Litlu sigrarnir í Janúar

Frá því ég var lítil hef ég alltaf getað verið ákaflega ánægð og stolt af sjálfri mér. Við þessi þrjú áföll óttaðist ég að þessi eiginleiki sem skiptir mig svo afar miklu máli hefði horfið og myndi örugglega aldrei sýna sig aftur í mínum karakter. Ég stóð mig jafnvel að því að vera að hugsa hugsanir í þessum dúr; hver getur svo sem verið ánægður og stoltur af sjálfum sér og verið svona bæklaður eins og ég er enn sem komið er. Ég hef ekki einu sinni örlitla stjórn yfir þeim vöðvum sem ég hafði áður en ég veiktist en samt er ég yfirleitt alltaf svona glöð. Ég trúi því statt og stöðugt að ég sé heppnasta manneskja sem til er í þessum heimi. Mér finnst að öllum eigi að finnast það um sjálfan sig, ,,af hverju segir þú það” er eflaust svarið sem ég fengi og ég svara því ,,AF ÞVÍ AÐ ÞÚ ERT ÞÚ!” Frá því vöðvarnir í andlitinu fóru að svara mér þá hef ég reynt að muna eftir því á hverjum morgni að brosa og hugsa ,,Vá hvað ég er heppin!” Að eiga dag sem er svo stútfullur af tækifærum er svolítið annað en þegar ég lá á gjörgæslunni, þar vaknaði ég bara og ég gat ekki brosað en ég ímyndaði mér að ég gæti kallað fram bros og sagði við sjálfan mig ,,í dag ætla ég mér að halda fast í lífið”, þó það hafi oft staðið tæpt þá hafa verkefnin mín yfir daginn bara aukist og í dag hugsa ég oft bara ,,Í dag ætla ég mér að gera mitt allra besta!” Ég trúi því að með rétta hugarfarinu og með gleðina að vopni komist ég lengra!

Hreyfa öklana

Það er eiginlega fáránlega stutt ssíðan þeir hreyfðust ekki og þó þeir hlýða mér núna þá veit ég að það eru margir sigrar sem ég á eftir að sigra þangað til ég verð ánægð. Næsta ökla markmið er að ég þarf verulega að bæta stöðugleikann í kringum öklana. Ef þið eruð með mig á instagram (@katrinbjorkgudjons) þá sýni ég það oft þar í story það sem betur má fara.

Ég get farið ofan í baðkar!!

Þið getið ekki ímyndað ykkur gleðina sem það veitir mér að loksins eftir rúmlega tvö og hálft ár hafi ÉG loksins í alvöru möguleika á því að sjóða mig ofan í brennandi heitu baði!

Leave a Reply