Langt síðan síðast!

Peysa, buxur og taska eru frá ZO-ON

Halló fallegi heimur! Nú er ég að vakna og byrjuð að líkjast sjálfri mér eftir fjóra mjög krefjandi og þunga mánuði. Ég er svo innilega þakklát öllum þeim sem standa mér næst og þau passa upp á að góða og bjarta skapið fái aldrei að víkja mér frá.

Ég hef samt reynt að hafa nóg að gera, desember leið með öllum sínum jólauppákomum, þó ég hafi verið úthaldslítil þá naut ég mín bara á hliðarlínunni. Litlausi janúar kom og þá fór ég til dæmis í yndislegar þrjár vikur til Reykjavíkur. Febrúar kom og fyrst þá sleppti höfuðborgin takinu á mér, ég hélt heim og stóðst svo annað árið í röð þá miklu og erfiðu áskorun sem ég set á sjálfan mig og skemmti mér manna best á stóra og skemmtilega þorrablótinu sem er haldið hérna. Síðan kom minn allra uppáhalds mánuður mars og þá gat ég loksins aftur byrjað að skrifa og æfa!

Eftir lítið desember óhapp sem endaði svo á því að vera jólakraftaverk. Viku fyrir jól var ég flutt í flýti til Reykjavíkur á Landspítalann. Á þeirri viku gerðust heldur betur kraftaverk og öllum til undrunar og gleði fékk ég að halda jólin heima, umvafin öllu mínu mikilvægasta fólki. Í dag, þremur mánuðum eftir þessa lífsreynslu stend ég staðfastari en nokkurn tímann áður í þeirri trú að ég sé í hópi þeirra allra heppnustu manneskja í öllum þessum risastóra heimi!

Daginn áður en ég hélt til Reykjavíkur þá beið mín einn sá besti pakki sem ég hef nokkurn tímann fengið. Þetta var sem mér hefði verið veittur lykill að betri líðan, því í honum leyndust fjórar góðar og skemmtilegar bækur sem ég fékk að gjöf frá Forlaginu. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri. Ég gæti ekki verið þakklátari, ég bókstaflega át þessar sögur ofan í mig með hinni mestu og bestu lyst og ánægju. Ég hef sýnt og sagt frá þeim á instagram story. Ég fékk svo mikil og góð viðbrögð við því að ég hef ákveðið að setja það líka hingað inn um hvað bækurnar eru, ásamt því ætla ég líka að segja ykkur hvaða áhrif lesturinn á þeim hafði á mig.

„Að vetrarlagi” eftir Isabel Allende.

Aftan á bókarkápunni stendur:

„Þegar versti snjóbylur í manna minnum geisar í Brooklyn lendir háskólaprófessorinn Richard í því að keyra á bíl ungrar konu, Evelynar, sem er ólöglegur innflytjandi frá Gvatemala. Ekkert stórmál – fyrr en Evelyn birtist skömmu síðar heima hjá honum og biður um hjálp. Í örvæntingu leitar Richard ráða hjá leigjanda sínum, Lucíu frá Chile, og það verður upphaf óvæntrar ástarsögu og ævintýralegs leiðangurs til Gvatemala samtímans og Brasilíu og Chile áttunda áratugar síðustu aldar. Isabel Allende hóf feril sinn með töfrasögunni óviðjafnanlegu, Húsi andanna, sem fór sigurför um heiminn. Hún hefur síðan skrifað fjölda skáldsagna og átakamál samtímans hafa ávallt verið henni hugleikin. Mannréttindi, mannleg reisn og innflytjendamál eru meginstefin í þessari heillandi sögu sem skrifuð er af rómuðu innsæi ástsæls höfundar.”

Þessi bók greip mig strax frá fyrstu síðu, ég er núna búin að lesa hana fjórum sinnum. Í hvert sinn sem ég byrja á sögunni birtist mér ný saga sem iljar hjarta mínu og hún fangar huga minn og segir mér í raun nýja sögu. Ég sé fyrir mér að þessi saga fái að eiga heima á náttborðinu mínu út árið. Mér finnst svo gott að hafa allavega eina bók á náttborðinu sem ég get lesið á kvöldin þegar mig vantar góðann endi á daginn. Á þannig kvöldum þá knúsar þessi bók hjartað!