það að hugsa jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir um bæði mig og verkefni dagsins, þá líða dagarnir miklu auðveldar.

Njóta haustsins og eyða sem mestum tíma með vinum mínum og fjölskyldu.

Borða á fyrirfram ákveðnum tímum. Ég verð aldrei svöng svo ég ætla að prufa að borða eftir klukku!

Litlu sigrarnir í ágúst

Ágúst er greinilega mánuðurinn sem kemur með stóru sigrana og sýnir mér að ég megi aldrei nokkurntímann svo mikið sem íhuga það að gefast upp. Lífið er bölvaður barningur á mismunandi sviðum fyrir okkur öll.. Ég er svo gífurlega lánsöm að vera elskuð og pössuð af þeim allra besta unnusta sem hugsast getur. Fólkið sem stendur mér næst leggur sig allt fram um að geta á hverju degi borið mig uppi á einhverju því mýksta og þægilegasta skýi sem til er og þá fæ ég að dansa með fólkinu sem ég elska svo undur heitt, umvafin allri þeirri ást, kærleik og væntumþykju sem nokkur getur ímyndað sér, föðmuð af þessum óstöðvandi og gífurlega skemmtilega hlátri sem er allsstaðar í kringum mig. Ég er svo heppin. Þó líkamleg heilsa sé ekki upp á marga fiska þá dreymir mig stórt og ég fæ að stefna huganum í þær allra hæðstu hæðir.

Mér finnast það vera hrein og klár forréttindi að fá að átta sig á því að við erum öll okkar eigin skipstjórar og ráðum því hvernig við tökum á hlutunum. Ég reyni alltaf að sigla í birtunni og logninu en ef illviðrið gómar mig þá er ég fljót að koma mér úr því. Ég sigli nefnilega mínum bát og veiði einungis sigrana upp úr fljóti lífsins, þeir gleðja sjóarann síkáta (mig) alltaf jafn mikið sama þó sumir þeirra séu alveg agnarpínu litlir, flestir eru svolítið stærri og svo þá koma alltaf inn á milli þessir risa-stóru. Tilfinningin sem hríslast um mig alla við að draga þessa risa stóru inn er einhver sú stórskemmtilegasta samansafn af tilfinningum sem ég þekki, það er einhverskonar blanda af eftirvæntingu, fögnuði, ótrúleg gleði, ólýsanleg ánægja og þegar ég er orðin nokkuð fullviss að sigurinn sé unninn þá byrja ég að hlæja og grenja til skiptis.

Það er mér svo mikil og innileg ánægja sem ég fyllist þegar ég skrifa þessi orð því ágúst sigurinn er stór og breytir öllum áherslum í þeirri þjálfun sem ég stunda.

Í seinustu viku fór ég bara tvisvar og hitti þjálfarana mína og fékk að ganga og taka á undir þeirra verndarvæng og leiðsögn. Ég er svo ótrúlega heppin með þjálfara, þær passa að ég gangi ekki fram af mér en þær leyfa mér alltaf að gera mitt albesta og stundum þá fæ ég að gera jafnvel örlítið meira og reyna að gera aðeins betur. Þetta er þrjóskupúkinn sem bæði eltir mig og talar í mér og skipar mér að gera mitt allra besta og í það minnsta reyna að áorka miklu meira. Þökk sé honum þá stundum kemur árangurinn í stökkum.

Í sumar þá hafa nokkrir pínu-agnar-smái sigrar unnist í göngunni. Fyrsti agnarsmái ,,sigurinn” ef sigur má kalla, sem ,,vannst” var sá að ég endanlega gafst upp á því að nota göngugrind til að styðja mig í göngunni, mér fannst sem hún væri bara fyrir mér og gerði ekki annað en að hefta mig. Ég gat ekki ráðið skreflengdinni, ef ég vogaði mér að vera skrefstór þá kostaði það mig nokkra slæma og ljóta marbletti á fæturna mína. Eins truflaði það mig alveg óskaplega að hafa báðar hendurnar fastar til að stýra grindinni, svo ofan á þetta allt þá finnst mér hún bara vera afskaplega ljót, hún skyggir á mig og fötin sem ég klæðist fá ekki að njóta sín jafn mikið og ég vil að þau geri. Þetta hentar mér allavega ekki akkúrat núna kannski þroskast ég upp í það að geta gengið með/við göngugrind.

Ég kasta göngugrindinni fegin frá mér og byrja að ganga á milli þjálfarans og svo gríp ég í handrið með vinstri hendi. Þannig geng ég góðann spotta, ég æfi gönguna þannig alveg sama hvort sem ég geng á jafnsléttu, upp brekku eða niður brekku.

Í seinustu viku þá fann ég fyrir einhverri aukinni innspýtingu af þeim almesta krafti sem mig óraði ekki fyrir að ég væri svo heppin að geta búið yfir. Ég var að ganga niður brekku og allt í einu þá stoppa ég og bið þjálfarann minn að sleppa mér því ég ætlaði að athuga hvort ég gæti haldið jafnvægi einungis með því að halda í handriðið og reyna að stíga skref. Þjálfarinn minn var treg til að fá sig til að þora að treysta mér en hún gerði það á endanum og ég tók þrjú skref þar sem eini stuðningurinn sem ég hafði var einungis vinstri höndin á handriðinu! Í næsta tíma tók ég TÓLF skref þar sem ég gekk upp brekkuna og studdi mig einungis við handrið!

Ef þið fylgið mér á instagram þá sáuð þið eflaust storýin hjá mér þegar þetta átti sér stað. Ég er alveg fullviss um að þessi aukni ágúst kraftur sem ég hef fyllst á undanförnum þremur árum komi frá öllum þeim aukna krafti sem Reykjavíkurmaraþonið árið 2015 veitti mér, ég er viss um að ég búi að þeim krafti út allt lífið mitt!